Fjölmiðlun og dómstólar
Fyrir löngu er tímabært að brugðið sé meiri birtu á gang þessara mála og annað sem varðar dómstólana og samskipti lögmanna við fréttamenn.
Vegna þess hve mikið skilur á milli afstöðu Morgunblaðsins og The New York Times kemur á óvart að enn í dag (28. desember) birtist hér áramótablað í samvinnu blaðanna. Ólík viðhorf ritstjórna blaðanna birtast nú hvað skýrast í afstöðunni til Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Sannast það vel á leiðara Morgunblaðsins í dag. Á allt annan veg er skrifað um forsetann í The New York Times en birtist í þessum leiðara.
Þróunin í fjölmiðlun hér á þessu ári er á einn veg. Þungt er undir fæti hjá öllum fjárhagslega nema ríkisútvarpinu (RÚV) sem fær um fimm milljarða á ári frá skattgreiðendum auk um tveggja milljarða í auglýsingatekjur. Nefskatturinn til RÚV hækkar enn um áramótin. Samþjöppun á fjölmiðlamarkaðnum jókst í ár með samruna Fréttablaðsins, Hringbrautar og DV samþykki Samkeppniseftirlitið á að allir þessir miðlar verði í eigu Helga Magnússonar, endurskoðanda og fjárfestis.
Við þetta verða þrír vefmiðlar á hendi sama eiganda en til varð nýr visir.is við skil milli ritstjórnar hans og Fréttablaðsins 1. desember 2019. Fréttastofa Sýnar heldur úti visir.is. Þá er hér vefsíðan Kjarninn sem stundar litla sjálfstæða fréttamennsku en birtir dálka eftir ýmsa höfunda, einkum vinstra megin við miðju. Lengra til vinstri er vefsíðan Stundin sem stofnaði á árinu til samstarfs við fréttastofu RÚV í Namibíu-Samherjamálinu sem ekki hefur verið fjallað um til fulls en hratt af stað sakamálarannsóknum í Nambíu og hér á landiu, rannsóknum sem teygja anga sína víða.
Þetta eru þeir innlendu miðlar sem hér er ástæða að nefna og er þá sleppt t.d. Útvarpi Sögu og vefsíðunni Miðjunni. Þar er gjarnan róið á fjarstæðumið furðufrétta og neikvæðni í hreinu niðurrifsskyni.
Þegar sótt er að RÚV eru viðbrögðin gjarnan að birta niðurstöður einhverra kannanna sem sýna að fréttir opinbera hlutafélagsins njóti mesta trausts allra innlendra fjölmiðla. Í Morgunblaðinu í dag lýsa tveir hæstaréttarlögmenn, Jón Steinar Gunnlaugsson og Jón Magnússon ótrúlega ótraustvekjandi vinnubrögðum fréttastofu RÚV.
Hér verður ekki farið í saumana á málavöxtum í ádeilu lögmannanna á fréttastofuna en af þeim verður dregin sú ályktun að enn einu sinni dragi fréttamenn taum ákveðins hóps lögmanna og dómara.
Hlutdrægni af þessu tagi hefur birst um langt skeið í frásögnum RÚV af skipun í dómaraembætti. Í fréttagreinum í Morgunblaðinu hefur undanfarið verið leitt í ljós að við umsagnir um dómaraefni hafa nefndir sérfróðra manna farið að eigin geðþótta til að binda hendur ráðherra. Þau gagnrýnisverðu vinnubrögð verða síðan að pólitísku árásarefni í bandalagi stjórnarandstöðu, fréttamanna og dómara,.
Fyrir löngu er tímabært að brugðið sé meiri birtu á gang þessara mála og annað sem varðar dómstólana og samskipti lögmanna við fréttamenn. Þöggun í þessu efni er engum til gagns, síst af öllu lögfræðingum eða réttarkerfinu.