1.3.2024 9:38

Fjölmiðlun á krossgötum

Undanfarin ár hefur stöðugt hallað á ógæfuhlið íslenskra fjölmiðla. Fjárhagslega umgjörðin hefur gjörbreyst samhliða tæknilegri byltingu. 

Margt bendir til að blaðamenn og aðrir höfundar ritaðs máls standi frammi fyrir svipaðri breytingu á vinnubrögðum í grein sinni og setjarar á sínum tíma þegar blýið hvarf úr prentsmiðjum og tölvurnar komu í staðinn. Þeir sem muna þá tíma þegar setjararsalir hurfu og menn hættu að raða saman blaðsíðum í blýi átta sig á umskiptunum. Setjarar og umbrotsmenn urðu að laga sig að nýrri tækni. Umþóttunartíminn var mörgum erfiður en enginn gat stöðvað innrás stafrænu tækninnar.

Nú fjölgar leiðum og aðferðum til notkunar á gervigreind til að setja saman texta dag frá degi.

Páll Vilhjálmsson skýrir frá því á bloggsíðu sinni, Tilfallandi athugasemdum, í dag (1. mars) að á málþingi um íslenska fjölmiðla í gær, á vegum menningar- og fjölmiðlaráðuneytisins, hafi Bretinn David Caswell, sérfræðingur í gervigreind og áhrifum hennar á blaðamennsku og fjölmiðla, sýnt fram á að gervigreind gæti nú þegar séð um alla framleiðslu á fréttum, sem blaðamenn hafa hingað til sinnt. Með forritum sé hægt að búa til fréttatexta og fréttamyndskeið tilbúið til birtingar. „Aðeins forrit, enginn blaðamaður,“ segir Páll.

Í frétt Morgunblaðsins af málþinginu segir að ráðherra málaflokksins, Lilja D. Alfreðsdóttir, ætli í næstu viku að kynna „nýja fjölmiðlastefnu ríkisstjórnarinnar“. Útfærslan sé trúnaðarmál en þó upplýsti ráðherrann að lagasetning væri til skoðunar „til að tryggja íslenskum fjölmiðlum hluta af tekjum sem netrisar hafa af fréttum“. Í því efni sé meðal annars horft til reynslu Ástrala, þar sem tæknirisum á borð við Google og Meta er gert að semja við fjölmiðla um skiptingu þessara tekna.

Screenshot-2024-03-01-at-09.37.27

Haft er eftir fjölmiðlaráðherranum að tryggja verði að stefnan sem er í mótun einangri okkur ekki vegna minni netumferðar. Þetta er ekki skýrt nánar en ráðherrann segist skoða þetta „til þess að afla tekna og tryggja að íslenskir fjölmiðlar fái greitt fyrir vinnuna sína... Veturinn hefur farið í þetta og hluti af þeirri vinnu var að efna til þessa málþings. Þetta verður forgangsmál út kjörtímabilið,“ svo vitnað sé í það sem ráðherrann segir í blaðinu.

Því miður er þetta allt frekar óljóst eins og svo margt annað sem ráðherrann hefur oft áður sagt um stöðu og framtíð fjölmiðlunar.

Undanfarin ár hefur stöðugt hallað á ógæfuhlið íslenskra fjölmiðla. Fjárhagslega umgjörðin hefur gjörbreyst samhliða tæknilegri byltingu sem veldur því meðal annars að fjárfrekasti fjölmiðillinn og sá sem skattgreiðendur halda úti tekur á sig æ meiri mynd tækniminjasafns auk þess sem gildi meginstoðar hans, rásar 1, er oft lýst með svipuðu orðalagi og notað er um Þjóðminjasafnið eða orðabók Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Nú þegar boðað er á málþingi fjölmiðlaráðuneytisins að gervigreind komi í stað frétta- og dægurmáladeilda vaknar sú spurning hvort fjölmiðlastefnan sem kynnt verður eftir helgi taki mið af því. Varla er það hlutverk ríkisins að skapa gervigreindinni umgjörðina?