Fjötrar í heilbrigðismálum
Sem betur fer hafa íslensk stjórnvöld ekki gripið fram fyrir hendur þeirra sem stuðla að nýsköpun sem þessari á heilbrigðissviðinu.
Í grein í Morgunblaðinu í dag (28. október) segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, meðal annars:
„Sú ákvörðun að nýta ekki krafta einkaframtaksins í heilbrigðiskerfinu á sama tíma og Landspítalinn ber hitann og þungann af því að sinna þeim sem veikjast í faraldrinum, er ekki aðeins óskiljanleg heldur kostnaðarsöm. Sá kostnaður er ekki aðeins beinn heldur ekki síður óbeinn í formi verri heilbrigðisþjónustu við þá sem þurfa á henni að halda. Lífsgæði þeirra minnka og það leiðir að líkindum til aukins kostnaðar í framtíðinni. Fórnarkostnaðurinn er margvíslegur og borgaraleg réttindi eru í húfi.“
Við höfum þó hér á landi öflug fyrirtæki sem vinna að því að bæta lífsgæði fólks á heilbrigðissviðinu. Ímyndum okkur ef stjórnlyndur, vinstrisinnaður heilbrigðisráðherra andvígur einkaframtaki hefði staðið gegn því að fyrirtækið Össur fengi að þróast. Telur einhver að unnt hefði verið með ríkisrekstri að ná þeim árangri sem fyrirtækið hefur náð og þar með létt fólki um allan heim lífið?
Hvað með nýsköpunarfyrirtækið Kerecis, sem framleiðir sáraumbúðir úr fiskroði? Eða öll fyrirtækin sem vinna að þróun og framleiðslu lyfja? Svo að ekki sé minnst á Íslenska erfðagreiningu.
Í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins, er í dag birt viðtal við læknanna Tryggva Þorgeirsson og Sæmund Oddsson sem stofnuðu heilbrigðistæknifyrirtækið Sidekick Health sem hefur tryggt sér 20 milljóna Bandaríkjadala fjármögnun, jafnvirði 2,8 milljarða íslenskra króna, til þess að styðja við vöxt félagsins í Evrópu og Bandaríkjunum. Fyrirtækið þróar heilbrigðismeðferðir til að bæta heilsu fólks með ýmsa langvinna sjúkdóma.
Sem betur fer hafa íslensk stjórnvöld ekki gripið fram fyrir hendur þeirra sem stuðla að nýsköpun sem þessari á heilbrigðissviðinu. Þegar kemur að rekstri sjúkrahúsa, hjúkrunarheimila, heilsugæslu, húsakosts fyrir þá sem þarfnast umönnunar og slíkra hluta þarf allt að vera í ríkisgreipinni. Þar má ekki nýta krafta einkaframtaksins. Þetta hvílir eins og skuggi yfir þessari starfsemi án þess að með þeim orðum sé vegið að gæðum hennar eða ágæti þeirra sem að henni koma.
Flugmenn tékkneska hersins fluttu öndunarvélar frá NATO -stöð á Ítalíu til Prag.
Nú þriðjudaginn 27. október tók heilbrigðisráðuneyti Tékklands við 60 öndunarvélum frá neyðarbirgðastöð NATO til að auðvelda glímu tékkneskra lækna við COVID-19-faraldurinn. Þarna kom til sögunnar stöð NATO sem á ensku heiti Euro-Atlantic Disaster Response Coordination Centre (EADRCC). Bandaríkjastjórn sendi öndunarvélarnar á sínum tíma í birgðastöð Taranto á Ítalíu en vél tékkneska flughersins flutti þær þaðan til Prag. Þess er jafnframt getið í fréttum um þessa aðstoð NATO til Tékklands að nágrannar Tékka, Ungverjar, hafi látið þeim í té 120 öndunarvélar sunnudaginn 25. október.
Flokkur núverandi heilbrigðisráðherra er andvígur NATO eins og einkaframtaki í rekstri sjúkrahúsa og við lækningar.