17.12.2023 10:27

Frá lýðræði til foringjaræðis

Samfylkingin hefur tekið á sig svipaða mynd og aðrir innlendir smáflokkar þar sem um foringjaræði er að ræða í kringum stofnendur flokkanna.

Á tæpum aldarfjórðungi hefur Samfylkingin í sex ár átt aðild að ríkisstjórnum: 2007 til 2013. Árin sex einkennast af efnahagslegum og pólitískum hamförum. Þeim má skipta í þrjá kafla:

  • Stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn undir forsæti Geirs H. Haarde frá 24. maí 2007 til 1. febrúar. Í tíð stjórnarinnar hrundi fjármálakerfið hér og erlendis.
  • Minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, formanns Samfylkingarinnar, með Vinstri grænum (Steingrími J. Sigfússyni) og þingstuðningi Framsóknarflokksins. (1. febrúar til 10. maí 2009)
  • Meirihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur með Vinstri grænum (10. maí 2009 til 23. maí 2013). Stjórninni náði ekki fram áformum um að breyta stjórnarskránni, um að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu og um að Ísland yrði aðili að ESB. Þá stóð ríkisstjórnin að gerð ICESAVE-samninganna sem þjóðin hafnaði í tvennum atkvæðagreiðslum.

Fr_20220819_183289Frá fundinum í Iðnó 19. ágúst 2022 þar sem Kristrún Frostadóttir var „krýnd“ til valdatöku í Samfylkingunni (mynd: vefsíða Samfylkingarinnar).

Tveir af fyrrverandi ráðherrum Samfylkingarinnar, Oddný Harðardóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir, eiga nú sæti í sex manna þingflokki Samfylkingarinnar. Þær eiga báðar undir högg að sækja hjá núverandi forystu flokksins, Kristínu Frostadóttur og Jóhanni Páli Jóhannssyni.

Kristrún hefur ýtt Oddnýju til hliðar sem talsmanni flokksins í ríkisfjármálum og Jóhann Páll storkar Þórunni með því að boða stefnu í orkumálum sem hún telur brjóta í bága við orkustefnu sem mótuð var á landsfundi flokksins árið 2022.

Samfylkingin hefur breyst úr lýðræðislegum flokki þar sem tekist var á um formennsku í póstkosningu vorið 2000 með þátttöku 4401 kjósanda í fámennan félagsskap þar sem 382 greiddu atkvæði í formannskjöri haustið 2022 eftir að formannsefnið hafði verið „krýnt“ nokkrum mánuðum áður.

Samfylkingin hefur tekið á sig svipaða mynd og aðrir innlendir smáflokkar þar sem um foringjaræði er að ræða í kringum stofnendur flokkanna: Sigmund Davíð Gunnlaugsson í Miðflokknum, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í Viðreisn og Ingu Sæland í Flokki fólksins.

Þróun stjórnmála í þessa átt ýtir undir lýðskrum í þágu foringjans. Málflutningur í þá veru einkennir Samfylkinguna um þessar mundir. Gagnrýni á flokkinn er ekki svarað málefnalega heldur tekið til við að ræða „hræðslu“ ef ekki „ofsahræðslu“ gagnrýnenda við foringjann.

Þetta er sorgleg þróun hjá flokki sem varð til á rústum gamla Alþýðuflokksins. Hann stóð á gömlum rótum og virti lýðræðislegar hefðir þar til yfir lauk. Þá er ekki síður dapurlegt að fylgjast með því hvernig stjórnmálafræðingar og álitsgjafar láta eins og útrýming jafnaðarstefnunnar sé eitthvert náttúrulögmál. Ein meginstoða jafnaðarstefnu er varðstaða um frjálslynt lýðræði andspænis foringjaræði.

Því miður bendir fátt til að Samfylkingin sé stjórntækur stjórnmálaflokkur. Samfylkingin sver sig æ meira í ætt við lýðskrumsflokka þar sem stefnumál skipa annað sæti en foringinn er hafinn til skýjanna.