3.4.2020 10:36

Fjármálaráðherra vill samning við hjúkrunarfræðinga

Þarna fer ekkert á milli mála og má segja að löngu sé tímabært að lausn finnist á launadeilu hjúkrunarfræðinga

Fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson sagði á alþingi fimmtudaginn 2. apríl:

„Varðandi kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga hefur ríkið verið í viðræðum við hjúkrunarfræðinga frá því áður en samningarnir urðu lausir. Samningslotan sem núna stendur yfir hefur skilað verulega miklu, sömuleiðis sérstakt átak sem hefur verið í gangi á undanförnum árum á Landspítalanum. Þar hefur t.d. verið unnið í þremur mismunandi átökum á stofnuninni til að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og gera starfið meira aðlaðandi. Það er að skila sér núna í því að í miðlægum nýjum kjarasamningum er að verða grundvallarbreyting á vaktafyrirkomulagi, ekki bara hjúkrunarfræðinga heldur annarra stétta. Í raun er komið samkomulag um þessa breytingu sem var megináhersluatriði hjúkrunarfræðinga í þessari kjaralotu á þeim tíma sem við erum hér að tala saman. Um þetta er komið samkomulag sem mun leiða til þess að vaktavinnufólk mun þurfa að vinna færri vinnustundir í hverri viku og vaktafyrirkomulagið verður tekið til endurskoðunar.

Við höfum verið með ólík tímabundin átök á Landspítalanum sem Landspítalinn sem stofnun hefur borið ábyrgð á að framkvæma. Það sem er í umræðunni núna er átak sem við getum kallað sérstakt vaktaálag sem er að renna sitt skeið. Það hefur þær óheppilegu afleiðingar í tíma að það kemur út eins og launalækkun en allan tímann var ljóst að um var tímabundið átak var að ræða. Verkefnið núna er að búa þannig um kjarasamningagerðina að allir hjúkrunarfræðingar geti notið góðs af niðurstöðunni og fengið þegar upp er staðið betri kjör.“

Þarna fer ekkert á milli mála og má segja að löngu sé tímabært að lausn finnist á launadeilu hjúkrunarfræðinga. Þegar tveir deila er þó aldrei aðeins við annan aðilann að sakast – báðir verða að vilja lausn og sætta sig við málamiðlun.

1198964Eggert Jóhannesson tók þessa mynd fyrir mbl.is af sýnatöku vegna veirunnar.

Hjúkrunarfræðingar ráða hvernig þeir semja en ekki hverjir taka að sér að gerast málsvarar þeirra á opinberum vettvangi. Verri talsmaður en Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, finnst þó varla. Hún flutti mál sitt á þingi 2. apríl meðal annars með þessum rökum:

„Hæstv. ráðherra hefur haft hvert tækifærið á fætur öðru til að sýna það í verki að hann meti störf kvenna raunverulega til jafns við karla. Hann hefur haft mörg ár til þess sem karl í valdastöðum en þrátt fyrir þau fögru fyrirheit, þrátt fyrir fagurgala um jöfn laun fyrir sambærilega vinnu og þrátt fyrir bleiku kökuskreytinguna er það á vakt hæstv. ráðherra sem ekki nást kjarasamningar við hjúkrunarfræðinga.“

Sem betur fer á marklaus slagorðaflaumur af þessu tagi sífellt minni hljómgrunn á alvörutíma kórónaveirunnar. Glamrið heyrist þó enn á alþingi hjá stjórnmálamönnum sem forðast efnislegar umræður og halda sér þess í stað við persónulegt skítkast.

Víst er: málstaður hjúkrunarfræðinga á betra skilið en það sem Þórhildur Sunna hefur fram að færa.