Fjargviðrast vegna Gaza-fólks
Fjarstæðukenning af þessu tagi verður aðeins til hjá þeim sem eru andvígir útlendingafrumvarpinu. Hún endurspeglar djúpan klofning innan sex manna þingflokks Samfylkingarinnar.
Furðulegt er að fylgjast með umræðunum um afgreiðslu mála fólks frá Gaza sem útlendingastofnun taldi að ætti rétt til dvalar hér á landi á grundvelli laga um fjölskyldusameiningu. Heiftinni og frekjunni virðast engin takmörk sett, einnig eftir að stjórnvöldum hefur tekist að tryggja stærstum hluta þessa fólks leið út af Gaza og hingað til lands eftir samráð við ísraelsk stjórnvöld. Símtal utanríkisráðherra Íslands og Ísraels gerði gæfu muninn.
Í málinu blasir við að annars vegar hafa stjórnvöld tryggt öryggi 72 einstaklinga, hins vegar náðu þrjár íslenskar konur í fjölskyldu og síðar fóru aðrir sjálfboðaliðar á vettvang og tókst að ná nokkrum fleirum úr heljargreipunum á Gaza.
Stjórnvöld fóru lögmæta, tímafrekari leið, sjálfboðaliðarnir fóru að eigin sögn með fullar hendur fjár.
Sjálfboðaliðarnir skráðu ekki fjársöfnunina til hjálparstarfsins lögum samkvæmt og kann það að kalla á alþjóðlega rannsókn vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga ríkisins um varnir gegn peningaþvætti í þágu hryðjuverkasamtaka.
Á alþingi miðvikudaginn 6. mars gerði Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, ógeðfellda árás á Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra vegna atbeina hans að máli einstaklinganna 72 sem hafa lögbundið leyfi til dvalar hér. Samsæriskenning Oddnýjar er að Bjarni hafi knúið forsætisráðherra til afgreiðslu ríkisstjórnarinnar á frumvarpi til útlendingalaga gegn því að ræða mál svonefndra dvalarleyfishafa við utanríkisráðherra Ísraels.
Fjarstæðukenning af þessu tagi verður aðeins til hjá þeim sem eru andvígir útlendingafrumvarpinu. Hún endurspeglar djúpan klofning innan sex manna þingflokks Samfylkingarinnar þar sem Oddný og Þórunn Sveinbjarnardóttir skipa sér í andstöðu við Kristrúnu Frostadóttur flokksformann og Jóhann Pál Jóhannsson, málsvara Kristrúnar. Oddný vill vinna málstað sínum stuðning með því að líta á frumvarpið sem afrakstur gíslatöku í ráðherranefnd um útlendingamál í ríkisstjórn Íslands! Telur hún framgöngu utanríkisráðherra vegna dvalarleyfishafanna „óboðlega og í raun sérstakt rannsóknarefni“.
Í ræðu um störf þingsins 6. mars gerði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, atlögu að ríkisstjórninni og sjálfstæðismönnum úr annarri átt en Oddný. Hann telur að VG hafi bara alls ekki fallist á útlendingalagafrumvarpið og óvissa sé um örlög þess á þingi. Utan þings hefur Sigmundur Davíð boðað sókn gegn utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra til að fá upplýst til hvaða öryggisráðstafana stjórnvöld hyggist grípa samhliða áformum um að flytja fjölda fólks hingað frá Gasasvæðinu. Segir hann á Facebook 6. mars að sænska leyniþjónustan SÄPO rannsaki þá sem dvalist hafa á Gaza.
Þetta er rétt hjá flokksformanninum. Viðbrögð hans vekja spurningu um hvað hann hafi gert til að tryggja íslenskri lögreglu sambærilegar heimildir og SÄPO hefur til bakgrunnsathugana. Hefur hann nokkru sinni lagt þeim lið sem hvatt hafa til að hér verði slíkar heimildir festar í lög? Það er löðurmannlegt að heimta að eitthvað sé gert en hafna óskum um tækin sem þarf til að vinna verkið.