Flókin staða í Frakklandi
Enginn skýr meirihluti er að baki ríkisstjórn í Frakklandi að loknum þingskosningum. Á úrslitastundu höfnðu kjósendur Þjóðarhreyfingu Marine Le Pen.
Nýja lýðfylkingin (NFP), bandalag vinstri/grænna flokka, fékk flesta þingmenn kjörna í síðari umferð frönsku þingkosninganna sunnudaginn 7. júlí, 182 þingmenn. Miðjubandalag Emmanuels Macrons forseta fékk 168 þingmenn og Þjóðarhreyfing (RN) Marine Le Pen lenti í þriðja sæti með 143 þingmenn.
Að morgni mánudagsins 8. júlí gekk Gabriel Attal forsætisráðherra á fund Macrons og baðst lausnar. Forsetinn fól honum að leiða starfsstjórn, líklega fram yfir Ólympíuleikana í París 26. júlí til 11. ágúst.
Úrslit kosninganna með um 67% kjörsókn sýna enn einu sinni að meirihluti Frakka vill halda Le Pen og flokki hennar frá völdum í Frakklandi. Þegar gengið var til kosninga til ESB-þingsins 9. júní hlaut Þjóðarhreyfingin helmingi fleiri atkvæði en bandalag Macrons. Stuðningur var einnig góður við hreyfinguna í fyrri umferð þingkosninganna 30. júní. Óttuðust margir að hún fengi hreinan meirihluta í gær. Þegar alvaran blasti við kjósendum dró hins vegar mjög úr fylgi við flokkinn.
Jean-Luc Mélenchon, Gabriel Attal, Jordan Bardella.
Í fréttaskýringum segir nú að óvissa kunni að ríkja um framtíð Jordans Bardella, forsætisráðherraefnis flokksins og sigurvegara ESB-þingkosninganna. Telji Marine Le Pen að hann skyggi á sig eða ógni sér jafnvel sem frambjóðandi í forsetakosningum 2027 kunni hún að gera hann brottrækan úr flokknum, hann sé þar í forystu fyrir hennar náð. Yrði það ekki í fyrsta sinn sem hreinsun yrði gerð á æðstu stöðum að fyrirlagi flokksleiðtogans.
Vinstri/græna lýðfylkingin er bandalag nokkurra flokka vinstrisinna og græningja. Þar skipar Jean-Luc Mélenchon, gamalreyndur róttæklingur, sér í fremstu röð. Strax og úrgönguspár sýndu gott gengi NFP í kosningunum flutti Mélenchon ræðu og krafðist þess að Macron skipaði vinstrisinna forsætisráðherra.
„Við erum tilbúnir,“ hrópaði Mélenchon sem hefur þrisvar boðið sig árangurslaust fram sem forseta. Hann telur nú að embætti forsætisráðherra eigi að falla sér í skaut.
Það gerist örugglega ekki. Hafi Macron skömm á Marine Le Pen er hún ekki minni á Jean-Luc Mélenchon, öfgar hans eru síst minni en Le Pen.
Mélenchon nýtur ekki einu sinni stuðnings forystumanna annarra flokka innan NFP til að verða forsætisráðherra. Græningjar eru andvígir því. Raphaël Glucksmann, forystumaður lítils flokks innan NFP, tók ekki undir kröfu Mélenchons um að aðeins stefna NFP ætti nú að ráða ferðinni. Hann hvatti þess í stað til viðræðna til að breyta pólitíska landslaginu.
Þá er minnt á að sósíalistinn François Hollande, fyrrverandi Frakklandsforseti, hafði náð kjöri á þing undir merkjum NFP og þeir Macron þekkist vel frá fornu fari. Macron var efnahagsráðherra í tíð Hollandes en leiðir skildu þegar Macron fór í forsetaframboð sem miðjumaður 2017.
Að kvöldi kjördags var Hollande spurður hvort hann væri forsætisráðherraefni frá vinstri. Hann svaraði að málið væri ekki komið á það stig. Hver veit nema það gerist? Óvæntir leikir eru það sem Macron telur henta sér best.
Frönsk stjórnmál eru spennandi, þar getur allt gerst í flókinni stöðu.