24.7.2021 11:42

Fjölmiðlahjal og rangar getsakir

Fjölmiðlahjal gleymist oft í lok dags, öðru máli gegnir um síendurteknar, rangar yfirlýsingar sem rata inn í bækur og blöð.

Það lá í augum uppi fyrir þriggja stunda langan fund ríkisstjórnarinnar sem haldinn var í Valaskjálf á Egilsstöðum í gær (23. júlí) að þar yrðu teknar ákvarðanir um leiðir til að stemma stigu við aukinni útbreiðslu kórónuveirunnar. Fundurinn var beinlínis haldinn í því skyni að ræða svonefnt minnisblað eða tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um þetta efna. Jafnframt lá fyrir að ráð læknisins tækju mið af því hve stór hluti þjóðarinnar væri bólusettur.

Í Fréttablaðinu í dag (24. júlí) er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra og varaformanni Sjálfstæðisflokksins, að innan ríkisstjórnarinnar sé vissulega fólk með ólíkar skoðanir en það nái saman um þetta mál sem ein stjórn, eina vitið sé „að við finnum út úr því hvernig sé hægt að lenda málum þannig að hægt sé að halda áfram.“ Þau verði „áfram saman í þessu sem ríkisstjórn".

1288620Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins: Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir á Reykjavíkurflugvelli föstudaginn 23. júlí. Þær fara yfir skjöl áður en haldið er til ríkisstjórnarfundar á Egilsstöðum (mynd: mbl.is).

Þannig slær Þórdís Kolbrún út af borðinu vonir innan Samfylkingarinnar, sem birtust í hrakspá Helgu Völu Helgadóttur þingmanns, og meðal fjölmiðlamanna, sem birtust í upphrópunum Jakobs Bjarnar, blaðamanns Vísis, um að Þórólfur mundi sprengja stjórnarsamstarfið með minnisblaði sínu. Í orðum Helgu Völu birtist einnig dreifbýlisandúð þegar hún hneykslaðist á að ríkisstjórnin fundaði á Egilsstöðum. Loks snerust innihaldslausar fréttir fjölmiðla um að ráðherrar og embættismenn hefðu leigt skrúfuþotu til ferðar á Egilsstaði, áætlunarvélar voru fullbókaðar. Til að fréttin um farkostinn yrði ábúðarmeiri var vélin sögð „þota“.

Allt gleymist þetta fjölmiðlahjal fljótt vegna alvöru málsins sjálfs og nauðsynjar þess að finna áhrifamikla og hagkvæma leið til að snúa vörn í sókn gegn veirunni með því að beita lögbundnu meðalhófi.

Almennt erfa menn það ekki við ábyrgðarlitla stjórnmálamenn né yfirlýsingaglaða fjölmiðlamenn þegar hrakspár þeirra og fullyrðingar reynast ekki annað en léttvægt stundarfyrirbrigði, engum til hnjóðs nema höfundum sjálfum. Öðru máli gegnir um síendurteknar, rangar yfirlýsingar sem rata inn í bækur og blöð.

Í Morgunblaðinu í dag nefnir Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor tvö slík mál til sögunnar, Drengsmálið svokallaða og fullyrðingarnar um að íslensk stjórnvöld og bandarísk lögregluyfirvöld hafi stöðvað útgáfu á bókum Halldórs Laxness í Bandaríkjunum.

Hannes Hólmsteinn bendir á að Pétur Gunnarsson rithöfundur hafi haft að engu heimildir um dauða gyðingadrengsins, Nathans Friedmanns. Getið sér til um dauða hans í útrýmingarbúðum nazista á fimmta áratugnum þótt upplýst hafi verið um andlát hans á sóttarsæng árið 1938.

Þá segir Hannes Hólmsteinn að nú nýlega hafi „Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson birt skjöl frá bandaríska útgefandanum Alfred Knopf sem sýna, að ákvörðunin um að hætta útgáfu verka Halldórs réðst af mati bókmenntaráðunauta hans, ekki stjórnmálaástæðum“.

Nú er þess beðið að þeir sem hafa hver eftir öðrum haft uppi getsakir um endalokin á útgáfuferli Laxness í Bandaríkjunum fyrir 70 árum viðurkenni villu sína.

Bæði þessi mál hafa verið notuð til árása á pólitíska andstæðinga hér á landi. Það er sérkennilegt að sjá sér pólitískan hag af því að bera andstæðinga sína árum saman röngum sökum.