22.3.2025 12:36

Fórnarlamb stjórnarsamstarfsins

Það gleymist að hefði þríeykið valdamikla staðið með henni 20. mars sæti hún enn sem ráðherra. Valkyrjurnar vörðu eigin stöðu.

Vegna afsagnar Ásthildar Lóu Þórsdóttur mennta- og barnamálaráðherra hefur upplýsingaóreiða tekið við af skipulegri frásögn af því sem gerðist. Ásthildur Lóa gaf þá skýringu í fyrsta viðtalinu sem hún veitti ríkisútvarpinu vegna málsins að hún treysti sér ekki til að sitja áfram sem ráðherra vegna „fjölmiðlaumhverfisins“.

Þetta heyrðu allir að kvöldi fimmtudagsins 20. mars sem hlustuðu á samtalið. Í Morgunblaðinu í dag (22. mars) segir að daginn áður hafi Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra verið „spurð hvort hún tæki undir orð Ásthildar Lóu um að erfitt fjölmiðlaumhverfi væri aðalástæða afsagnarinnar kvaðst hún ekki þekkja til þeirra ummæla“.

Þetta svar er annaðhvort gefið af mikilli vanþekkingu á því sem fram hefur komið eða forsætisráðherra reynir vísvitandi að skjóta sér undan að ræða þessa hlið málsins.

Þeir sem hatast við Morgunblaðið hafa margir látið í netheimum eins og það sé vegna „ofsókna“ blaðsins í garð Flokks fólksins sem Ásthildur Lóa sé nú komin á ráðherrabiðlaun.

1556209Þær hrósuðu Ásthildi Lóu sem hetju. Fórnaði sér fyrir frið um stjónarsamstarfið? (Mynd; mbl.is/ Eyþór Árnason.)

Málum er alls ekki þannig háttað. Einhver sem þekkti til þess að erindi hefði verið sent til forsætisráðuneytisins vegna hneykslunar á setu Ásthildar Lóu í embætti barnamálaráðherra hafði „tippað“ fréttastofuna í Efstaleiti sem fór af stað og birti frétt um málið í Speglinum kl. 18.00 fimmtudaginn 20. mars. 

Klukkan 18.35 birti ríkisútvarpið frétt um að Áshildur Lóa hafi sagt af sér. Hún sagði í yfirlýsingu daginn eftir (21. mars) að hún hefði ákveðið að segja af sér vegna þess að fréttastofa RÚV ætlaði að segja frétt um málið. Hún hefði samþykkt viðtal til að koma sinni hlið á framfæri. Hún vissi ekki af fréttinni klukkan 18.00, segist þá hafa verið í viðtali við fréttamann RÚV.

Fréttamaður RÚV sendi aðstoðarkonu Ásthildar Lóu skilaboð að morgni 20. mars og óskaði eftir viðtali „við mig um samband mitt við barnsföðurinn fyrir 35-36 árum. Þá var auðvitað augljóst í hvað stefndi,“ segir í yfirlýsingu hennar.

Þar kemur einnig fram að 11. mars hafi aðstoðarmaður forsætisráðherra sýnt Ásthildi Lóu tölvubréf sem forsætisráðherra barst frá fyrrverandi tengamóður barnsföðurins en hún hratt málinu af stað. Eftir það fór Ásthildur Lóa á stúfana og heimsótti meðal annars konuna sem sagði við RÚV 21. mars að forsætisráðuneytið hefði brugðist algjörlega, öllum aðilum máls. Það væri ekki annað en trúnaðarbrot að hafa upplýst Ásthildi Lóu um hver það var sem sendi ráðuneytinu erindið.

Forsætisráðherra segir að aðstoðarmaður sinn hafi haft samband við aðstoðarmann Áshildar Lóu og ekki aðra. Þetta er ekki rétt og fer ráðherrann undan í flæmingi þegar um þetta er spurt.

Forsætisráðherra hafnar trúnaðarbroti af hálfu ráðuneytis síns. Þar stendur orð gegn orði.

Forsætisráðherra segist ekki hafa vitað um málið fyrr en 20. mars eftir að það hafði verið 11 daga í ráðuneyti hennar og aðstoðarmaður ráðherrans hafði rætt það við mennta- og barnamálaráðherra sem greinilega vildi kveða það niður án opinberrar umræðu. Þær tilraunir leiddu til þess að þeir sem til þekktu höfðu samband við fréttastofu RÚV 20. mars. Uppljóstrarinn óttaðist að málinu yrði sópað undir teppið.

Síðdegis 20. mars ræddi Ásthildur Lóa við forystukonur ríkisstjórnarinnar, Kristrúnu, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Ingu Sæland. Allar óttuðust þær líf ríkisstjórnarinnar með Ásthildi Lóu innan borðs. Þær vildu ekki taka opinbera umræðu um hana og völdu frekar þann kost að lofa hana fyrir hetjulegt hugrekki, afsögn hennar sýndi „karakter“ ríkisstjórnarinnar.

Þær hafa síðan stundað upplýsingaóreiðu á gráu svæði og njóta til þess stuðnings úr eigin röðum, Ásthildur Lóa sé fórnarlamb fjölmiðla. Það gleymist að hefði þríeykið valdamikla staðið með henni 20. mars sæti hún enn sem ráðherra. Valkyrjurnar vörðu eigin stöðu en settu Ásthildi Lóu á kaldan klaka.

Í hádegisfréttum RÚV laugardaginn 22. mars lagði Ólafur Þ. Harðarson blessun sína yfir framhaldslíf ríkisstjórnarinnar, Þetta mál hefði engin áhrif á það. Vissulega væri sumt óþægilegt en í raun lítils virði. Ásthildur Lóa ætti sér í raun málsbætur.

Eva Heiða Önnudóttir stjórnmálafræðingur sagði við RÚV 20. mars að það væri rétt af Ásthildi Lóu að segja af sér til að gefa ríkisstjórninni frið til að sinna sínum störfum.

„Ég held að ríkisstjórnin sé ekki í hættu, ekki eins og er,“ sagði Eva Heiða.

Tíminn yrði að leiða í ljós hvort Ásthildur gæti setið áfram sem þingmaður. „Ég sé ekki beint hvernig þetta eigi að hamla hennar störfum sem þingmaður. Svo getur eitthvað annað komið í ljós.“

Tilgangur upplýsingaóreiðunnar er augljós. Ætlunin er að halda lífi í ríkisstjórninni hvað sem það kostar. Samstarfið við Flokk fólksins hefur verið dýrkeypt. Mál Ásthildar Lóu var of stór biti. Það sýnir þó hve hættulegur leiðangur hófst með því að treysta á flokk sem styðst ekki við neinar lýðræðisreglur í eigin störfum.