1.11.2017 9:46

Fjártæknifyrirtæki lækka verð á bönkum

Augljóst er að ekki aðeins bankar lenda í ólgusjó vegna þessarar þróunar heldur þarf allur almenningur að hljóta mikla fræðslu til að átta sig á nýjum tækifærum og betri þjónustu.

Í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál birtist í dag (1. nóvember) merkileg grein eftir Kristin Inga Jónsson um breytingar sem verða hér á næsta ári vegna tveggja EES-reglugerða. Önnur er um greiðsluþjónustu og hin um persónuvernd. Fyrri reglugerðin, sem nefnist PSD2, skyldar banka til þess að veita öðrum fyrirtækjum aðgang að greiðslukerfum sínum. Hin reglugerðin, GDPR, gerir viðskiptavinum kleift að taka á móti eigin fjárhagsupplýsingum og miðla þeim áfram.

Kristinn Ingi segir réttilega að vegna þessara reglugerða og með tilkomu nýrra fjártæknilausna gerbreytist bankastarfsemi á næstu árum. Markaðurinn opnist upp á gátt og fjöldi tæknifyrirtækja reyni að hasla sér þar völl. Bankar þurfi ljóslega að bregðast sem fyrst við breyttu umhverfi. Sitji þeir með hendur í skauti gætu tekjur þeirra af viðskiptabankastarfsemi dregist verulega saman.

Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, segir í greininni að ríkið, sem á Íslandsbanka og Landsbankann að fullu og auk þess 13 prósenta hlut í Arion banka, sé ekki vel til þess fallið að leiða bankana í gegnum þær grundvallarbreytingar sem eru fram undan á bankamarkaði. „Mjög varhugavert“ sé að binda fjármuni skattgreiðenda sem eigin fé í bankarekstri. „Sumir virðast halda að bankaþjónusta sé svo ábatasöm að ríkið eigi endilega að eiga sem flesta banka. Það er einfaldlega rangt.“

Bent er á að til sögunnar komi ný fjártæknifyrirtæki sem nálgist viðskiptavini sína á annan hátt en bankarnir gera. Gervigreind verði nýtt í ríkara mæli en áður og algóriþmar sjái um útfærslu á fjárfestingaráætlunum. Augljóst er að ekki aðeins bankar lenda í ólgusjó vegna þessarar þróunar heldur þarf allur almenningur að hljóta mikla fræðslu til að átta sig á nýjum tækifærum og betri þjónustu.

Mig hefur undrað hve lítið er rætt um þessar breytingar og fagna því úttekt Kristins Inga í Markaðnum. Persónuvernd hefur leitast við að kynna breytingarnar sem felast innleiðingu nýju reglnanna á sínu sviði. Þá hafa orðið til ný fyrirtæki sem laga starfsemi sína að þessum breyttu aðstæðum og verður spennandi að sjá hvernig þau nálgast almenning þegar nýju viðskiptatækifærin opnast.

Ásgeir Jónsson varar við því að ríkið sé við völd í bönkunum á slíkum umbrotatímum. Ríkið muni sem „eigandi bankanna hafa hvata til þess að reyna að vernda þá fyrir samkeppni og koma í veg fyrir að tæknibreytingar verði innleiddar sem koma þeim illa. Það er ekkert efamál að ríkiseignarhald á bönkum mun verða þjóðinni mjög dýrt til lengri tíma.

Það verða ávallt að vera sterk velferðarrök fyrir því af hverju ríkið eigi að taka að sér rekstur fyrirtækja. Ég sé engin slík rök fyrir því að ríkið eigi að eiga bankana, nema að því leyti að erfitt verður að koma þeim í verð og finna kaupendur að þeim,“ segir Ásgeir.

Breytingarnar sem eru í vændum leiða að líkindum til þess að áhugi fjárfesta á að eignast banka minnkar. Verði hér vinstristjórn með ofurtrú á ríkisrekstri er hætta á að hún reyni að verja bankana sína með því að standa í vegi fyrir frjálsræðinu sem felst í innleiðingu nýju reglnanna. Þá lækka bankarnir enn meira í verði og hagur alls almennings þrengist.

Skyldi annars nokkur velta þessu fyrir sér við stjórnarmyndunina? Snýst hún ekki bara um „störukeppni“ og óvild milli núverandi og fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins? Eða vilja „baklands“ vinstri grænna? Hvar var það í framboði?