26.10.2021 10:04

Finnar og Svíar treysta NATO-tengslin

Nágrannarnir í Rússlandi sýna æ meiri vanþóknun á því sem þeir telja átroðning af hálfu NATO innan rússnesks áhrifasvæðis.

Þáttaskil urðu í samskiptum Finna við NATO mánudaginn 25. október þegar Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, kom þangað í heimsókn með Norður-Atlantshafsráðinu, það er fastafulltrúum aðildarlanda bandalagsins.. Ráðið hafði aldrei fyrr komið í opinbera heimsókn til Finnlands.

Sauli Niinistö Finnlandsforseti hitti Stoltenberg á fundi og síðan efndu þeir til sameiginlegs blaðamannafundar. Þar sagði NATO-framkvæmdastjórinn að aðildardyr bandalagsins stæðu Finnum opnar.

Stoltenberg_jens-niinistoe_sauli-presserJens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, og Sauli Niinistö Finnlandsforseti á blaðamannafundi í forsetahöllinni í Helsinki mánudaginn 25. október 2021.

Skoðanakönnun sem birt var þennan sama mánudag sýnir að 40% Finna vilja áfram standa utan NATO en stuðningur við aðild eykst úr 22% fyrir einu ári í 26% núna. Könnunin sýnir jafnframt að gagnrýni Finna í garð Rússa eykst og 60% þeirra segja að Rússar ógni Finnum hernaðarlega.

Niinistö útilokar ekki að Finnar kunni að ganga í NATO. Samskiptin við NATO séu í stöðugri þróun og svo verði áfram. Það sé mikill samhljómur milli Finna og NATO um hvernig tryggja megi það mikilvægasta fyrir líf almennra borgara, friðinn.

Nágrannarnir í Rússlandi sýna æ meiri vanþóknun á því sem þeir telja átroðning af hálfu NATO innan rússnesks áhrifasvæðis.

Stoltenberg lýsir samskiptum NATO og Rússa um þessar mundir á þann veg að þau hafi ekki verið verri síðan kalda stríðinu lauk.

Fyrr í þessum mánuði úthýsti NATO átta starfsmönnum í sendiskrifstofu Rússa gagnvart bandalaginu, þeir væru njósnarar. Rússar svöruðu og sögðust ætla að loka NATO-sendiskrifstofu sinni og rifta samningi um skipti á stjórnarerindrekum við NATO.

Sauli Niinistö forseti fer til Moskvu föstudaginn 29. október og ræðir við Vladimir Pútin.

Jens Stoltenberg og fastaráð NATO fara á hinn bóginn til Stokkhólms í dag, 26. október, til viðræðna við sænsk stjórnvöld. Vekur athygli að Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, kýs að dveljast í Stokkhólmi og taka þátt í fundum með NATO-mönnum í stað þess að halda til Tromsø og sitja þar fund í Barentsráðinu með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og utanríkisráðherrum Noregs og Finnlands.

Allt er þetta til marks um hve náin tengsl hafa skapast milli NATO og Finna og Svía, þjóðanna sem áður voru hlutlausar og völdu jafnan einstigi á milli deiluaðila austurs og vesturs í kalda stríðinu. Nú eru allar tilraunir í þá veru úr sögunni og hollustan við vestræn gildi og varnir þeirra er fyrirvaralaus þótt ekki hafi komið til NATO-aðildar.

Þetta er gleðiefni fyrir stjórnvöld Danmerkur, Íslands og Noregs, norrænu NATO-ríkjanna, sem starfa að sameiginlegum norrænum vörnum innan NORDEFCO, norræna varnarsamstarfsins. Þeir hér á landi sem leggja stein í götu NATO eða viðbúnaðar og framkvæmda á vegum bandalagsins vega jafnan að norrænu samstarfi sem miðar að því að tryggja þjóðunum frelsi til að lifa í friði.