25.8.2021 9:57

Forsíðufréttir um Landspítalann

Er ljóst af lestri úttektar ViðskiptaMoggans að spítalinn engist sundur og saman vegna þess að hann er rekinn í algjörum ríkisfjötrum.

Landspítalinn er forsíðufréttaefni Morgunblaðsins og Fréttablaðsins í dag (25. ágúst).

Í Fréttablaðinu er forsíðufyrirsögnin: Meirihluti vill meira fé til spítalans. Þetta er niðurstaða í könnun sem fyrirtækið Prósent vann fyrir blaðið en þar kemur fram að 57% þeirra sem taka afstöðu vilja að veitt verði „miklu meira fé“ til reksturs Landspítalans, 28% vilja „aðeins meira fé“ og 13% að fjárveitingar séu óbreyttar, 2% telja að aðeins megi draga úr fjárstreyminu. Könnunin var gerð 17. til 23. ágúst, svarhlutfall var 52% og 1.251 tóku afstöðu.

Í Morgunblaðinu er forsíðufyrirsögnin: Skrifstofan blásið út – Starfsfólki Landspítalans hefur fjölgað um 24% á áratug. Framlög til hans hafa aukist um 26,8% á sama tíma. Starfsmönnum skrifstofu fjölgað um 115%. Í forsíðufréttinni segir að nú starfi 6.390 manns á spítalanum og eru tæp 60% starfsfólks í hlutastarfi, stöðugildin eru því 4.378.

Í úttekt Stefáns Einars Stefánssonar í ViðskipaMogga segir að á föstu verðlagi hafi framlög ríkisins til Landspítalans vaxið úr 59,7 milljörðum króna árið 2010 í 75,5 milljarða árið 2020. Í úttektinni er athygli sérstaklega beint að kostnaði við skrifstofu spítalans, hann hafi verið tæpar 4.200 milljónir árið 2020. Upplýsingarnar eru sagðar reistar á svari heilbirgðisráðherra við fyrirspurn Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

1293338Þessi mynd Kristins Magnússonar af framkvæmdum á lóð Landspítalans við Hringbraut birtist á forsíðu Morgunblaðsins 25. ágúst 2021.

Í úttekt ViðskiptaMoggans er lýst „harðvítugri valdabaráttu“ innan spítalans og hafi hún leitt til „útþenslu yfirstjórnarinnar“. Baráttan er milli 45 yfirlækna spítalans og forstjórans. Yfirlæknarnir telja vegið að faglegri ábyrgð sinni og þar með lögbundnu umboði þeirra. Má ráða af úttektinni að ítrekað hafi verið kvartað til umboðsmanns alþingis vegna stjórnsýsluágreinings um valdsvið yfirlækna. Umboðsmaður taldi yfirlækna bera, auk ábyrgðar á lækningum, stjórnunarábyrgð, svonefna „yfirlæknisábyrgð“ eða „höfuðlæknisábyrgð“ á læknisþjónustu þeirrar starfseiningar sem undir hann heyrði. Í henni fælist skylda „til að hafa faglegt eftirlit með starfsemi viðkomandi sérgreinar eða sérdeildar og tryggja að hún standi undir ákveðnum læknisfræðilegum kröfum um gæði þeirrar þjónustu sem þar er veitt“. Þetta takmarki svigrúm forstjóra til að ákvarða starfssvið yfirlækna með skipuriti og má ráða af úttekt blaðsins að þarna sé m.a. að finna skýringu á fjölgun millistjórnenda á skrifstofu spítalans.

Hvort sem þetta eða eitthvað annað skýrir 115% útþenslu skrifstofu spítalans er ljóst af lestri úttektar ViðskiptaMoggans að spítalinn engist sundur og saman vegna þess að hann er rekinn í algjörum ríkisfjötrum. Markaðslausnum er haldið eins langt frá honum eins og kostur er. Umboðsmaður alþingis er með puttana í innri málum stofnunarinnar, 100 m. kr. er varið til að kosta samskiptasvið í stað þess að leita til einkafyrirtækja og þróun upplýsingatækni er lýst þannig af formanni tækninefndar RANNÍS að hún hafi staðnað árið 1996!

Þeir stjórnmálaflokkar sem ganga til kosninga með þá stefnu að vanda Landspítalans megi leysa með því að fara dýpra í vasa skattgreiðenda vega bæði að starfsemi spítalans og skattgreiðendum.


Eftirmálii:

Skömmu eftir að þessi texti var frágenginn birtist frétt á vefsíðu Fréttablaðsins þar sem Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, gagnrýnir vinnubrögð ViðskiptaMoggans harðlega. Þar segir meðal annars:

„Góð blaða­mennska gengur út á það að spyrja báða aðila, þú færð fréttir og leitar stað­festingu þeirra og færð skýringar. Það hefur ekki verið gert þarna, því að skýringin er sú [á fjölgun starfsliðs á skrifstofu] að við fluttum í einu lagi alla sér­náms­lækna, sem eru margir, yfir á skrif­stofu fram­kvæmda­stjóra lækninga sem telst til skrif­stofu spítalans. Það er bara til þess að bæta utan­um­hald og sam­fellu í þeirra námi og upp­lifun af því að vinna á spítalanum – það er eina skýringin,“ segir Páll. Ekki hefði verið flókið mál fyrir Morgun­blaðið að fá þessar upp­lýsingar.“