Fjórar stoðir öryggisgæslu
Af kynningum starfsmanna þessara fjögurra meginstoða öryggisgæslunnar má ráða að innan núgildandi lagaramma hafi tekist ótrúlega vel að laga þær að breyttum aðstæðum.
Varnarmálaskóli Varðbergs var laugardaginn 29. mars í Háskólanum í Reykjavík. Skólinn var vel sóttur og endurspeglaði þátttakan mikinn áhuga sem nú er á að ræða stöðu Íslands í öryggismálum og breytingarnar innan NATO.
Fyrr í vikunni, 27. mars, var haldin tvískipt heilsdagsráðstefna sem ríkislögreglustjóri skipulagði. Fyrir hádegi var hún opin öllum en eftir hádegi var hún aðeins fyrir þá sem starfa innan lögreglunnar. Um 300 manns sóttu opna hluta ráðstefnunnar.
Í varnarmálaskólanum og á lögregluráðstefnunni var lögð áhersla á að kynna fjórar stoðir öryggisgæslu á vegum íslenskra stjórnvalda, þrjár eru á vegum borgaralegra stofnana og gæta öryggis lands og þjóðar inn á við, ef þannig má orða það, þetta eru lögreglan, landhelgisgæslan og netöryggissveitin. Almannavarnir eru regnhlífin yfir þessa öryggisgæslu, þær lúta pólitískri ábyrgð dómsmálaráðherra.
Fjórða stoðin er varnarmálaskrifstofan sem er hluti utanríkisráðuneytisins og sinnir gæslu íslenskra varnar- og öryggishagsmuna út á við. Varnarmál snúast um hermál og hefur varnarmálaskrifstofan umboð til að sinna þeim í samskiptum við önnur ríki.
Enginn vilji hefur verið til þess á alþingi að setja lög um hernaðarlega starfsemi innlendra stofnana sem sinna öryggisgæslu. Í almannavarnalögum er þó gert ráð fyrir að sveigjanlega samstarfskerfið sem þar er lögbundið yrði einnig nýtt stæði þjóðin frammi fyrir hernaðarvá.
Af kynningum starfsmanna þessara fjögurra meginstoða öryggisgæslunnar má ráða að innan núgildandi lagaramma hafi tekist ótrúlega vel að laga þær að breyttum aðstæðum. Það ræðst ekki síst af því að allar borgaralegu stofnanirnar starfa í náinni samvinnu við stysturstofnanir erlendis og stunduð er gagnkvæm miðlun upplýsinga, þekkingar og reynslu.
Ríkisstjórnin ætlar í samvinnu við fulltrúa allra þingflokka að uppfæra stefnuna í varnar- og öryggismálum. Kynningarfyrirlestrarnir sem fluttir voru í vikunni staðfesta þá skoðun að skerpa þurfi lagaheimildir borgaralegu stofnananna til upplýsingaöflunar og til að sinna varnartengdum verkefnum. Óljósar hugmyndir virðast um að flytja aðgerðastofnun eins og netöryggissveitina inn í utanríkisráðuneytið. Sveitin á heima við hlið stofnana innan almannavarnakerfisins.
„Gistiríkjastuðningur“ er lykilorð þegar litið er til daglegra samskipta innlendra stofnana hér við heri annarra NATO-ríkja. Starfsmenn landhelgisgæslu sinna þessu verkefni í umboði utanríkisráðuneytisins á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Verkefnið verður sífellt víðtækara en í grunninn er það að skapa sem besta alhliða aðstöðu fyrir hersveitir sem hingað koma og gera þeim kleift að sinna störfum sínum á snurðulausan hátt.
Það gefur alranga mynd af stöðu Íslands innan NATO að láta eins og Íslendingar séu þar hlutlausir í skjóli eigin herleysis. Ísland er ekki herlaust land og Íslendingar leggja verulega mikið af mörkum í NATO til að tryggja að svo sé ekki. Fulltrúar Íslands sitja við borðið og koma að öllum ákvörðunum sem varða varnir landsins. Það er hlutverk utanríkisráðuneytisins að tryggja að þetta kerfi sé opið íslenskum stofnunum sem lúta eigin lögum.