3.5.2023 9:17

Forystuhlutverk LHG

Vegna borgaralegs hlutverks LHG á gæslan að taka að sér forystu um skipulag leitar og björgunar á hafsvæðunum umhverfis Ísland.

Fyrir þá sem fylgst hafa með störfum Landhelgisgæslu Íslands (LHG) áratugum saman er næsta óskiljanlegt að nú árið 2023 skuli umræður snúast um að draga eigi úr hæfni gæslunnar til að sinna störfum sínum með því að stíga skref til baka og minnka flugvél hennar. Selja TF-SIF og kaupa minni vél af því að hún sé „hagkvæmari“.

Ein af rökunum fyrir flugvélaskiptunum eru þau að TF-SIF reynist svo vel vegna hæfni sinnar við eftirlits- og björgunarstörf á Miðjarðarhafi að FRONTEX, Landamærastofnun Evrópu, sækist eftir henni þangað. Hefur þessi þjónusta LHG í þágu gæslu sameiginlegra Schengen-landamæra staðið undir verulegum kostnaði við reksturinn á TF-SIF. Tengslin vegna þessa framlags LHG og reynslan sem af því leiðir verða aldrei metin til fjár. Þegar rætt er um „hagkvæmni“ af minni vél er hætt við að þessir þættir gleymist.

Vegna borgaralegs hlutverks LHG á gæslan að taka að sér forystu um skipulag leitar og björgunar á hafsvæðunum umhverfis Ísland. Til þess þarf hún sjálf að ráða yfir framúrskarandi tækjum, varðskipið Þór og eftirlitsflugvélin TF-SIF eru slík tæki.

4small-sifTF-SIF (mynd: LHG.is).

Eðli leitar- og björgunarstarfs kallar á að fyrir hendi séu tæki og þjálfaður mannafli til útkalls þegar á þarf að halda. Alþjóðleg björgunarmiðstöð fyrir sjófarendur á Íslandi er reist á þessum grunni. Að fyrir hendi séu tæki og mannafli sem veiti fyrstu aðstoð eftir bestu getu og síðan bætist annarra þjóða liðsauki við eftir því sem nauðsyn krefst.

Hér hafa farið fram alþjóðlegar stórslysaæfingar á sjó. Með sífelldri fjölgun risavaxinna skemmtiferðaskipa vex þörfin fyrir slíkar æfingar. Viðurkennt er að engin ein þjóð, sama hve stór hún er, hefur burði til að glíma við slíkt stórslys, það yrði alþjóðlegt áfall án tillits til þess hvar það yrði. Vegna fjarlægða og strjálbýlis við norðurhöf er þörfin fyrir sameiginlegt átak þar meiri en annars staðar.

Í stað þess að eyða kröftum í að velta fyrir sér illa ígrundaðri hugmynd um að selja TF-SIF fyrir aðra minni ætti að gera gangskör að því að breyta lögum um LHG í samræmi við auknar skyldur stofnunarinnar eftir brottför varnarliðsins árið 2006.

Þegar rætt er um TF-SIF er gjarnan vitnað í úttekt ríkisendurskoðunar frá ársbyrjum 2022 þar sem talið var æskilegt að flugvélin yrði meira hér á landi. Þingnefnd sem fjallaði um úttektina gerði lítið úr þessari athugasemd enda er hún frekar léttvæg í stóra samhenginu. Í skýrslunni er fundið að því að ábyrgðarkeðjan sé of flókin þegar litið sé til starfa LHG við núverandi aðstæður.

Úr þessari flækju er miklu brýnna að greiða en að ætla að skerða fluggetu gæslunnar. Færu menn í saumana á gífurlega mikilvægu hlutverki LHG við núverandi aðstæður kæmust þeir örugglega að þeirri niðurstöðu að frekar ætti að auka eftirlitsgetu hennar úr lofti, til dæmis með drónum, en draga úr henni.

Það skiptir sköpum þegar mest á reynir að íslensk stjórnvöld hafi sjálf forræði yfir öflugum lykiltækjum undir stjórn LHG. Þannig er málum nú háttað. Að vega að þeim kjarna er glapræði.