Fjölþáttaógnir og rannsóknir
Hópurinn hefur nú heimsótt Grænland, Færeyjar og Ísland og fyrir dyrum stendur að gefa út skýrslu með greinum ýmissa höfunda.
Hér voru í vikunni fræðimenn í öryggis- og varnarmálum frá Norðurlöndunum og Bretlandi. Að frumkvæði Dana mynduðu þeir samstarfsnet (e, network) fyrir nokkrum misserum og leggja höfuðáherslu á að rannsaka breytingar sem hafa orðið og eru að verða á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum, norðvestur svæði Norðurlandanna þar sem Bretar láta sífellt meira að sér kveða.
Hópurinn hefur nú heimsótt Grænland, Færeyjar og Ísland og fyrir dyrum stendur að gefa út skýrslu með greinum ýmissa höfunda.
Þriðjudaginn 16. nóvember skipulögðu Varðberg
og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands opið, fjölsótt málþing í Auðarstofu í Veröld,
húsi Vigdísar, þar sem þrír félagar í hópnum fluttu erindi. Sjá upptöku frá málþinginu hér.
Frá málþingi Varðbergs og Alþjóðamálastofnunar í Auðarstofu 15. nóvember 2022.
Meðal ræðumanna á málþinginu var Gunhild Hoogensen Gjørv, prófessor við UiT The Arctic University of Norway, Norðurslóðaháskólann í Noregi. Hún kynnti r rannsóknarverkefnið The Grey Zone sem hún stjórnar og snýr að fjölþátta ógnum.
Hópurinn ræddi meðal annars við alþingismenn miðvikudaginn 16. nóvember sama dag og Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknarflokksins, hóf þar sérstaka umræðu um fjölþáttaógnir og netöryggismál. Katrín Jakobdóttir forsætisráðherra var til svara. Þingmenn allra flokka tóku þátt í umræðunum og voru samdóma um nauðsyn þess að efla varnir íslensks samfélags gegn þessum ógnum.
Jóhann Friðrik vísaði til aukinnar hættu sem samfélaginu kynni að stafa af fjölþáttaógnum ásamt hröðum tæknibreytingum og spurði ráðherrann hvort stjórnvöld, atvinnulíf og samfélag væru nógu vel í stakk búin til að mæta þessum áskorunum.
Katrín Jakobsdóttir svaraði „að enn [væri] töluvert verk óunnið svo að við segjum það bara heiðarlega“ til að fullyrða mætti að við værum nógu vel í stakk búinn á þessu sviði. Jafnframt minnti hún á að á undanförnum árum hefði „gríðarlega mikið breyst á Íslandi til batnaðar í því að efla áfallaþol samfélagsins og gera okkur betur í stakk búin til að takast á við þessar ógnir“. Nefndi hún átak til uppbyggingar innviða í kjölfar ofsaveðurs sem gekk yfir landið í desember 2019. Þar hefði verið sett af stað mikil vinna til að greina áfallaþol samfélagsins, orkuinnviða, fjarskiptainnviða, samgönguinnviða og lagðar fram gríðarlega víðtækar tillögur, 540 aðgerðir á sviði orkumála, fjarskipta, samgangna, almannavarna og samhæfingar. Væri verið að vinna að þessum aðgerðum og væri vinnan á áætlun.
Kynni menn sér rannsóknarverkefnið The Grey Zone sjá þeir hve víðtækt þetta svið er og hve víða Norðmenn hafa gripið til og telja nauðsynlegt að grípa til gagnaðgerða. Nú síðast til dæmis vegna drónaflugs sem talið er til marks um njósnir.
Fyrir alþingi liggur þingsályktunartillaga um rannsóknarsetur í öryggis- og varnarmálum. Vilji þingmenn láta að sér kveða til að styrkja íslenskt samfélag á þessu sviði verður það ekki gert án fræðilegra rannsókna, þeir eiga þess vegna að samþykkja þessa tillögu og tryggja henni brautargengi með fjárveitingu.