Firring vegna varnarmála
Það er leitun að lýðræðisríki sem telur farsæld felast í stríðsátökum og „hernaðarbrölti“. Öll ríki sem við eigum samleið með innan ríkjabandalaga telja á hinn bóginn nauðsynlegt um þessar mundir að stórefla hervarnir sínar.
Bjarni Már Magnússon, prófessor og deildarforseti lagadeildar háskólans, birti grein í Morgunblaðinu miðvikudaginn 26. febrúar undir fyrirsögninni Sterkur íslenskur her.
Hann segir að við núverandi stöðu heimsmála verði „Ísland að axla meiri ábyrgð á eigin vörnum en áður og tryggja að landið sé í stakk búið til að takast á við hugsanlegar ógnir og árásir í samstarfi við önnur lýðræðisríki“. Eitt mikilvægasta skrefið í þá átt sé að stofna íslenskan her. Hlutverk sérhæfðs, hátæknivædds íslensks varnarhers yrði fyrst og fremst að „sinna eftirliti, gæslu íslenskra hafsvæða og viðbrögðum við ógnum á Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum“. Þá yrði þetta til að sýna að við séum verðugur bandamaður innan NATO.
Áður en þetta skref yrði stigið er nauðsynlegt að endurskilgreina hlutverk landhelgisgæslunnar og lögreglunnar fyrir landvarnir Íslands og á ófriðartímum. Verði það niðurstaða slíks endurmats í samvinnu við nágrannaþjóðir að óhjákvæmilegt sé að stíga skrefið frá borgaralegu hlutverki til hernaðarlegs ber að færa rök fyrir því og komast að ábyrgri, rökstuddri niðurstöðu.
Þrátt fyrir ýmsar tilraunir og tillögur hefur hvorki tekist að fá alþingi né ríkisstjórn til að stuðla að því að til verði fræðilegt rannsóknarsetur um þessi mikilvægu mál. Hvort það stafar af áhuga- og þekkingarleysi stjórnmálamanna, hræðslutregðu innan stjórnkerfisins eða vantrú á akademíunni skal ósagt látið.
Akademían er þannig stödd að deildarforseti á Bifröst má ekki hreyfa skoðun sinni á nauðsyn hervarna án þess að annar deildarstjóri við sama skóla, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, sem stýrir félagsvísindadeildinni, rísi upp og andmæli honum sama dag á Vísi.
Hún segir að til þessa hafi verið samstaða hér um það sjónarmið að stríðsátök og hernaðarbrölt sé ekki farsæl leið fyrir litla og vanmegnuga þjóð í ófriðvænlegum heimi. Það sé vænlegra til árangurs að standa með „bræðraþjóðum um varnir og öryggi innan ríkjabandalaga eftir diplómatískum leiðum“.
Það er leitun að lýðræðisríki sem telur farsæld felast í stríðsátökum og „hernaðarbrölti“. Öll ríki sem við eigum samleið með innan ríkjabandalaga telja á hinn bóginn nauðsynlegt um þessar mundir að stórefla hervarnir sínar til að tryggja öryggi borgara sinna og styrkja stöðu sína til að ná árangri eftir diplómatískum leiðum.
Skoðun Ólínar á leið til að tryggja frið er mun fjær veruleikanum en nauðsyn þess að hér sé tekið til hendi í því skyni að efla eftirlit á höfunum og auka hlut íslenskra yfirvalda í öryggisgæslu þjóðarinnar. Þá lætur hún eins og öryggi Íslands sé ekki reist á herstyrk. Sú firring styðst ekki við fræðileg rök.
Þegar Bjarni Már benti á þá augljósu staðreynd að nýsköpun á mikilvægum sviðum megi rekja til hergagnaiðnar sagði herstöðvaandstæðingur í úthýsta VG-flokknum, Stefán Pálsson, að eins mætti ræða framleiðslu á amfetamíni í bílskúr. Þegar þeir eru kallaðir til viðræðna um þessi mál sem eru og vilja vera fastir í gömlum hjólförum er samtalið vísvitandi gert gagnslaust.