28.9.2020 9:27

Fjarheilbrigðisþjónusta

Hér á landi er ekki nauðsynlegt að finna upp hjólið til að fara inn á þessa nýju braut heldur nýta á skipulegan hátt það sem fyrir er og ýta undir frekari nýsköpun í samvinnu við einkaaðila.

Nýjar leiðir í samskiptum lækna og sjúklinga hafa orðið að umræðuefni víða um heim vegna COVID-19-faraldursins. Þar ber hæst hvernig megi nýta fjarheilbrigðisþjónustu á öflugasta hátt.

Ýmis kerfi hafa verið þróuð í þessu skyni og af innlendum leiðum má nefna það sem Kara Connect býður. Í kynningu á því kerfi segir að það færi sérfræðinga og skjólstæðinga saman á einfaldan og öruggan hátt. Þetta hafi sérfræðingar í heilbrigðis- velferðar- og menntakerfinu nýtt sér í samskiptum við skjólstæðinga sína auk þess sem um stafræna vinnustöð sé að ræða. Þá segir í kynningunni:

„Hugbúnaðurinn sér um bókanir, greiðslur, dulkóðun og geymslu gagna með tilliti til persónuverndar fyrir bæði sérfræðinga og skjólstæðinga. Kara Connect er GDPR vottuð lausn fyrir sérfræðinga sem umbreytir þeirri þjónustu sem þeir geta boðið sínum skjólstæðingum.“

Skammstöfunin GDPR segir að Kara Connect uppfylli allar kröfur sem gerðar eru með vísan til evrópskra reglna um persónuvernd. Þar skilur á milli þessa búnaðar og fjarfundabúnað sem auðvelt er að hala niður á heimatölvur til fjarsamskipta.

16-NEU-567-Rasmussen-650x450Fjarheilbrigðisþjónusta hefur tekið stökk hér á landi vegna faraldursins megi marka það sem Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, segir í Morgunblaðinu í morgun (28. september):

„Eitt af því sem mikilvægast er er að við lærðum að þjóna sjúklingum meira í gegnum síma og fjarheilbrigðisbúnað en áður. Þessi aðferðafræði er byrjuð að smita út frá sér í ýmsa þjónustu á spítalanum. Sem langtímaverkefni munum við skoða og leita allra leiða til að auka símaþjónustu við sjúklinga og aðra fjarheilbrigðisþjónustu eftir því sem tæknin leyfir. Það er mín tilfinning að þetta sé þegar farið að hafa ýmis áhrif á þjónustuna okkar. [...]

Ég tel að þetta sé aðeins upphafið að mun víðtækari þróun í átt að fjarheilbrigðisþjónustu og að við munum sjá samsvarandi breytingar á starfsemistölum, hefðbundnum komum mun fækka en ýmiss konar fjarviðtölum mun fjölga.“

Hér á landi er ekki nauðsynlegt að finna upp hjólið til að fara inn á þessa nýju braut heldur nýta á skipulegan hátt það sem fyrir er og ýta undir frekari nýsköpun í samvinnu við einkaaðila. Samstarf opinberra og einkaaðila á þessu sviði er óhjákvæmilegt og ætti að stuðla að því að losa heilbrigðiskerfið úr ríkisfjötrunum.

Innan heilbrigðiskerfisins hefur verið gert gífurlegt átak á skömmum tíma til að takast á við heimsfaraldurinn. Baráttunni er ekki lokið en nú þegar tekist er á við þriðju bylgjuna er beitt öðrum aðferðum en gegn fyrstu bylgjunni. Það er gert vegna þess að að dreginn er lærdómur af reynslunni.

Samstarfið við Íslenska erfðagreiningu, einkaaðila, hefur skilað ómetanlegum árangri og ætti að leiða til þess að víðar sé stuðlað að sambærilegu samstarfi um annars konar verkefni, þetta á örugglega við um fjarheilbrigðisþjónustu.