9.10.2024 9:44

Forseti í Kristjánsborgarhöll

Í fyrsta sinn voru Friðrik X. konungur og Mary drottning gestgjafar í slíkri heimsókn. Þetta var því frumraun bæði hjá gestgjöfum og gestum.


Í tilkynningu forsetaembættisins um ferð forsetahjónanna Höllu Tómasdóttur og Björns Skúlasonar til Danmerkur 8. og 9. október er hún kölluð ríkisheimsókn. Hér skal tekið undir með því sem segir á vef ríkisútvarpsins, ruv.is, að notkun þessa orðs kunni að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir enda hafi venjan verið að tala um opinbera heimsókn forseta til erlendra ríkja.

Fréttastofan getur sér þess til að ríkisheimsókn kunni að vera bein þýðing af erlendri tungu. Danir noti orðið statsbesøg yfir þessar heimsóknir og á ensku sé talað um state visit.

„Hvergi er að finna samsetta orðið ríkisheimsókn í íslenskum orðabókum, hvorki á rafrænu né hefðbundnu formi. Orðið hefur hins vegar verið notað af forsetaembættinu að því er virðist frá ársbyrjun 2017,“ segir á ruv.is. Þetta nýyrði var sem sagt innleitt eftir að Guðni Th. Jóhannesson varð forseti. Skýring óskast.

Í fyrsta sinn voru Friðrik X. konungur og Mary drottning gestgjafar í slíkri heimsókn. Þetta var því frumraun bæði hjá gestgjöfum og gestum.

20241008-gala_family-photo-2„Fjölskyldumynd“ úr Kristjánsborgarhöll: Mary drottning, Björn Skúlason, Halla Tómasdóttir, Friðrik X. Danakonungur (mynd: forseti.is).

Í tveggja tíma beinni útsendingu danska ríkissjónvarpsins DR1 frá klukkan 18.55 til 21.00 að dönskum tíma var sýnt þegar gestir komu til hátíðarkvöldverðar konungshjónanna í Kristjánsborgarhöll, þegar konungshjónin ásamt forsetahjónunum og Benediktu prinsessu, móðursystur konungs, tóku á móti gestum við viðhafnarsalinn og loks þegar þjóðhöfðingjarnir fluttu skálaræður sínar.

DR1 myndi ekki gera svona vel við veislur af þessu tagi nema vegna þess að þetta er vinsælt sjónvarpsefni. Við pallborð eru vel metnir álitsgjafar, meðal annars um kjóla og hirðsiði.

Í danska blaðinu BT fær ræða konungs ekki nema 2 stig af 12 í umsögn Mette Højen mælskulistarfræðings. Hún segir að konungur hafi nefnt alla réttu hlutina í ræðu sinni en textinn og flutningurinn hafi verið afleitur. Kannski hafi hann flutt ræðuna svona hægt og skýrt svo Íslendingar skildu dönskuna. „Det kan skyldes, at Kongen ville gøre ordene mere forståelige for de islandske gæster, men ifølge Mette Højen ødelagde det helhedsindtrykket af talen,“ segir í BT en vísað er til umsagnarinnar þar á vefsíðu Berlingske.

Halla Tómasdóttir hóf ræðu sína á dönsku og lauk henni einnig á dönskum setningum en meginhlutinn var fluttur á ensku. Fóru álitsgjafarnir sem sátu við pallborð DR1 vinsamlegum orðum um ræðu forseta og hve persónuleg hún hefði verið. Mun þetta hafa verið í fyrsta skipti í 80 ára sögu íslenska lýðveldisins sem forseti Íslands flytur ræðu á ensku í slíkum hátíðarkvöldverði í Kristjánsborgarhöll.

Í DR1 voru nokkrir danskir ráðherrar teknir tali þegar þeir gengu til veislunnar og í máli þeirra kom fram hve góð tengsl væru á milli Dana og Íslendinga, samstarf þjóðanna skipti ekki síst máli þegar litið væri til öryggis á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum.

Til að árétta þennan þátt fóru forseti og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir í danska varnarmálaráðuneytið og áttu fund með Troels Lund Poulsen, varnarmálaráðherra og varaforsætisráðherra.