Frá ljósakvöldi í Guðbjargargarði
Í máli Péturs kom fram að endurreisnin hefði tekist einstaklega vel til þessa og hefði miklum ómetanlegum minjum þegar verið bjargað. Enn er þó mikið og kostnaðarsamt verk óunnið.
Ljósakvöld var í Guðbjargargarði við Múlakot laugardaginn 7. september undir trjám sem eiga rætur allt aftur til ársins 1897 í orðsins fyllstu merkingu.
Það ár gróðursetti Guðbjörg Þorleifsdóttir húsfreyja í Múlakoti fyrsta reynitréð hér. Í garðinum er hennar minnst með varða sem sunnlenskar konur reistu henni til heiðurs í tilefni af því að árið 1970 voru 100 ár liðin frá fæðingu Guðbjargar.
Til að búa betur að gestum reisti Guðbjörg lysthús í horni garðsins. Það varð tímanum að bráð en í fyrra var húsið endurgert eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmynd:
Ötulir stuðningsmenn Vinafélagsins
tóku að sér að styrkja endursmíðina. Guðmundur Magnússon smiður á Flúðum
viðaði að sér efni í húsið (hurðir, glugga, klæðningu) og setti það saman og
kom það þannig í Múlakot vorið 2023.
Húsið er höfðingleg gjöf til Sjálfseignarstofnunarinnar Múlakots frá þrennum hjónum í uppsveitum Árnessýslu. Það er gert í samræmi við teikningar af síðustu gerð hússins og eldri ljósmyndir. Húsið er fullbúið húsgögnum, þar á meðal nær 100 ára eikarborði, sem var í upprunalega lysthúsinu.
Skúli Jónsson á Kirkjubæjarklaustri smíðaði bekk og tvo stóla í húsið úr reyniviði í garðinum og lagði í gólf hússins efni sem var gjöf ábúenda Múlakots, Sigríðar Hjartar og Stefáns Guðbergssonar.
Listmálarinn og bóndinn í Múlakoti, Ólafur Túbals, sonur Guðbjargar, kynntist skrautljósum í Tívolígarðinum í Kaupmannahöfn vorið 1929. Hann setti ljósin í garðinn og höfðu þau mikið aðdráttarafl þar sem Fljótshlíðin var almennt ekki raflýst fyrr en mörgum árum síðar.
Alls þessa var minnst á ljósakvöldinu. Pétur Hrafn Ármansson, arkitekt, starfsmaður Minjastofnunar Íslands, fór yfir aðdraganda ákvörðunarinnar um friðlýsingu Múlakots og þess að nú eru 10 ár liðin frá því að Sjálfseignarstofnunin Múlakot var stofnuð 8. nóvember 2014 til að tryggja eftir mætti varðveislu menningarminja og minjalandslags í Múlakoti. Þar er um að ræða bæjarhúsin sem risu árin 1897-1946 og innbú þeirra, rústir hesthúss, hlöðu og súrheysturns, málarastofu og verkstæði Ólafs Túbals auk garðs Guðbjargar.
Snemma árs 2015 var Vinafélagið stofnað til að styðja við bakið á sjálfseignarstofnuninni.
Í máli Péturs kom fram að endurreisnin hefði tekist einstaklega vel til þessa og hefði miklum ómetanlegum minjum þegar verið bjargað. Enn er þó mikið og kostnaðarsamt verk óunnið.
Samhliða því sem afbragðssmiðir og aðrir handverksmenn vinna við bæjarhúsin hefur Guðbjörg Konráðsdóttir frá Skógasafni skráð muni í gamla bænum. Alls var 421 munur skráður. Ber að þakka og fagna að Skógasafn eigi nú slíka skrá.
Hér eru nokkrar myndir frá ljósakvöldinu:
Pétur Hrafn Ármannsson flytur ræðu sína. Skúli Jónsson gerði púltið úr reyniviði úr garðinum.
Ísólfur Gylfi Pálmason leiddi fjöldasöng og lék á gítar. Með honum voru forsöngvarar Steinunn, kona hans, og feðgar frá Selfossi, rakararnir Björn og Kjartan.
Setið við reyniviðarborðin á reyniviðarbekkjum.
Spjallað saman yfir kaffiveitingum.
Í sumar hefur girðing um garðinn verið endurnýjuð og suðurhlið vestari hluta hússins með nýjum gluggum og bárujárni. Næsta ár er stefnt á endurnýjun vestur gaflsins og norðurhliðarinnar, fáist fjármagn.
Eyjafjallajökull er ávallt nálægur – snjórinn minnkar ár frá ári.