29.5.2024 10:07

Forsetakjör: Litháen – Ísland

Enginn dregur í efa að í Litháen sé gagnsætt, lýðræðislegt stjórnarfar. Þar ríkir einnig stjórnarfarslegur agi og lögð er áhersla á að treysta þolgæði þjóðarinnar.

Sunnudaginn 26. maí fór fram önnur umferð í forsetakosningum í Litháen. Eftir fyrri umferðina 12. maí kepptu tvö um forsetaembættið, Gitanas Nausèda (60 ára), sitjandi forseti, og Ingrida Simonytè (49 ára) forsætisráðherra. Úrslitin urðu að Nauseda var endurkjörinn til fimm ára með tæp 76% atkvæða en forsætisráðherrann fékk rúm 24% og situr áfram í embætti sínu. Alls voru átta frambjóðendur í fyrri umferð kosninganna, þá hlaut Nausèda 44% og Symonitè 20%.

Þau eru bæði hægra megin við miðju í stjórnmálum. Nausèda er utan flokka og fyrrverandi bankamaður. Hann var fyrst kjörinn forseti árið 2019 en þá keppti hann einnig í síðari umferð kosninganna við Simonytè sem varð forsætisráðherra 2020. Hún tilkynnti um forsetaframboð sitt í október 2023 og hróflaði það ekki við setu hennar í embætti forsætisráðherra.

BbbGitanas Nausèda, forseti Litháens.

Forseti Litháens er ekki með öllu ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum eins og forseti Íslands. Hann er æðsti yfir maður herafla Litháens, formaður varnar- og þjóðaröryggisráðs og situr ríkisoddvitafundi NATO og ESB.

Þau greinir ekki á um nauðsyn þess að auka útgjöld til varnarmála og vilja stefna að því að þau nemi 3% af vergri landsframleiðslu með vísan til innrásar Rússa í Úkraínu. Litháar óttast að sigri Rússar þar sæki þeir fram gegn öðrum nágrannaríkjum, þar með Litháen.

Þau eru hins vegar ekki sammála um afstöðuna til Kína. Tvíhliða samskipti milli stjórnvalda í Litháen og Kína versnuðu árið 2021 þegar stjórnin í Vilníus heimilaði Tævönum að opna sendiskrifstofu (ígildi sendiráðs) undir nafni Tævans. Þetta var fráhvarf frá þeim venjum erlendra ríkja í samskiptum við Tævan að heimila aðeins starfsemi skrifstofa undir nafni höfuðborgar Tævans, Taipei, til að sníða hjá reiði stjórnarinnar í Peking. Vill Nausèda milda tóninn í garð Kínastjórnar en forsætisráðherrann og stjórn hennar heldur sínu striki og glímir við viðskiptabann af hálfu Kínastjórnar.

Meðal lýðvelda í Evrópu hefur Ísland sérstöðu þegar forseti er valinn í aðeins einni kosningaumferð. Hér stefnir nú í að frambjóðandi geti sigrað í forsetakosningum með innan við 30% atkvæða.

Sé litið til þess eins er fráleitt að forsetaframbjóðendur tali eins og þeir hafi bara með því að bjóða sig fram áunnið sér traust þjóðarinnar til að bregða fæti fyrir mál sem eru til afgreiðslu á alþingi og þeim líkar ekki. Kosningaboðskapur af þessu tagi hefur orðið háværari eftir því sem nær dregur kjördegi.

Þá ættu þeir sem býsnast mest yfir að fyrrverandi forsætisráðherra bjóði sig fram til forseta að líta til Litháens þar sem forsætisráðherra fer í forsetaframboð og situr áfram eftir að tapa fyrir frambjóðanda sem fær tæplega 76% atkvæða.

Enginn dregur í efa að í Litháen sé gagnsætt, lýðræðislegt stjórnarfar. Þar ríkir einnig stjórnarfarslegur agi og lögð er áhersla á að treysta þolgæði þjóðarinnar inn á við og gegn ytra áreiti af ótta við nálæga einræðisherra í Belarús og Rússlandi.

Hér telja ýmsir forsetaframbjóðendur sér til framdráttar að vega að frumstoðum lýðræðisins og ræða um varnir og öryggi þjóðarinnar af þekkingarleysi. Allan aga og þjóðarvirðingu skortir.