28.7.2023 10:07

Fjórtan stjórnmálaár Sigmundar Davíðs

Nú sitja því tveir miðflokksmenn á þingi, Sigmundur Davíð og Bergþór Ólason, fyrrv. sjálfstæðismaður. Þetta eru skrautleg en árangurslítil 14 ár í stjórnmálum.

Sigmundur Davíð skrifar grein á vefsíðuna Viljann í dag (28. júlí) þar sem hann segist í 14 ár hafa „reynt að útskýra fyrir stuðningsmönnum“ Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks „mikilvægi þess að leita í það besta í stefnum flokkanna“ og segir síðan: „Raunar held ég að það besta sem gæti komið fyrir þessa flokka væri minnkandi fylgi við þá og aukið fylgi prinsippflokks.“ Þarna vísar hann til eigin flokks og stjórnmálastarfa. Hver er árangur Sigmundar Davíðs í 14 ára stjórnmálaforystu?

Sigmundur Davíð var óvænt kjörinn formaður Framsóknarflokksins snemma árs 2009. Hans fyrsta pólitíska stórskref að loknu formannskjöri var að veita minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, Samfylkingu, og Steingríms J. Sigfússonar, VG, brautargengi á alþingi frá stjórnarmyndun þeirra 1. febrúar 2009 til kosninga 25. apríl 2009.

Studdu framsóknarmenn þá m. a. aðförina að seðlabankanum og brottrekstur allra stjórnenda hans og stjórnlagafrumvarp Jóhönnu. Frumvarpið átti að kollvarpa stjórnskipuninni og leggja grunn að framsali valds til ESB í þágu aðildar að sambandinu.

Sigmundur Davíð leiddi Framsóknarflokkinn til góðs sigurs í þingkosningum 27. apríl 2013. Flokkurinn fékk 24,4% atkvæða, 19 þingmenn, og bætti við sig 10 þingmönnum. Sjálfstæðisflokkurinn sem fékk 26,7% og 19 þingmenn, bætti við sig þremur.

Sigmundur Davíð varð forsætisráðherra 23. maí 2013 en hrökklaðist úr embætti 7. apríl 2016 þegar hann naut ekki lengur stuðnings þingflokks framsóknarmanna. Leiddi það til uppgjörs innan Framsóknarflokksins og síðar stofnunar Miðflokksins.

286660726_324818783172691_3154729550737332774_nSigmundur Davíð Gunnlagsson og Bergþór Ólason (mynd: Miðflokkurinn).

Miðflokkurinn, nýtt stjórnmálaafl Sigmundar Davíðs, bauð fram í öllum kjördæmum í fyrsta sinn haustið 2017 og fékk 10,9% atkvæða og sjö þingmenn. Hann varð þá stærri en móðurflokkurinn, Framsóknarflokkurinn. Miðflokkurinn fékk 21.335 atkvæði en framsókn undir forystu Sigurðar Inga Jóhannssonar fékk 21.016 atkvæði, 10,7%. Þá komu Píratar og Flokkur fólksins en lestina rak Viðreisn með 6,7% atkvæða.

Í kosningunum 2021 varð Miðflokkurinn minnsti flokkurinn á þingi, hlaut 10.879 atkvæða, 5,4%. Framsóknarflokkurinn fékk hins vegar 34.501 atkv., 17,3%. Sigmundur Davíð hælir sér að lausnamiðaðri prinsippfestu en Sigurður Ingi barðist undir kjörorði sem sagði ekki annað en að það væri bara best að kjósa framsókn.

Á kjörtímabilinu 2017 til 2021 bættust tveir þingmenn við þá sjö þingmenn Miðflokksins sem náðu kjöri 2017 – Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason úr Flokki fólksins eftir Klausturmálið svonefnda 20. nóvember 2018. Gekk Miðflokkurinn því til kosninga í september 2021 með níu þingmenn en aðeins þrír þeirra náðu kjöri. Skömmu eftir kosningarnar sagði Birgir Þórarinsson skilið við Miðflokkinn og settist í þingflokk sjálfstæðismanna.

Nú sitja því tveir miðflokksmenn á þingi, Sigmundur Davíð og Bergþór Ólason, fyrrv. sjálfstæðismaður. Þetta eru skrautleg en árangurslítil 14 ár í stjórnmálum.