Forseti Íslands á hálum ís
Þegar mál þessi eru skoðuð má spyrja hvort forsetinn hafi dregið saman efnivið í stjórnlagakreppu
Ríkisstjórn og alþingi standa nú að athöfninni á þjóðhátíðardaginn 17. júní við styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli. Þjóðhátíðarnefnd Reykjavíkur á ekki lengur aðild að henni og þar með flytur formaður nefndarinnar, fulltrúi Reykjavíkurborgar, ekki lengur ræðu við athöfnina. Við það hefur athöfnin hlotið virðulegri blæ. Menn ættu að gera sér í hugarlund hvernig ræða flutt af Líf Magneudóttur (VG), forseta borgarstjórnar, hefði verið á þessum degi óttans í hennar huga þar sem lögreglan hefur hert varðstöðu sína á fjölmennum mannamótum.
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins er í dag er vikið að þversagnarkenndum aðgerðum og yfirlýsingum Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, vegna tveggja undirskrifta um stjórnvaldsákvarðanir þar sem hann er ábyrgðarlaus en á að þeim formlega aðild.
Annars vegar snýr þetta að skipun dómara í Landsrétt þar sem forseti kallaði eftir sérstakri athugun á því hvort alþingi og ráðherra hefðu staðið rétt að málum hins vegar að staðfestingu á bréfi um uppreist æru. Þegar mál þessi eru skoðuð má spyrja hvort forsetinn hafi dregið saman efnivið í stjórnlagakreppu.
Í samtali sem birtist á visir.is föstudaginn 16. júní segir forseti að hann sé „miður sín“ vegna þess embættisverks að hafa undirritað bréf um að Robert Downey (áður Róbert Árni Hreiðarsson) fái uppreist æru eins og lagt var til af ráðherra að fenginni úrvinnslu embættismanna á umsókn um þessi réttindi að lokinni refsivist umsækjanda fyrir kynferðisbrot.
Í viðtalinu ítrekar forseti nokkrum sinnum að efnisleg ákvörðun í málinu sé ekki hjá honum. Hann gefur einnig til kynna að hann hafi fengið takmarkaðar upplýsingar um efni málsins. Á visir.is segir:
„Hann segist ekki hafa vitað um hvaða mann ræddi þegar hann skrifaði undir beiðnina. „Þann 16. september í fyrra fékk ég fjórar svona beiðnir. Ég fæ engan rökstuðning, engin fylgigögn, einungis nafn og lengd dóms. Svo segir. „Nú þykja skilyrði vera fyrir hendi til þess að verða við framangreindri beiðni vil ég leyfa mér að leggja til að yður, forseti Íslands, mætti þóknast að veita nefndum manni uppreist æru sinnar að því er snertir framangreindan dóm,“ útskýrir Guðni.“
Af þessum orðum má ráða að Guðni Th. hafi talið að hann gæti ekki fengið að sjá rökstuðning. Það er rangt. Hann gat beðið um hann eins og þegar hann lét undan kröfu Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata, og rannsakaði hvort alþingi og ráðherra hefðu staðið rétt að skipun landsréttardómara.
Höfundur Reykjavíkurbréfsins upplýsir í dag að Ólafur Ragnar Grímsson, forveri Guðna Th. á Bessastöðum, hafi oft óskað eftir að sjá rökstuðning um mál sem fyrir hann voru lögð og jafnan fengið.
Það er fyrirsláttur hjá Guðna Th. að hann fái ekki þau gögn sem hann þarf til að verða upplýstur um mál.
Þá er sérkennilegt að forseti Íslands skuli finna að orðalagi í bréfum sem fyrir hann eru lögð og segja að orðalagið og það að ráðuneyti taki ákvörðun í máli sem þessu í samræmi við lagaskilyrði sé til marks um að stjórnarskráin sé ekki í takt við tímann. Á visir.is segir:
„Ákvörðunin er tekin í ráðuneytinu. Þetta er allt formlegs eðlis - arfur frá liðinni tíð. „Yður þóknast,“ og svo framvegis. Þegar litið var svo á að forsetinn sjálfur hefði náðunarvald. Ég fæ til dæmis beiðnir hingað um náðanir vegna ölvunaraksturs, frá jafnvel harðduglegu fólki sem er búið að koma sér á beinu brautina. En ég get ekki tekið ákvörðun um slíkt, það er náðunarnefnd sem gerir það.“
Til hvaða tíma er forseti Íslands að vísa? Einveldistímans? Stjórnarskrá Íslands er frá 17. júní 1944 og þar eru forseta Íslands settar leikreglurnar. Hann er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og hefur verið frá því að forsetaembættið kom til sögunnar. Náðunarvaldið var efnislega hjá ráðherra og er það enn að forminu til en efnisþátturinn hefur verið til afgreiðslu í nefnd í um tvo áratugi.
Undir lok samtalsins á visir.is segir:
„Hann [forsetinn] segist ekki geta sagt „já eða nei núna“ um hvort hann hefði brugðist öðruvísi við hefði hann þekkt sögu Roberts Downey. „Það væri ekki heiðarlegt af mér því að rökstuðningur minn í þessu máli er sá að ákvörðunin er ekki mín.“
Þetta má skilja á þann veg að ef til vill hefði forseti ekki skrifað undir hefði hann vitað að hér ætti í hlut maður sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson. Ber að skilja þetta svo að forsetinn hefði hugsanlega framið stjórnarskrárbrot? Sé svo er það stóra fréttin í málinu en ekki að forseti fór að stjórnlögum. Réttilega er honum engin vorkunn að því.