Fjarfundir og fjarkennsla festast í sessi
Þarna minnir sveitarstjórinn á að það hafi verið fyrst núna vegna faraldursins sem heimild fékkst til að halda fjarfundi sveitarstjórna og nefnda á vegum sveitarfélaga.
Hvarvetna grípa forráðamenn byggðarlaga til aðgerða vegna COVID-19. Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra, sendi okkur þar pistil á netinu þar sem sagði meðal annars:
„Sveitarstjórn Rangárþings eystra ákvað í mars að funda í hverri viku á meðan við glímum við yfirstandandi verkefni. Heimild gafst með breytingu á sveitarstjórnarlögum að fundir sveitarstjórnar og annarra nefnda sveitarfélaga mættu vera haldnir með fjarfundabúnaði. Hefur það reynst virkilega vel og ótrúlegt hversu hratt það gengur að tileinka sér nýja hluti. Þó svo að fjarfundir komi ekki í stað hefðbundinna funda í eigin persónu vona ég svo sannarlega að vægi þeirra muni aukast innan stjórnsýslunnar í framtíðinni. Mikill tími sem sparast í ferðalögum og á allan hátt hefur stjórnsýslan möguleika á því að verða hrað- og skilvirkari. [...]
Skólahald í Hvolsskóla hefur gengið vel og stór hluti nemenda verið í fjarkennslu. Það er krefjandi fyrir alla, kennara, nemendur, já og líka foreldra. En allir læra nýja hluti sem án efa hægt er að nýta til góðs inn í framtíðina. Stjórnendur fóru strax þá leið að undirbúa og leggja drög að fjarkennslu um leið og ljóst var í hvað gæti stefnt. Því vorum við mjög vel undirbúin þegar þurfti að grípa til þeirra lausna.“
Þarna minnir sveitarstjórinn á að það hafi
verið fyrst núna vegna faraldursins sem heimild fékkst til að halda fjarfundi
sveitarstjórna og nefnda á vegum sveitarfélaga. Þetta minnir á hve víða þarf að
taka til hendi í stjórnsýslunni til að nýta þessa tækni við úrlausn mála.
Um leið og opnaðar eru fleiri og nýjar stafrænar fjarleiðir innan stjórnsýslunnar og annars staðar er óhjákvæmilegt að leggja áherslu á öryggi og varnir. Þar eru einkarekin fyrirtæki í fararbroddi og verða opinberir aðilar að stofna til samstarfs við þau um öryggislausnir. Þetta á til dæmis við um fjarheilbrigðisþjónustu. Innan opinberra kerfisins eru margir smákóngar á þessu sviði. Þeir eiga ekki að ráða ferðinni heldur á að líta til heildarhagsmuna.
Athyglisvert er að sjá hvað Anton Kári segir um viðbrögðin í Hvolsskóla og hve markvisst var unnið að upptöku fjarkennslu þar. Þetta hefur verið gert víðar og festir vonandi þessa aðferð við miðlun þekkingar enn betur í sessi.
Tæknilega hefur verið dregið úr allri mismunun með lagningu ljósleiðara um land allt. Nú ætti að gera stórátak til að nýta þetta ótrúlega öfluga tæki til að útrýma mismunun á öðrum sviðum og bjóða öllum aðgang að því sem best er talið á sviði menntunar.
Á Facebook í gær (5. apríl) fagnaði vinur að allt skólakerfið væri „loksins búið að taka sig á og gera löngu tímabærar breytingar í þá átt að fólk geti stundað nám í fjarnámi almennilega“. Hann sagði að Rafiðnaðarskólinn hefði nú tekið skrefið til fulls og byði nú upp á öll námskeið í fjarnámi.
Að það sé fyrst núna að sjálfur Rafiðnaðarskólinn stígur þetta skref sýnir að bylmingshögg eru stundum nauðsynleg.
Á ruv.is birtust sunnudaginn 5. apríl þessi orð Inga Ólafssonar, skólastjóra Verzlunarskóla Íslands:
„Við erum að búa okkur undir það að klára kennsluna rafrænt eða í fjarnámi eins og við höfum gert hingað til. Prófin sem áttu að vera í maí verða samkvæmt próftöflu. Sum verða rafræn heimapróf en í einhverjum tilvikum eru kennarar búnir að breyta námsmati og verða með próflausan áfanga.“