30.12.2018 10:01

Fjölmiðlabylting eykur þröngsýni

Byltingin í fjölmiðlum gerist fyrir augunum á okkur. Spurning er hvort við séum betur upplýst eða ekki vegna hennar.

Ábendingar bárust vegna pistils hér á síðunni í gær. Blaðamenn Morgunblaðsins gáfu meðal annars til kynna á Facebook að ekki væri rétt að álykta á þann veg sem gert var, að ekki yrðu neinar áramótakveðjur stjórnmálaforingja í blaðinu. Það kæmi út á gamlársdag.

Á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu í gær sagði að blaðið kæmi næst út í „hefðbundinni“ útgáfu 2. janúar. Við það var miðað við ritun pistilsins í gær. Á morgun kemur út „óhefðbundin“ útgáfa Morgunblaðsins í samvinnu við bandaríska blaðið The New York Times. Má í ljósi ábendinga vænta að þar verði margræddar áramótakveðjur.

Pistillinn í gær bar fyrirsögnina: Tímamótabreyting Morgunblaðsins. Hún stendur alveg fyrir sínu og meira en það eftir að upplýst er að nú eigum við áskrifendur von á „hefðbundnu“ og „óhefðbundnu“ blaði.

Byltingin í fjölmiðlum gerist fyrir augunum á okkur. Spurning er hvort við séum betur upplýst eða ekki vegna hennar. Því miður má rekja mörg furðu- og öfgasjónarmið til þess að menn láta sér nægja að lesa eða horfa á það sem þeim fellur í geð eða ýtir undir fordóma þeirra í stað þess að líta yfir sviðið allt, vega og meta það sem í boði er.6157939-news-images


Donald Trump Bandaríkjaforseti bauð sig ekki aðeins fram til að stjórna Bandaríkjunum innan hefðbundins ramma heldur hefur hann farið óhefðbundnar leiðir til að stjórna skoðanamyndun með árásum á fjölmiðla og ásökunum í garð einstakra fjölmiðlamanna fyrir að birta falsfréttir. Ásakanirnar verða síðan til þess að fylgismenn hans úthrópa ákveðna fjölmiðla og loka á streymi upplýsinga frá þeim, upplýsinga sem eru nauðsynlegar til að menn átti sig á heildarmyndinni ­– geti sjálfir valið og hafnað.

Enginn einn fjölmiðill segir alla söguna. Hún verður til í huga okkar hvers og eins á grunni þess fróðleiks sem við öflum. Hér á landi er oft látið eins og fréttastofa ríkisútvarpsins hafi alla þræði í hendi sér við miðlun sína. Það er misskilningur. Sjónarhornið er þröngt og efnistökin leiðinleg.

Fyrir þá sem hafa áhuga á fréttum, skýringum á þeim og ólíkum efnistökum þeirra eru þetta gósentímar. Unnt er að fá sent til sín í tölvuna og símann fróðleik úr öllum heimshornum og í sjónvarpi má sjá stórviðburði um leið og þeir gerast.

Í því felst þverstæða að þetta ýti undir þröngsýni og öfgar.