Fortíðin er þrautseig
Lokaorð forseta verða ekki til þess að slá á baráttu þeirra sem vilja að hann sitji áfram á Bessastöðum.
Orðrómurinn um að Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sé á leið í háa stöðu á alþjóðavettvangi heldur áfram. Í fyrra var talað um að hún yrði hugsanlega framkvæmdastjóri NATO. Þetta er nú úr sögunni. Nú ber hins vegar hátt að hugsanlega verði hún forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins eftir kosningar til ESB-þingsins í sumar.
Ursula von der Leyen er frambjóðandi borgaraflokkanna innan ESB til að halda áfram sem forseti framkvæmdastjórnar ESB. Í samræmi við hefð innan sambandsins ættu jafnaðarmenn að eiga embætti forseta leiðtogaráðsins. Danir telja Frederiksen eiga góða möguleika á að hljóta hnossið. Jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz Þýskalandskanslari ráði miklu um það en sagt er að vinsamlegt samband sé á milli hans og danska forsætisráðherrans.
Um þetta er fjallað í Berlingske í dag (27. mars) og hefja blaðamennirnir frásögnina á þennan hátt:
„Í þriðju og síðustu Godfather-mynd Francis Ford Coppola frá 1990 segir gamli mafíuforinginn Michael Corleone, leikinn af hörkulegum Al Pacino, eina af best þekktu setningum kvikmyndasögunnar.
Með örvæntingarfullum svip áttar hann sig á því að fortíðin hefur elt hann uppi og honum hefur mistekist að segja skilið við skipulagða glæpastarfsemina.
Í hálfdimmu eldhúsi kreppir hann hnefana og næstum kvæsir:
„Just when I thought I was out, they pull me back in.“
Þegar hann hélt að hann væri kominn á nýja braut birtust vandamálin að nýju.“
Blaðamennirnir taka fram að Mette Frederiksen sé alls ekki mafíuforingi og ekki þekkt fyrir að kreppa hefana en hún sleppi ekki undan orðróminum og opinberum vangaveltum um að hún sé á leið í mikilvægt embætti á alþjóðavettvangi.
Þegar þessi frásögn er lesin mætti nefna Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, til sögunnar eins og Mette Frederiksen. Í Morgunblaðinu í dag segir frá því að stöðugt sé skorað á hann að hætta við að hætta sem forseti Íslands.
Í lok fréttar blaðsins um þetta segir:
„Morgunblaðið leitaði viðbragða Guðna vegna þessa í gær. Hann baðst undan viðtali, enda í fríi í útlöndum, en sendi stutt svar í tölvupósti þar sem hann staðfestir þetta:
„Ég hef fengið áskoranir, beiðnir og spurningar um hvort hefja megi söfnun undirskrifta en hef ekki léð máls á slíku. Sem fyrr er ég þakklátur fyrir góðan stuðning. Ákvörðun um að láta gott heita er hins vegar það stór að henni verður ekki breytt nema afar ríkar ástæður séu til þess.“
Lokaorð forseta verða ekki til þess að slá á baráttu þeirra sem vilja að hann sitji áfram á Bessastöðum. Guðni Th. opnar þarna glufu hvernig svo sem skýra má orðin „afar ríkar ástæður“.
Í nýársávarpi 2016 lýsti Ólafur Ragnar Grímsson yfir að hann yrði ekki í kjöri að nýju þá um sumarið. Hann skipti hins vegar um skoðun 18. apríl 2016 og bauð sig fram og stóð það til 9. maí eftir að Guðni Th. og Davíð Oddsson gáfu kost á sér. Fortíðin geymir mörg fordæmi.