7.6.2021 10:01

Fortíðarstefna Loga

Ekkert af því sem Logi Einarsson boðaði er lykill að framtíðinni heldur afturhvarf til fortíðar sem leiðir þjóðlíf í ógöngur.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, setti sig á háan hest um helgina gagnvart dönskum jafnaðarmönnum og sagðist ætla að segja þeim til syndanna vegna laga sem samþykkt voru á danska þinginu í fyrri viku um hælisleitendur. Í lögunum er dönskum yfirvöldum veitt heimild til að vísa hælisleitendum til dvalar utan Danmerkur á meðan hælisumsóknin er til meðferðar hjá réttum yfirvöldum í landinu. Talið er að samið hafi verið um stjórnvöld í Afríkuríkinu Rwanda um þátttöku í þessu verkefni og einnig hafi verið rætt við embættismenn í Eþíópíu, Túnis og Egyptalandi.

Fullvíst er að ekkert verður gert með gagnrýni Loga á nýju lögin í Danmörku. Það verður litið á orð hans sem hvert annað nöldur eins og nú er tilhneiging til að gera vegna orða hans hér. Undir forystu Loga fjarlægist Samfylkingin sjónarmiðin sem jafnaðarmenn utan Íslands hafa lagt áherslu á til að endurvinna almennt dvínandi áhuga kjósenda á jafnaðarmannaflokkum. Stefna þeirra staðnaði á einhverju stigi og þeir hneigjast æ meira til vælu-stjórnmála – þó ekki í Danmörku þar sem Mette Frederiksen, flokksformaður og forsætisráðherra, stjórnar með harðri hendi og hafnar öllum vælugangi.

1235010Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar (mynd: mbl.is/Kristinn Magnússon).

Flokksstjórn Samfylkingarinnar kom saman til fundar laugardaginn 5. júní undir kjörorðinu: Lykillinn að framtíðinni. Ef Samfylkingin ætlar að hafa þetta sem slagorð sitt fyrir þingkosningarnar 25. september má kenna það við öfugmæli því að í hinu orðinu boðar flokkurinn að horfið skuli fortíðar með því að taka upp stjórnarskrármálið þar sem Jóhanna Sigurðardóttir og ríkisstjórn hennar skildi við það á árinu 2013. Þá vill Samfylkingin einnig taka upp ESB-aðildarmálið sem siglt var í strand strax árið 2011 og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra flokksins, blés síðan út af borðinu í janúar 2013 til að forða því að það yrði kosningamál þá um vorið.

„Þess vegna vill Samfylkingin nýja stjórnarskrá með skýru auðlindaákvæði. Og sættir sig við ekkert minna!“ sagði Logi Einarsson á flokksstjórnarfundinum. Hann taldi ESB að þakka hve vel gengi að bólusetja Íslendinga gegn kórónuveirunni og sagði: „Þess vegna vill Samfylkingin alþjóðasamstarf aftur í öndvegi. Og kveikja að nýju í Evrópuhugsjóninni með því að gefa þjóðinni val um framhald aðildarviðræðna.“

Loks klykkti hann út með því að segja: „Sem betur fer sjáum við í könnunum möguleika á þess konar [nýrri ríkis]stjórn. Stjórn sem Samfylkingin getur haft forgöngu um að mynda. Það má kalla það Reykjavíkurmódelið, R-lista-konseptið eða græna félagshyggjustjórn.“

Logi vill leiða ríkisstjórn með þátttöku VG, Pírata og Viðreisnar að fordæmi Dags B. Eggertssonar í Reykjavík þar sem skuldasöfnun, bágborin stjórnsýsla og virðingarleysi fyrir samráði við borgarnbúa er sett á oddinn.

Ekkert af því sem Logi Einarsson boðaði er lykill að framtíðinni heldur afturhvarf til fortíðar sem leiðir þjóðlíf í ógöngur.