24.5.2021 11:06

Flugrán vegna bloggara

Þetta fyrsta flugrán sögunnar til að ná í bloggara stofnaði lífi um 120 manns um borð í vélinni í hættu.

Mikilvægur þáttur alþjóðasamstarfs sem reist er á lögum og reglum snýst um að almennt flug frá einum stað til annars njóti friðhelgis. Sumarið 2014 gerðist sá hörmulegi atburður að farþegavél á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur í Malasíu var skotinn niður yfir Úkraínu. Rússnesku mælandi aðskilnaðarsinnar í austurhluta Úkraínu stóðu að ódæðinu með flugskeytum rússneska hersins. Þótt fyrir liggi niðurstöður rannsóknanefnda og dómara sem telja fullvíst að Rússar hafi átt þarna hlut að máli neita Kremlverjar því alfarið.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti og félagar sýndu nýlega vígtennurnar með 100.000 manna liðssafnaði við austur landamæri Úkraínu og á Krímskaga sem þeir hrifsuðu til sín árið 2014. Kremlverjar leggja áherslu á að eiga ítök í stjórn allra landa milli sín og NATO-ríkjanna í austurhluta Evrópu. Þeir líta á Aleksander Lukasjenko, forseta Hvíta-Rússlands, sem handbendi sitt í Minsk og styðja hann með ráð og dáð eftir að almenningur í Hvíta-Rússlandi reis gegn honum vegna svindls í sjöttu forsetakosningunum sem hann sagðist hafa unnið 9. ágúst 2020.

239480

Roman Protasevitsj

Meðal þeirra sem risu gegn Lukasjenko í fyrra var Roman Protasevitsj (26 ára), bloggari og stjórnandi vefsíðunnar Nexta sem flutti fréttir af mótmælunum gegn forsetanum. Protasevitjs tók þátt í alþjóðlegri ráðstefnu í Grikklandi og flaug sunnudaginn 23. maí með Ryanair-farþegavél frá Aþenu í átt til Vilnius, höfuðborgar Litháens, þar sem býr landflótta vegna ofsókna Lukasjenkos. Hann reyndist hins vegar ekki óhultur í vélinni sem flaug yfir vestur horn Hvíta-Rússlands og átti tvær mínútur eftir inn í lofthelgi Litháens þegar MiG-29-orrustuþotur frá Lukasjenko neyddu flugmennina til að lenda í Minsk með þá lygi á vörunum að sprengja væri um borð.

Þetta fyrsta flugrán sögunnar til að ná í bloggara stofnaði lífi um 120 manns um borð í vélinni í hættu. Samfarþegar Protasjevitsj sögðu hann skelfingu lostinn þegar hann var leiddur frá borði, fullviss um að hann yrði tekinn af lífi. Enginn sprengja fannst í vélinni.

Atburðarásin er með ólíkindum. Forseti ríkis gefur fyrirmæli um flugrán. Hann sendir herþotur á loft til að neyða flugmenn farþegavélar á flugi milli tveggja Evrópulanda til að lenda. Stjórn hans lýgur um sprengjuhótun. Síðan er útlægum stjórnarandstæðingi skipað að yfirgefa vélina. Hann er handtekinn ásamt kærustu sinni Sofíu Sapega, rússneskum námsmanni við háskóla í Vilnius.

Michael O‘Leary, forstjóri Ryanair, sagði í útvarpsviðtali að morgni 24. maí að fyrir utan Protasjevitsj og Sapegu hefðu einnig nokkrir (fjórir?) hvít-rússneskir KGB-menn yfirgefið flugvélina í Minsk sem fékk fararleyfi eftir sjö tíma töf.

Öryggislögreglumenn fylgdust með ferðum Protasjevitsj á meðan hann dvaldist í Grikklandi og tóku þátt í að skipuleggja flugránið.

Verði þetta atvik látið óátalið í verki hvað sem líður opinberum mótmælum hér og þar hefst með nýr kafli í flugsögunni. Kerfi reist á lögum og reglum er eyðilagt af einræðisherra sem situr í embætti vegna kosningasvindls og stuðnings Vladimirs Pútins. Einræðisherrar fleiri landa sjá sér leik á borði.