14.8.2018 8:51

Flokkslínan frá Kína kynnt í Reykjavík

Ætla má að íslenskir viðmælendur kínversku sendinefndarinnar hafi ekki áttað sig á að þeir voru í raun þátttakendur í sviðsetningu af hálfu kínverska kommúnistaflokksins.

Þegar ég skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 10. ágúst ( sjáhér ) um kínverskan þrýsting nær og fjær hafði ekki verið greint frá því að einmitt um sama leyti var hér nefnd frá alþjóðadeild kínverska kommúnistaflokksins að kynna íslenskum stjórnvöldum hugsanir Xi Jinpings, æðstráðanda í Kína. Líta má á þessa löngu samantekt sem hér fylgir sem viðbót við grein mína. Mikilvægt er að halda öllu sem best til haga sem varðar samskipti okkar og Kínverja, annars er heildarmyndin ekki skýr.

Fundur-med-cpc2Bjarni Benediktsson og Wang Yajun

Á vefsíðu stjórnarráðsins birtist fimmtudaginn 9. ágúst eftirfarandi tilkynning:

„Fulltrúar kínverska kommúnistaflokksins, CPC, heimsóttu Ísland á dögunum og óskuðu eftir fundi með Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra. Á fundinum kynntu fulltrúar CPC hugmyndir flokksins að auknu samstarfi við önnur ríki.

Fjármála- og efnahagsráðherra fór á fundinum yfir stöðu efnahagsmála á Íslandi, þróun frá efnahagshruninu 2008 og samanburð við önnur OECD ríki.“

Af þessu tilefni sendi Kvennablaðið fimm spurningar til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og bárust svör mánudaginn 13. ágúst en um þau sagði sama dag á vefsíðu blaðsins:

„Svör við þremur spurninganna bárust nú á mánudag og leiða í ljós, í fyrsta lagi, að fulltrúar Kommúnistaflokksins ræddu við ráðherrann um hinn svokallaða nýja silkiveg eða „belt and road“-verkefnið, útrásarstefnu Kína í alþjóðaviðskiptum með uppbyggingu samgönguleiða og annarra innviða.

Þá svaraði fulltrúi ráðuneytisins spurningu um hvort rætt hefði verið um fríverslunarsamning Íslands og Kína játandi, hann hefði verið ræddur „á almennum nótum“.

Af þriðja svarinu má ráða að Bjarni Benediktsson hafi ekki borið fram neinar athugasemdir við stöðu mannréttindamála í Kína á fundinum. Kvennablaðið spurði:

„Notar fjármálaráðherra tækifærið, á svona fundum, eins og stundum er haft á orði, til að gagnrýna mannréttindabrot í Kína? Notaði hann tækifærið á þessum fundi til að gera það?“

Ráðuneytið svaraði:

 „Eingöngu efnahagsmál og áhugi Kínverja á pólitískum tengslum við Ísland voru til umræðu á þessum fundi.““

Kínverska sendinefndin var á Íslandi 31. júlí til 2. ágúst svo að það var um viku eftir brottför hennar sem sagt frá heimsókninni á vefsíðu stjórnarráðsins. Á vefsíðu DV föstudaginn 10. ágúst segir frá því að Kínverjarnir hittu einnig fulltrúa í utanríkismálanefnd alþings og Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrv. forseta Íslands. 

Rætt er við tvo þingmenn í DV.

Smári McCarthy, þingmaður pírata, segir:

„Við í utanríkismálanefnd fáum oft beiðnir um að hitta hópa héðan og þaðan. Þetta er hluti af diplómatískri móttöku. Fulltrúarnir voru að leitast eftir því að koma á betri tengslum og þetta var mjög einfaldur inngangsfundur. Þau vildu ræða um möguleika Íslendinga og Kínverja í samskiptum og við ræddum um fríverslunarsamninginn, hvernig hann hefur verið að reynast. Síðan var heilmikið rætt um veðrið. Í heildina litið var þetta kurteisisheimsókn.

Þetta er hluti af starfi okkar, að hitta erlenda sendifulltrúa og ræða um mögulega samstarfsfleti og fleira í þeim dúr. Ráðuneytið sjálft sér hins vegar um alla erfiðisvinnuna og við erum aðallega þarna til þess að sýna lit.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, formaður utanríkismálanefndar alþingis, tekur í sama streng á vefsíðu DV. Samstarf Íslands og Kína hafi verið rætt í víðu samhengi og Kommúnistaflokkurinn hafi sýnt áhuga á að komast í betri tengsl við flokka á Íslandi. Hún segir að bæði íslensku nefndarmennirnir og sendifulltrúarnir hafi verið sammála um að samskipti landanna tveggja hafi almennt verið góð hingað til.

