21.10.2022 9:58

Fjölþáttastríð fjær og nær

Rannsóknir fræðimanna sýna að aðferð Rússa til að brjóta Úkraínumenn á bak aftur með loftárásum muni ekki bera þann árangur sem að er stefnt.

Jan Lipavský (37 ára) hefur verið utanríkisráðherra Tékklands frá desember 2021. Hann er einn af fjórum þingmönnum Pírata á þingi þar sem hann hefur setið frá 2017. Á þingi ESB skipa tékkneskir píratar sér í flokk með græningjum. Á þingi Evrópuráðsins skipar píratinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sér í þingflokk sósíalista.

Jan Lipavský, sem nú gegnir formennsku í ráðherraráði ESB, sagði í samtali við BBC í morgun að ESB ætti í fjölþátta stríði (e. hybrid war) við Rússa, það er stríði með öðru en hefðbundnum vígtólum. Hann sagði einnig að drónaárásir Rússa á borgaraleg skotmörk í Úkraínu væru stríðsglæpir.

Fjölþátta stríð felst meðal annars í því að sprengdar eru gasleiðslur eins og gert var í efnahagslögsögu Svía og Dana skammt frá Borgundarhólmi í Eystrasalti 26. september sl. Enginn kannast við að hafa unnið skemmdarverkið en öll bönd berast að Rússum.

1510274Pútin vonar að með því að stuðla að kulda og trekki sem víðast í Evrópu styrki hann stöðu sína í stríðinu við Úkraínumenn.

Allar aðgerðir Rússa í orkumálum gegn Evrópuþjóðum samhliða hernaðaraðgerðunum í Úkraínu eru liður í fjölþátta stríði. Von Vladimirs Pútins er að á þennan hátt grafi hann undan trausti þjóða í garð stjórnenda sinna og þvingi þá til að lúta vilja Moskvuvaldsins. Þetta er borin von. Seigla lýðræðisþjóða er meiri en svo að þetta dugi til að eyðileggja viðnámsþrótt þeirra.

Rannsóknir fræðimanna sýna að aðferð Rússa til að brjóta Úkraínumenn á bak aftur með loftárásum muni ekki bera þann árangur sem að er stefnt nema þeir ráði yfir hermönnum á vígvellinum til að fylgja þeim eftir. Rússar geti vissulega valdið miklu tjóni á íbúðahverfum og grunnvirkjum en sigur vinni þeir ekki á þennan hátt.

Sergeij Medvedev, rússneskur stjórnmálafræðingur og stjórnmálaheimspekingur, sem býr nú í útlegð, segir Rússa standa höllum fæti vegna Pútins sem hafi gert það að sérgrein sinni á alþjóðamörkuðum að verða uppspretta áhættu og ótta. Medvedev minnir á að hryðjuverk séu vopn þeirra sem eru veikburða – Palestínumanna, íslamista eða vinstrisinna – til að brjóta kerfi hinna öflugu. Þeir beiti óskipulegum aðferðum gegn þeim sterkari, stofni til mótmæla og sýni fórnarlömbum sem fyrir tilviljun verði á vegi þeirra grimmd með það að markmiði að hrella ríkisstjórnir og almenning.

Þessari aðferð beitir Pútin nú af miklum þunga til að vega upp á móti augljósu hernaðarlegu máttleysi Rússa, hnignun þeirra í efnahagsmálum og tækni samhliða einangrun á alþjóðavettvangi. Á allsherjarþingi SÞ greiddu 143 ríki með ályktun sem gagnrýndi ákvörðun Pútins frá 30. september 2022 um innlimun fjögurra héraða í Úkraínu, aðeins fjögur ríki skipuðu sér við hlið Rússa en 35 greiddu ekki atkvæði.

Norsk yfirvöld búa sig nú undir árásir á raforkuvirki landsins. Undanfarið hafa Rússar verið teknir fastir í Noregi vegna töku drónamynda á sjó og landi, þar á meðal Svalbarða. Fjölþátta stríðið er háð þar. Almannavarnakerfið er grandskoðað til að kanna styrk þess og veikleika.