Flótti Miðflokksforkólfa frá 3. orkupakkanum
Utanríkisráðherra hafði forræði málsins gagnvart alþingi og Brusselmönnum og taldi að innleiða ætti það á Íslandi með þeim fyrirvara að leggja þyrfti málið fyrir alþingi.
Aðferðirnar sem formaður og fyrsti varaformaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG) og Gunnar Bragi Sveinsson (GBS) hafa beitt til að bera af sér að þeir hafi unnið að því að gera 3. orkupakka ESB að EES-máli og þar með skuldbinda Ísland til að innleiða efni hans í íslensk lög eru stórundarlegar.
Gunnar Bragi skrifar grein í Morgunblaðið í gær (17. nóvember) og segir mig hafa sagt að hann og SDG hefðu „tryggt innleiðingu þessa pakka“. Þetta hef ég aldrei sagt. Ég hef aðeins vakið athygli á að Gunnar Bragi boðaði Brusselmönnum þegar hann var utanríkisráðherra að innleiðing pakkans bryti ekki gegn stjórnarskrá Íslands og þess vegna mætti taka hann upp í EES-samninginn. Ég hef einnig sagt þetta jafngilda þjóðréttarskuldbindingu af hálfu Íslands og fyrir henni sé þáverandi forsætisráðherra einnig ábyrgur.
Þessi mynd birtist á mbl.is þegar Gunnar Bragi var utanríkisráðherra og Sigmundur Davíð forsætisráðherra. Skyldi utanríkisráðherra vera að upplýsa forsætisráðherra um að hann hefði samþykkt að 3. orkupakki ESB yrði EES-mál?
Einfaldara verður þetta varla og haggast ekki þótt þeir GBS og SDG látai nú eins og þeir hafi ekki vitað hver yrði afleiðing athafna þeirra.
Á mbl.is er í dag (18. nóvember) sagt frá því að í Silfri ríkisútvarpsins sama dag hafi Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagt:
„Ég verð þó að gera athugasemd við síðbúnar athugasemdir Sigmundar [Davíðs Gunnlaugssonar formanns Miðflokksins] við þennan samning. Á því kjörtímabili þegar hann leiddi ríkisstjórnina og flokksbróðir hans þá og nú Gunnar Bragi Sveinsson var utanríkisráðherra, á tveggja ára tímabili 2014 og 2015 voru lögð fram 3 minnisblöð frá utanríkisráðuneyti Gunnars Braga til utanríkismálanefndar alþingis sem öll áttu það sameiginlegt að komast að þeirri niðurstöðu að þriðji orkupakki Evrópusambandsins væri í fullu samræmi við tveggja stoða kerfið og væri ekki með neinum hætti að höggva að stjórnarskrá eða fullveldi Ísland."
Páll benti á að síðan hefðu komið álit að minnsta kosti tveggja þingnefnda, utanríkismálanefndar alþingis og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og jafnvel líka atvinnuveganefndar sem hefðu líka komist að þeirri niðurstöðu að þetta samræmdist tveggja stoða kerfinu og vægi ekki að fullveldinu. Á þeim grundvelli hefði ríkisstjórnin samþykkt að orkupakkinn yrði tekinn upp í EES löggjöf.
Þá sagði Páll Magnússon:
„Nú ber ég fulla virðingu fyrir því að menn skipti um skoðun og geri það oft sjálfur, en menn verða samt að kannast við fyrri skoðun. Við erum á þeim stað núna að taka ákvörðun vegna þess að settur var stjórnskipulegur fyrirvari og auðvitað hefur alþingi síðasta orðið. [...]Sigmundur Davíð verður samt að kannast við aðdraganda þess að málið sé á þeim stað nú.“
Hugtakið „stjórnskipulegur fyrirvari“ vísar til 21. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir: „Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.“ Í þessu tilviki er meðal annars þörf breytinga á lögum um orkustofnun og þess vegna var fyrirvarinn settur.
Sigmundur Davíð var í Silfrinu og sagði:
„Það er alrangt að setja þetta þannig upp að málið hafi með einhverjum hætti verið klárað á sínum tíma. Sjálfstæðismenn hafa oft bent á það með réttu á að aðrir flokkar virðist ekki kannast við veru sína í ríkisstjórn. Nú allt í einu eru þeir búnir að steingleyma þátttöku sinni í ríkisstjórnum undanfarinna ára. Þeir hafa setið óslitið frá 2013 og allan tímann farið með ráðuneytið sem orkupakkinn heyrir undir, iðnaðarráðuneytið.“
Hann sagði iðnaðarráðuneytið hafa sent ESB athugasemdir árið 2014 og óskað eftir undanþágum. Tilmælunum hefði verið hafnað. Þá sagði SDG:
„Aðkoma minnar stjórnar var að gera athugasemdir við og taka fram að við gætum ekki innleitt hann óbreyttan. Ég hef aldrei verið hlynntur þessu, en skal segja hvað sem er, sem gerir sjálfstæðismönnum auðveldara að koma með í þessa baráttu.“
Þegar litið er til þessara orða þáv. forsætisráðherra er enn undanlegra en ella að samflokksmaður hans og utanríkisráðherrann (GBS), núv. fyrsti varaformaður Miðflokksins, skyldi samþykkja að 3. orkupakkinn yrði hluti EES-samningsins.
Utanríkisráðherra hafði forræði málsins gagnvart alþingi og Brusselmönnum og taldi að innleiða ætti það á Íslandi með þeim fyrirvara að leggja þyrfti málið fyrir alþingi. Að því er nú unnið og þá láta SDG og GBS eins og þeir skilji ekki eigin hlut að málinu. Hann skipti þó sköpum. Fráleitt er að nefna iðnaðarráðuneytið sérstaklega til sögunnar nú úr því að þeir félagar tóku ekki tillit til sjónarmiða þess á sínum tíma, megi marka orð SDG.