25.2.2020 9:28

Fjölmennt málþing um NATO

Málþingið sýndi að líta þarf til miklu fjölbreyttara sviðs en þessa þegar hugað er að viðfangsefnum á vettvangi NATO.

Fjölmennt málþing um málefni NATO var haldið mánudaginn 24. febrúar í Veröld, húsi Vigdísar. Sendiráð Bandaríkjanna og Bretlands stóðu að málþinginu í samvinnu við Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál. Fyrirlesarar voru frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Íslandi.

Þegar rætt er um málefni NATO hér á landi beinist athygli einkum að hefðbundnum varnar- og hermálum ef svo má að orði komast, það er þróun flotamála á Norður-Atlantshafi.

Málþingið sýndi að líta þarf til miklu fjölbreyttara sviðs en þessa þegar hugað er að viðfangsefnum á vettvangi NATO.

Álfrún Perla Baldursdóttir stjórnmálafræðingur starfar nú í laga- og stjórnsýsluskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Frá árinu 2018 til 2019 var hún stjórnmálaráðgjafi hjá NATO í Afganistan. Í fyrirlestri sínum á málþinginu sagði hún frá reynslu sinni þar undir fyrirsögninni: Gender Security – No Peace without Women.

Flutti Álfrún Perla mjög sterk rök því til stuðnings að virkja þyrfti konur í stríðandi samfélögum til að vinna að friði og tryggja hann. Dæmin sem hún nefndi máli sínu til stuðnings frá Afganistan voru sláandi.

Nú er rætt um að samkomulag sé á næsta leiti milli Bandaríkjastjórnar og Talibana. Miðað við afstöðu þeirra til kvenna og réttinda þeirra eru litlar líkur á að samkomulagið verði til þess að friðvænlegra verði í Afganistan.

86359894_10157307159229576_8190369592565039104_oHallgrímur Indriðason, fréttamaður hjá ríkisútvarpinu, var á árinu 2018 samskiptafulltrúi hjá herafla á vegum NATO í Litháen sem lýtur þýskri stjórn. Fyrir utan að lýsa því starfi sem unnið er undir merkjum NATO til þess að auka öryggiskennd íbúa Litháens sagði Hallgrímur frá raunverulegum dæmum um upplýsingafalsanir sem raktar eru til Rússa og hníga að því að sverta NATO-heraflann í augum Litháa. Meðal annars var hópnauðgun logið upp á þýska hermenn auk þess sem brynvarið ökutæki hafði átt að verða 12 ára dreng að bana.

Þessi dæmi Hallgríms voru ljóslifandi í huga fundarmanna þegar Alicia Romano í Rússlandsdeild bandaríska utanríkisráðuneytisins sagði frá baráttunni gegn fjölþátta ógnum (e. hybrid threats) sem setur sterkan svip á umræður um bandarísk öryggismál vegna þess mats leyniþjónustustofnana landsins að Rússar hlutist til um prófkjör og forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Stofnanirnar telja að Rússar vilji helst sjá þá Donald Trump og Bernie Sanders berjast en Rússar hafa lagt báðum lið með undirróðri sínum.

Auk þessara þriggja ræðumanna fór Marie Blanchard úr bandarísku fastanefndinni í NATO yfir sögu bandalagsins og Nick Picard, varafastafulltrúi Breta hjá NATO, ræddi um þau verkefni sem nú ber hæst á vettvangi bandalagsins. Lagði hann sérstaka áherslu á varðstöðuna um að farið væri að alþjóðalögum í alþjóðasamskiptum.