30.5.2024 9:58

Fjölmiðlalögum synjað

Eftir heimkomu Ólafs Ragnars var stofnað til undirskriftasöfnunar til að skora á Ólaf Ragnar að staðfesta ekki fjölmiðlalögin hver svo sem afstaða fólks væri til efnis þeirra. 

Um þessar mundir fyrir réttum 20 árum var allt á suðupunkti hér vegna fjölmiðlalaganna svonefndu. Eigendur Baugsmiðla og stjórnarandstaðan töldu meirihluta alþingis sem stóð að baki ríkisstjórn Davíðs Oddssonar vega að málfrelsi í landinu með lögunum sem myndu gera út af við miðla fjármála- og verslunarveldisins þar sem Gunnar Smári Egilsson hélt öllum þráðum saman í þágu auðmannanna.

Fyrir 20 árum voru forsetakosningar 26. júní. Ólafur Ragnar Grímsson, sitjandi forseti, tilkynnti 15. mars 2004 að hann gæfi kost á sér til endurkjörs. Tveir buðu sig fram að auki: Baldur Ágústsson og Ástþór Magnússon.

IMG_9988

Konunglegt brúðkaup Friðriks, núv. Danakonungs, og Maríu, núv. drottningar, var 14. maí 2004. Ólafi Ragnari var boðið til þess og var hann erlendis á leið til Kaupmannahafnar 12. maí þegar þessi risafyrirsögn birtist á forsíðu eins Baugsmiðlanna, DV: Komdu heim herra Ólafur. Þennan sama dag sneri Ólafur Ragnar til Íslands. Hann óttaðist að sama mundi gerast og 1. febrúar 2004 þegar efnt var til ríkisráðsfundar á meðan hann var erlendis til að minnast 100 ára afmælis heimastjórnar á Íslandi – lögin yrðu staðfest að honum fjarstöddum.

Eftir heimkomu Ólafs Ragnars var stofnað til undirskriftasöfnunar til að skora á Ólaf Ragnar að staðfesta ekki fjölmiðlalögin hver svo sem afstaða fólks væri til efnis þeirra. „Við höfum tíma á meðan stjórnarandstaðan heldur uppi málþófi,“ sagði í bréfi sem Róbert Marshall, fréttamaður á Baugsmiðlinum Stöð 2 og formaður Blaðamannafélags Íslands, sendi félagsmönnum. Í bréfinu sagði:

„Við höfum hálmstrá. Ólafur Ragnar Grímsson sagði í kosningabaráttunni 1996 að hefði hann verið forseti þegar rúmlega 30.000 manns skoruðu á Vigdísi Finnbogadóttur að undirrita ekki EES-samninginn hefði hann orðið við því og neitað að samþykkja lögin. Tökum nú á öll sem eitt og söfnum 35.000 undirskriftum yfir helgina á askrift.is.“

Sigurður G. Guðjónsson var bæði forstjóri Norðurljósa, fjölmiðlafyrirtækis Baugs, og formaður stuðningsmannafélags Ólafs Ragnars vegna forsetakosninganna.

IMG_9989

Ólafur Ragnar fékk undirskriftalista með nöfnum 31.752 Íslendinga þar sem skorað var á hann að staðfesta ekki fjölmiðlalögin. Hann staðfesti ekki lögin og sendi frá sér sérstaka tilkynningu um það 2. júní 2004. Hann var endurkjörinn forseti 26. júní en fjöldi auðra seðla var svo mikill að þótt Ólafur Ragnar hlyti 67,9% greiddra atkvæða fékk hann stuðning 42,5% þeirra sem voru á kjörskrá.

Þrjár ástæður má nefna til að rifja þetta upp núna:

1. Það hefur áður verið tekist á af hörku í aðdraganda forsetakosninga.

2. Við þessa aðgerð forseta breyttist afstaða til embættisins eins og glöggt má sjá nú 20 árum síðar á málflutningi margra frambjóðenda.

3. Andstæðingar fjölmiðlalaganna sögðust berjast fyrir öruggri framtíð Baugsmiðlanna. Þeir hafa gengið sér til húðar vegna ákvarðana eigenda sinna og Gunnar Smári heldur úti netmálgagni sósíalista með ríkisstyrk.