18.12.2020 9:48

Forystuskjól Samfylkingarinnar

„Sænska leiðin“ sem nú er framkvæmd á vettvangi Samfylkingarinnar er umgjörð um að flokksforystan eða forystufólki í hverju kjördæmi raði á framboðslista.

Nokkur athygli beinist að þeim sem hafa hug á að bjóða sig fram fyrir Samfylkinguna í þingkosningunum 25. september 2021. Hannað hefur verið kerfi vegna framboðsins í Reykjavík sem gengur undir nafninu „sænska leiðin“. Hún felur í sér að flokksfélagar geta lýst skoðun sinni á frambjóðendum á netinu frá síðdegi í dag (18. desember) og fram á sunnudag. Settur er kross við 5 til 10 á lista frambjóðenda. Niðurstaðan verður kynnt uppstillingarnefnd flokksins. Ekki verður skýrt opinberlega frá hver varð niðurstaða þeirra sem tóku afstöðu. Uppstillingarnefndin ein veit um það og kynnir síðan lista, líklega í febrúar 2021.

Síðast var mikið talað um „sænsku leiðina“ á innlendum stjórnmálavettvangi fyrir rúmum áratug. Þá var víða barist fyrir henni til að stöðva vændiskaup. Var hún talin lausn alls vanda þar. Eftir að vinstri meirihluti varð til á alþingi 1. febrúar 2009 var þessi „sænska leið“ samþykkt með hraði á alþingi og minnir mig að við höfum verið þrír alþingismennirnir sem höfðum efasemdir um að með henni yrðu þáttaskil hér eða annars staðar með framkvæmd leiðarinnar. Höfðum við rétt fyrir okkur.

„Sænska leiðin“ sem nú er framkvæmd á vettvangi Samfylkingarinnar er umgjörð um að flokksforystan eða forystufólki í hverju kjördæmi raði á framboðslista. Yfirlýst markmið með vali leiðarinnar er að draga úr líkum á illindum milli flokksmanna.

Keppni milli Pírata og Samfylkingar hefur aukist undanfarið eins og birtist til dæmis í afstöðu flokkanna til stjórnarskrármálsins. Þar hafa þeir skipað sér á bakvið „nýju stjórnarskrána“ sem aldrei verður annað en orð á blaði. Þeir rufu þar með samráðsferlið sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stýrir og ollu því að ekkert gerist í stjórnarskrármálinu á þessu kjörtímabili annað en framhald á gagnasöfnun og rýnivinnu sem nú hefur staðið allt frá vori 2009 þegar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hratt þessu ferli af stað án ígrundunar og af grenjandi ábyrgðarleysi með Steingrími J. Sigfússyni ásamt Framsóknarflokknum undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

1241845Logi Einarsson ávarpar fjar-landsfund Samfylkingarinnar. Andstaðan við átakafundinn 2015 gat ekki verið meiri. Í fimm ár hefur öll áhersla forystunnar verið á að forðast ágreining innan flokksins (mynd mbl.is).

Samstarf forystu Samfylkingarinnar við Pírata varð ef til vill til þess að Samfylkingin hannar nú leið við leit að frambjóðendum án þess að gefa almennum kjósendum tækifæri til að eiga lokaorð um val á lista. Píratar glíma við þann innanflokksvanda í Evrópu að forystumenn þeirra treysta sér meira að segja ekki til að taka þátt í fjarfundum af ótta við áreiti af hálfu annarra sem hafa rétt til fundarsetu. Um þetta áreitis-andrúmsloft meðal evrópskra Pírata má lesa á vefsíðu íslenska Pírataflokksins.

Undir forystu Loga Einarssonar hefur Samfylkingin stig af stigi lokað stjórnkerfi sínu. Innan flokksins minnast menn hatrammra átaka sem urðu eftir kosningaósigurinn mikla 2013 þegar leit hófst að öðrum sökudólgi en Jóhönnu Sigurðardóttur. Á landsfundi flokksins í mars 2015 var Árni Páll Árnason endurkjörinn formaður með aðeins einu atkvæði eftir slag við þingmann flokksins, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, frambjóðanda Jóhönnu-armsins.

„Sænska leið“ Samfylkingarinnar er forystuskjól í stað opinna átaka.