Fjarar undan Boris
Boris Johnson var kjörinn leiðtogi Íhaldsflokksins
árið 2019. Nú fjarar hratt undan honum vegna vandræðagangs og fylgistaps.
Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, á ekki náðuga daga um þessar mundir. Nýjustu vandræði hans eru að David Frost lávarður (56 ára) sagði sig laugardaginn 18. desember úr ríkisstjórn hans. Lord Frost samdi um úrsögn Breta úr ESB lýsti áhyggjum yfir hvert ríkisstjórn Johnsons stefndi í baráttunni gegn farsóttinni og með skattahækkunum.
Þriðjudaginn 14. desember gerðu 98 þingmenn Íhaldsflokksins uppreisn gegn Johnson í atkvæðagreiðslu um hertar sóttvarnaaðgerðir sem þingið samþykkti með stuðningi stjórnarandstöðunnar. Fimmtudaginn 16. desember voru aukakosningar í North Shropshire-kjördæmi þar sem Íhaldsflokkurinn hefur fengið flest atkvæði í næstum heila öld. Nú sigraði frambjóðandi frjálslyndra og fékk um 6.000 atkvæða meirihluta, alls tapaði Íhaldsflokkurinn 23.000 atkvæðum.
Fylgistap íhaldsmanna er ekki síst rakið til stöðugra frétta undanfarið um að fyrir jólin 2020 hafi reglur um sóttvarnir verið brotnar í Downing-stræti 10, aðsetri forsætisráðherrans og starfsmanna hans, og síðan reynt að hylma yfir atvikið. Sá Johnson sig knúinn til þess fyrr í mánuðinum að biðja þjóð og þing afsökunar á öllu klúðrinu í tengslum við jólasamkvæmið, það er nú til sérstakrar rannsóknar.
Boris Johnson, forsætisráðherra Breta.
Á bloggsíðunni ConservativeHome, vettvangi grasrótar Íhaldsflokksins, var Lord Frost nýlega valinn annar vinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar.
Undanfarið hefur David Frost leitað lausnar á deilu við ESB sem snýr að stöðu Norður-Írlands og umboði ESB-dómstólsins eftir ESB-úrsögnina. Brottför hans úr stjórninni flækir enn það gífurlega erfiða mál.
Í afsagnarbréfi sínu skipar Lord Frost sé hægra megin við Johnson og hlýtur fyrir það lof í leiðara The Telegraph sem segir afsögn hans sýna „hugrekki“ og hún marki „vatnaskil í sögu þessarar stjórnar“. Í The Sunday Times, sem einnig styður Íhaldsflokkinn, segir í forsíðu-fyrirsögn: Crisis deepens for PM að krísa forsætisráðherrans versni.
Boris Johnson var kjörinn leiðtogi Íhaldsflokksins árið 2019 og í þingkosningum sama ár sigraði flokkurinn glæsilega. Sannaðist þar að Johnson hefur hæfileika til að ná til breiðari hóps kjósenda en margir forverar hans. Mörg gömul vígi Verkamannaflokksins á Norður-Englandi féllu. Johnson höfðaði einnig til breiðs hóps þegar hann sigraði tvisvar í borgarstjórnarkosningum í London.
Johnson hefur á hinn bóginn brugðist bogalistin undanfarið og fjarar nú hratt undan honum. Það er í höndum þingmanna Íhaldsflokksins að setja af stað ferli sem kann að leiða til þess að látið verði reyna á hvort Boris Johnson nýtur nægilegs trausts sem flokksleiðtogi.
Á sínum tíma trúði Margaret Thatcher ekki að þingmenn myndu snúast gegn sér. Þá gagnrýndi Sir Geoffrey Howe, varaforsætisráðherra hennar, hana í afsagnar-þingræðu (13. nóvember 1990). Ræðan er af mörgum talin þúfan sem velti hlassinu. Fetar Lord Frost í þau fótspor?