30.3.2020 9:48

Fjarkennsla - fjarheilbrigðisþjónusta

Hér er starfandi einkafyrirtæki á heilbrigðissviðinu sem líkist Innu á framhaldsskólastiginu. Kara Connect hlaut verðlaun fyrir starfræna þjónustu 2019.

Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Kvennaskólans, lýsti í Morgunblaðinu laugardaginn 28. mars ánægju yfir hve mikill kraftur væri starfi framhaldsskólanna þrátt fyrir samkomubannið og hrósaði kennurum og nemendum fyrir frábæra frammistöðu. Skólameistarinn sagði einnig:

„Ég hrósa Innunni, upplýsinga- og kennsluvef framhaldsskólanna, fyrir nýja möguleika sem fólk er að nýta sér og prófa sig áfram með. Það hefur líka komið í ljós hvað Innan er flott og þróað tæki og hvað bæði kennarar og nemendur eru vel með á nótunum í upplýsingatækninni.“

Inna er miðlægt, vefrænt upplýsinga og kennslukerfi framhaldsskóla á Íslandi. Það var þróað Skýrr í verktöku fyrir menntamálaráðuneytið og tekið í notkun árið 2001. Kerfið er nú rekið af Advania og fullnægir kröfum um persónuvernd og annað öryggi.

Að þróa slíkt kerfi var eðlilegt framhald þess að um aldamótin urðu fartölvur, eða fistölvur eins og þær voru þá nefndar, námsgögn í framhaldsskólunum. Urðu nokkrar umræður af því tilefni eins og til dæmis má sjá hér. Menntamálaráðuneytið hratt á þessum árum af stað kynninu á upplýsingatækni, UT-kynningu, sem enn er við lýði. Á þriðju kynningunni UT2001 var sérstök áhersla lögð á kosti netsins sem upplýsingaveitu fyrir allt skólastarf. Þar yrði námsefni miðlað með markvissum hætti og samskiptum komið á milli nemenda, kennara, skólastjórnenda, foreldra, atvinnurekenda og allra, sem tengjast menntun. Var boðað að hefðbundnir kennsluhættir þróuðust yfir í það sem kalla mætti dreifmenntun.

Dreifskóli yrði stofnun sem krefðist ekki nauðsynlega hefðbundinna bygginga, yrði ekki með fasta stundatöflu og þar væru kennarar og nemendur ekki alltaf samtímis á sama stað. Í þessum skóla yrði nemandinn miðpunktur og sækti nám sitt eftir ýmsum leiðum og úr ólíkum áttum. Í dreifskóla yrði ekki gerður greinarmunur á staðbundinni kennslu og fjarkennslu heldur samtvinnuðust þessir kennsluhættir í dreifkennslu, þar yrði jöfnum höndum notuð hefðbundin kennsla og þekkingu miðlað með notkun netsins.

Þetta var boðað fyrir 19 árum. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar án þess að upplýsingatækni hafi horfið úr framhaldsskólunum. Þekking og reynsla kemur að góðum notum núna megi marka grein Hjalta Jóns Sveinssonar skólameistara.

Allt frá fyrstu tíð hefur þróun netvæðingar í framhaldsskólunum einkennst af samstarfi við einkafyrirtæki. Hlutverk menntamálaráðuneytisins var að skapa ramma um samstarf við þá aðila utan sjálfs mennta- og skólakerfisins sem höfðu sérþekkingu og frumkvæði á sviði upplýsingatækninnar. Þessi hugsun ræður enn og skilar árangri.

Doctors-office-750x400Hér er starfandi einkafyrirtæki á heilbrigðissviðinu sem líkist Innu á framhaldsskólastiginu. Kara Connect hlaut verðlaun fyrir starfræna þjónustu 2019 fyrir aðgengi að hjálp í heilbrigðisgeiranum á UT2020 nú í byrjun febrúar. Í rökstuðningi fyrir verðlaununum sagði:

„Kara er veflausn sem tengir skjólstæðinga og sérfræðinga í mennta-, velferðar- og heilbrigðisgeiranum. Hugbúnaðurinn gerir skjólstæðingum kleift að þiggja og ólíkum sérfræðingum að veita, bestu fáanlegu þjónustu og meðferð sem völ er á, hvar og hvenær sem er í gegnum öruggt fjarfundakerfi. Markmiðið er að bylta aðgengi skjólstæðinga að sérfræðiþjónustu og um leið nútímavæða starfsumhverfi sérfræðinga.“

Nú ætti að nýta þjónustu Köru markvisst til að efla þjónustu á heilbrigðissviðinu. Tengsl við fólk í sóttkví mætti auka, styrkja öryggi heilbrigðisstarfsfólks og auðvelda því að sinna mikilvægum verkefnum á dreifðum starfsstöðvum.