9.12.2022 9:30

Flytjum forsætisráðuneytið

Má efast um að nokkrum hafi þá eða nokkru sinni fyrr en nú dottið í hug að troða nýbyggingu fyrir aftan Stjórnarráðshúsið.

 

Morgunblaðið birti fimmtudaginn 8. desember frétt um að til skoðunar væri hjá borgaryfirvöldum að heimila byggingu húss á lóðinni Bankastræti 3, næstu lóð fyrir ofan Stjórnarráðshúsið. Forsætisráðuneytið hefði áhyggjur af stærð hússins, að óbreyttu kynni byggingin að ógna æðstu stjórnar ríkisins, hefði verið leitað álits embættis ríkislögreglustjóra á þeim þætti málsins.

Af frétt blaðsins má ráða að ætlun forsætisráðuneytisins sé að reisa hús aftan við Stjórnarráðshúsið, þar verði fundarsalur fyrir ríkisstjórnina sem snúi að Bankastræti 3 og þaðan verði „auðvelt er að kasta hættulegum efnum/​hlutum út um glugga á efri hæðum þeirrar byggingar ofan á þak nýbyggingar forsætisráðuneytisins,“ segir í opinberu minnisblaði og einnig að komast megi „út um glugga Bankastrætis 3 út á þak nýbyggingar forsætisráðuneytisins, fara um allt þakið og kasta hættulegum hlutum í nálægan ljósgarð. Loks er nefndur sá möguleiki að tengja þessar öryggisógnir við inntök loftræstikerfis,“ segir í frétt blaðsins.

Þarna er sem sagt dregin upp mynd af hættuástandi sem gæti skapast yrði ráðist í þéttingu byggðar á þessum viðkvæma stað í hjarta borgarinnar.

07f9edd5-3d27-4f2d-b120-86f539854775Það eru lýti að opnum húsgrunni fyrir aftan Stjórnarráðshúsið. Vonandi rís aldrei hús þarna enda með öllu óþarft (mynd: mbl/Kristinn Magnússon).

Undanfarin ár hefur húsgrunnur staðið opinn fyrir aftan Stjórnarráðshúsið, sjá mynd. Þar hafa farið fram fornleifarannsóknir. Á sínum tíma stóð timburhús fyrir aftan norðurhorn hússins. Það var rifið snemma morguns fyrir tæplega hálfri öld. Má efast um að nokkrum hafi þá eða nokkru sinni fyrr en nú dottið í hug að troða nýbyggingu fyrir aftan Stjórnarráðshúsið. Á þeim árum og í mörg ár eftir þau hýsti þessi fornfræga bygging bæði skrifstofu forseta Íslands og forsætisráðuneytið. Þröngt máttu sáttir sitja við stjórn ríkisins.

Nú er öldin önnur. Forsetaskrifstofan er flutt að horni Skothúsvegar og Sóleyjargötu og forsætisráðuneytið stækkar jafnt og þétt.

Til eru allt aðrar leiðir til að leysa húsnæðismál æðstu stjórnenda og tryggja öryggi á ríkisstjórnarfundum en að byggja við Stjórnarráðshúsið til varanlegs tjóns fyrir það og umhverfi þess.

Þegar Þjóðarbókhlaðan reis tæmdist Safnahúsið við Hverfisgötu. Húsið er tákn framtaks heimastjórnarinnar frá 1904. Þegar þess verður minnst 2024 að 120 ár eru frá því að fyrsti íslenski ráðherrann, Hannes Hafstein, kom til sögunnar ætti forsætisráðuneytið að vera komið í Safnahúsið og forsetaskrifstofan í Stjórnarráðshúsið með nýjum bakgarði í stað opins húsgrunns.

Safnahúsið hefur meðal annars verið nýtt til sýninga og mannamóta. Ný aðstaða í virðulegu, gamalgrónu húsi í miðborginni myndast fyrir slíka starfsemi eftir að Landsbanki Íslands flytur í nýtt húsnæði á næsta ári.

Hæstiréttur er til húsa við þá hlið Safnahússins þar sem aðstaða skapast til ríkisstjórnarfunda. Varla dettur nokkrum í hug að þaðan verði kastað „hættulegum efnum/hlutum“ til ógnar ríkisstjórninni?