14.2.2020 11:34

Forherðingin magnast vegna braggahneykslisins

Óskari Jörgen er greinilega alveg sama þótt lög um skjalavörslu séu brotin. Hann fer að fyrirmælum borgarstjóra og formanns borgarráðs sem grípur til ósanninda um að „ekkert nýtt“ sé í skýrslunni.

Skjalavarsla og skjalastjórn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar (SEA) vegna framkvæmda við braggann í Nauthólsvík braut gegn ákvæðum laga um opinber skjalasöfn. Þetta er niðurstaða frumkvæðisathugunar Borgarskjalasafns Reykjavíkur sem var kynnt á fundi borgarráðs fimmtudaginn 13. febrúar 2020. Bætist þar við enn eitt brotið vegna endurgerðar braggans sem átti að kosta 158 m.kr. en kostaði um 450 m.kr.

Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur með Dag B. Eggertsson borgarstjóra í fararbroddi hefur statt og stöðugt leitast við að skjóta sér undan ábyrgð á þessu fjármála- og stjórnsýsluhneyksli innan borgarkerfisins. Borgarskjalasafn telur um einbeittan brotavilja að ræða hjá starfsmönnum Reykjavíkurborgar, viðurlög við brotunum eru sögð allt að þriggja ára fangelsi.

MG_3111-1024x683Bragginn í Nauthólsvík.

Rætt er við borgarfulltrúa Viðreisnar, Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, formann borgarráðs, í Morgunblaðinu í dag (14. ferbúar). Hún segir að skýrsla Borgarskjalasafns sé samhljóða skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um braggamálið. „Það er ekkert nýtt í þessari skýrslu,“ segir hún.

Þessi fullyrðing formanns borgarráðs er röng. Eftir að skoðun innri endurskoðunar borgarinnar á braggahneykslinu lauk og Borgarskjalasafn hóf að eigin frumkvæði rannsókn sína voru ný skjöl send inn í skjalasafn borgarinnar. Í ljós kom að skjöl voru af ásetningi vistuð þannig að þau yrðu ekki aðgengileg fyrir fjölmiðla. Innri endurskoðun hafði ekki aðgang að þessum skjölum.

Í samtali á vefsíðunni Hringbraut fimmtudaginn 13. febrúar 2020 segir Óskar Jörgen Sandholt, sviðsstjóri þjónustu og nýsköpunarsviðs og þar með Borgarskjalasafns, að Reykjavíkurborg ætli, þrátt fyrir niðurstöðu stjórnenda safnsins, ekki að kæra brot á lögum um opinber skjalasöfn. Borgarskjalasafn var, að sögn Hringbrautar, fært undir það svið Óskars Jörgens nokkrum mánuðum eftir að frumkvæðisrannsókn safnsins á braggahneykslinu hófst.

Rök Óskars Jörgens einkennast af undanslætti frá kröfum um meðferð opinberra skjala. Reynir hann að skýla sér á bakvið eitthvað sem fram komi í skýrslunni og snertir Þjóðskjalasafn, þótt braggahneykslið sé alfarið borgarmál. Þarna grípur sviðsstjórinn til hefðbundinna aðferða borgaryfirvalda, að gera lítið úr eigin afbrotum af því að framganga annars staðar þyki einnig ámælisverð! Sviðsstjórinn segir þó:

„Þetta eru ekki fyrirmyndarvinnubrögð, ég ætla ekki að segja það, alls ekki fyrirmyndarvinnubrögð. Ég per sé get ekki svarað fyrir skjalavörslu í þessu máli.“

Óskari Jörgen er greinilega alveg sama þótt lög um skjalavörslu séu brotin. Hann fer að fyrirmælum borgarstjóra og formanns borgarráðs sem grípur til ósanninda um að „ekkert nýtt“ sé í skýrslunni.

Hillary Clinton, þáv. forsetaframbjóðandi bandarískra demókrata, lenti í vanda vegna tölvubréfa. Hún reyndi að blekkja fréttamenn og almenning með orðunum „old news“ og gróf undan eigin trúverðugleika. Braggahneykslið staðfestir forherðingu og afneitun meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur. Lögbrot eru „ekkert nýtt“ og snerta þess vegna valdamennina ekki.