Auk þess að ræða um fríverslunarsamninginn og samskipti hafi verið rætt um viðskipti, norðurslóðamál, flugsamgöngur, fjölgun kínverskra ferðamanna og mannréttindamál sem oft hafi komist til tals þegar Kína sé annars vegar. Áslaug Arna segir:

„Ég ræddi opinskátt um mikilvægi mannréttinda í utanríkismálastefnu Íslands, áherslu okkar meðal annars á jafnréttismál og réttindi hinsegin fólks. Kínverjar lögðu áherslu á að þeir séu að vinna að því að koma fólki út úr fátækt og árangur þeirra sé mikill á því sviði. En það getur ekki réttlætt mannréttindabrot.“

Kommunistar-1024x627Fulltrúar úr utanríkismálanefnd alþingis með kínversku ILD-sendinefndinni.

Ekki er að finna neina tilkynningu á vefsíðu alþingis um fund fulltrúa úr utanríkismálanefnd þingsins með kínversku sendinefndinni. Óvenjulegt er að það skuli taka viku að setja tilkynningu um fund fjármálaráðherra og Kínverjanna á vefsíðu stjórnarráðsins.

Í tilkynningu stjórnarráðsins er talað um „fulltrúa kínverska kommúnistaflokksins, CPC“.

Þarna var vissulega um kínverska flokksfulltrúa að ræða, það er úr einni stofnun flokksins, alþjóðasdeildinni, International Liaison Department (ILD), sem hefur það hlutverk að rækta samband við forystumenn annarra þjóða til að skapa tengsl á stjórnmálasviðinu. ILD varð til á sínum tíma sem eftirmynd af alþjóðadeild sovéska kommúnistaflokksins sem Stalín kom á fót árið 1943 eftir að hann lagði niður Komintern, samtökin sem sovéski flokkurinn notaði til að rækta alþjóðleg flokkstengsl. ILD hefur haldið utan um flokkssambönd í fyrrverandi kommúnistalöndum og hefur nú fengið það hlutverk að stofna til samstarfs við stjórnmálaflokka almennt og ýmsar stofnanir í öðrum löndum. Í ritum um tengsl kommúnista á Íslandi við sovéska flokkinn má sjá hve Komintern  og síðar alþjóðadeildin skiptu miklu máli á sínum tíma sem vettvagngur til að knýja á um stuðning við Stalín og sovéska flokkinn. ILD er svipað tæki kínverska kommúnistaflokksins.

Lýsing fulltrúa ILD á því sem gerðist á fundum þeirra með íslenskum ráðamönnum sýnir að þeir telja sig hafa náð verulegum árangri við að kynna stefnu Xi Jingpings, flokksleiðtoga og forseta Kína. Lausleg endursögn á tilkynningunni er en stuðst er við þýðingu á ensku eftir Jichang Lulu:

„Í boði íslenska utanríkisráðuneytisins fór varaformaður ILD, Wang Yajun, fyrir sendinefnd sem heimsótti Ísland frá 31. júlí til 2. ágúst, hún hitti formann Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra [Bjarna] Benediktsson, fyrrv. forseta [Ólaf Ragnar] Grímsson [og] formann utanríkismálanefndar alþingis [Áslaugu Örnu] Sigurbjörnsdóttur, og átti ítarleg skoðanaskipti við ýmsa helstu stjórnmálaflokkana og boðaði og kynnti fyrir einstaklingum af ýmsum þjóðfélagsstigum hugsanir Xi Jinpings um sósíalisma með kínverskum sérkennum á nýjum tímum og hvernig háttað er framkvæmd kínverskra aðila á því sem boðað var á 19. þinginu [Kommúnistaflokks Kína].“

Ætla má að íslenskir viðmælendur kínversku sendinefndarinnar hafi ekki áttað sig á að þeir voru í raun þátttakendur í sviðsetningu af hálfu kínverska kommúnistaflokksins. Í huga Kínverja  var þetta ekki „hluti diplómatískrar móttöku“ eða kurteisisheimsókn þar sem spjallað var um veðrið heldur unnu þeir að því að boða stjórnmálaflokkum á Íslandi „hugsun Xi Jinpings“ og að þeirra sögn „í boði íslenska utanríkisráðuneytisins“. Allt var þetta til heimabrúks.

Þarna voru ekki venjulegir stjórnarerindrekar á ferð heldur erindrekar kínverska kommúnistaflokksins. Dregið skal í efa að íslenska utanríkisráðuneytið hafi boðið þeim til landsins heldur hafi stjórnvöld ákveðið að taka á móti sendinefndinni þegar hún boðaði komu sína. Því má velta fyrir sér hvort ástæða hafi verið til þess. Eitt er að semja um fríverslun, ræða fjölgun ferðamanna eða kínverska fótfestu á Kárhóli í Reykjadal í Þingeyjarsýslu annað að fá flokkslínuna frá Xi. Hún á ekkert erindi hingað hvað sem líður áhuga kínverska kommúnistaflokksins á útbreiða boðskapinn um heimsbyggðina.