22.2.2019 10:16

Fjórmenningaklíkan skipuleggur skemmdarverkföll

Forystu fjórmenningaklíkunnar er að finna á skrifstofu Eflingar-stéttarfélags þar sem stofnendur Sósíalistaflokksins hafa hreiðrað um sig.

Hörður Ægisson, markaðsritstjóri Fréttablaðsins, er réttilega harðorður í garð fjórmenningaklíkunnar (formanna VR, Efl­ingar, Verka­lýðsfé­lags Akra­ness og Verka­lýðsfé­lags Grinda­vík­ur) sem er með ASÍ í gíslingu og ætlar nú að beita skemmdarverkföllum til að valda ómældum skaða á íslensku hagkerfi. Forystu þessarar klíku er að finna á skrifstofu Eflingar-stéttarfélags þar sem stofnendur Sósíalistaflokksins, Viðar Þorsteinsson og Gunnar Smári Egilsson, hafa hreiðrað um sig og gera Sólveigu Önnu Jónsdóttur út af örkinni. Í leiðara Fréttablaðsins í dag segir Hörður:

„Með lýðskrum að vopni, þar sem engu er skeytt um efnahagslegar staðreyndir og allir sem dirfast að vara við marxískum orðavaðlinum eru útmálaðir sem óvinir fólksins, hefur formönnum VR og Eflingar, ásamt ýmsum fylgitunglum sínum, tekist að tromma upp sífellt ískyggilegri stemningu í samfélaginu. Þau hafa markvisst spilað á tilfinningar fólks, einkum þeirra sem lægstu launin hafa, og vakið falsvonir um að hægt sé að ná fram stórfelldum launahækkunum og kjarabótum gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum með einu pennastriki.

Þetta hefur þeim tekist, sem er kannski hvað alvarlegast, í krafti þess að vera komin með dagskrárvaldið í íslenskum fjölmiðlum. Of fáir eru reiðubúnir að stíga fram og benda á ruglið, sem aðeins magnast upp með hverri vikunni sem líður, og hvaða afleiðingar málflutningur þeirra mun hafa fyrir kjör meginþorra almennings nái hann fram að ganga.“

1103974Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. Myndin er samsett af mbl.is

Þeir fjölmiðlar sem helst ganga erinda þessa fólks eru Kvennablaðið, Stundin, Útvarp Saga og Ríkisútvarpið. Fréttatímar ríkismiðilsins miða að því að kynda undir átök. Almennt snúast spurningar fréttamanna um það hvenær verkfallsaðgerðir hefjist og hvernig þeim verði háttað. Til að svara þessum spurningum verða fréttamenn að snúa sér til einhvers úr fjórmenningaklíkunni.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins er ekki eins afdráttarlaus og Hörður. Hann segir þó:

„Viðbrögð nokkurra forystumanna verkalýðshreyfingarinnar, sem eiga það helst sameiginlegt að standa í forystu með afar rýran stuðning félaga sinna að baki, eru þau að lýsa mikilli hneykslan, telja tilboðin fráleit og slíta viðræðum. Er það trúverðugt út frá hagsmunum félagsmanna þeirra? Eða býr annað að baki þessum ofsakenndu, óraunsæju og ábyrgðarlausu viðbrögðum?“

Menn þurfa ekki að vera doktorar í stjórnmálafræði til að átta sig á að annað ræður för fjórmenningaklíkunnar en hagsmunir félagsmanna þeirra. Það skýrist æ betur með hverjum deginum sem líður og urgið í tannhjólum atvinnulífsins hækkar.