17.3.2018 9:46

Fjölmenni við upphaf landsfundar

Mikið fjölmenni var í Laugardalshöll í gær, 16. mars, þegar 43. landsfundur Sjálfstæðisflokksins var settur af Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins.

Mikið fjölmenni var í Laugardalshöll í gær, 16. mars, þegar 43. landsfundur Sjálfstæðisflokksins var settur af Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins. Fundurinn er haldinn undir kjörorðinu: Gerum lífið betra.

Um 1.000 manns gerðu góðan róm að ræðu Bjarna. Hún bar þess merki að undir forystu hans hefur flokkurinn skapað sér traustan sess sem klassískur mið-hægri flokkur sem höfðar til breiðs hóps kjósenda og endurspeglar þannig með stefnu sinni meginstrauma samfélagsins og stendur vörð um gildi þess.

Flokkum af þessu tagi vegnar almennt vel í evrópskum stjórnmálum um þessar mundir á sama tíma og mið-vinstri flokkar á borð við Samfylkinguna hér glata sérstöðu sinni vegna óljósrar, ábyrgðrarlausrar stefnu.

Í ræðu sinni sagði Bjarni meðal annars:

„Við ætlum að halda áfram að lækka skatta á þessu kjörtímabili. Tekjuskatturinn mun lækka. Tryggingagjald mun lækka. Þetta er stefna okkar.“ Þessari stefnu til áherslu minnti hann á það sem hann boðaði á landsfundi 2013 um lækkun skatta og öflugra efnahagslíf og sagði það hafa gengið eftir. Nú væru heimilin í landinu  á uppleið, fyrirtækin efldust og ríkissjóður greiddi niður skuldir og hefði á undanförnum árum losað sig við 600 milljarða af skuldum.

IMG_5586Horft yfir salinn í Laugardalshöll við upphaf landsfundar sjálfstæðismanna.

Hann sagði gott traust ríkja á milli stjórnarflokkanna og mikinn vilja til samstarfs: „Bæði til að vinna þau verk sem vitað er að þarf að vinna, en líka til að takast á við öll þau mál sem koma óvænt upp.“

Hann áréttaði að Sjálfstæðiflokkurinn stæði vörð um ábyrga stefnu þjóðarinnar í öryggis- og varnarmálum.

Um peningamál og Evrópusambandið sagði hann: „Við skulum vera alveg skýr á hlutunum. Við höfnum þeirri hugmynd að taka upp aðra mynt og við höfnum þeirri hugmynd að Ísland eigi að ganga í ESB til að taka upp evruna.

Hann sagði að með lækkun skulda ríkisins og auknu svigrúmi vegna lækkunar vaxtagreiðslna væri unnt að veita auknu fé til að styrkja vegakerfið, efla menntun í landinu, kaupa þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna, nýjan Herjólf, reisa nýjan spítala. Þetta væri ekki til marks um að „báknið“ stækkaði heldur fælist í þessu viðleitni til „að styrkja samfélagið“.

Hann lagði áherslu á nauðsyn þess að auka hagkvæmni í opinberum rekstri. Nefndi hann til dæmis ákvörðun sína um að „innheimtumaður ríkissjóðs“ hætti að senda gluggapóst. Með því myndu 500 milljónir króna sparast á ári í burðargjöldum. Lögð yrði áhersla á rafræn samskipti auk þess sem leyfakerfi yrði breytt og meiri ábyrgð færð frá leyfisveitendum yfir á borgarana sjálfa:

„Ríki sem reynir að sinna verkefnum sem aðrir geta séð um, og gerir það í þokkabót illa, það er bákn. Þegar hið opinbera kæfir framtakssamt fólk í skriffinnsku, lætur það þvælast milli stofnana með eyðublöðin, það er bákn,“ sagði Bjarni. Nefndi hann til marks um vel heppnaða aðgerð af þessu tagi að Jón Gunnarsson hefði sem samgönguráðherra breytt aðferð við skráningu bíla, fært hana til fyrirtækjanna og eytt biðlista hjá Samgöngustofu.

Um sjávarútveg sagði Bjarni: „Verkefnið framundan er að tryggja enn frekar stöðugleika í rekstrarumhverfi íslensk sjávarútvegs þannig að greinin geti verið áfram samkeppnishæf á alþjóðavettvangi. Það er loforð sem kjölfestuflokkur í íslenskum stjórnmálum getur gefið og staðið við.“

Um landbúnað sagði Bjarni: „Frelsi til athafna virkjar einna best þann kraft sem þarf til að nýta þau sóknarfæri sem sérstaða íslensks landbúnaðar býður upp á.  Bændur eiga skilið að fá tækifæri til að nýta þann kraft.“