6.3.2022 11:22

Finnar og Svíar nálgast enn NATO

Hér fer í raun ekkert á milli mála. Ríkisstjórnir Finnlands og Svíþjóðar eru á lokastigi ákvarðana um aðild að NATO.

Finnar eru Norðurlandaþjóðin sem á lengstu landamærin með Rússum og hefur hrakið þá af höndum sér eftir innrás. Finnland var raunar hluti rússneska keisaradæmisins til 1917 og Pútin beinir því athygli að þeim þegar hann talar eins og sá sem ætlar að endurreisa keisaradæmið – innrásin í Úkraínu sé bara upphafið.

Finnar og Svíar eiga nú fast sæti á öllum fundum NATO-ríkjanna þar sem rætt er um stríðið í Úkraínu og viðbrögð við því.

Forsætisráðherrar Finnslands og Svíþjóðar, Sanna Marin og Magdalena Andersson, hittust í Helsinki laugardaginn 5. mars ásamt varnarmálaráðherrum og herfræðilegum ráðunautum til að ræða nánara hernaðarlegt samstarf.

Daginn áður, föstudaginn 3. mars, hringdu Sauli Niinistö, forseti Finnlands, og Joe Biden Bandaríkjaforseti af fundi sínum í Hvíta húsinu í Magdalenu Andersson og ræddu við hana um nánara samstarf þjóðanna.

C3c174f81df178235a2a137b8a5c671cMagdalena Andersson og Sanna Marin í Helsinki 5. mars 2022.

Þegar forsætisráðherrarnir ræddu við blaðamenn í Helsinki sögðu þeir að afstaða til NATO-aðildar breyttist nú í báðum löndunum. Þegar þær voru spurðar hvort ríkisstjórnir þeirra óskuðu eftir stöðu sem Major Non-Nato Ally (MNNA) gagnvart Bandaríkjunum varð lítið um svör. MNNA, meiriháttar bandamaður utan NATO, er skilgreining að bandarískum lögum sem veitir samstarfsþjóðum Bandaríkjamanna viss forréttindi þegar um er að ræða vopnakaup og samvinnu í öryggismálum. Bandaríkjastjórn hefur gert MNNA-samninga við 17 ríki.

Þegar Magdalena Andersson var spurð hvort efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu í Svíþjóð um NATO-aðild svaraði hún: „Þjóðaratkvæðagreiðslur eru ekki endilega besta leiðin til að leysa öll mál.“·

Hér fer í raun ekkert á milli mála. Ríkisstjórnir Finnlands og Svíþjóðar eru á lokastigi ákvarðana um aðild að NATO – ríkin mörkuðu stefnu um náið samstarf við NATO og Bandaríkin eftir fyrri innrás Pútins í Úkraínu árið 2014. Hvort þau taka enn eitt milliskref með MNNA-samningi við Bandaríkin kemur í ljós. Hitt er víst: Stjórnendur landanna vilja ekki standa á berangri andspænis Rússum undir stjórn Pútins.

Á brautarstöðinni í Helsinki hefur landflótta Rússum fjölgað mjög. Segist fólkið vilja koma sér tafarlaust úr landi af ótta við að Pútin setji herlög í landinu sem hefðu í för með sér lokun landamæra og hertar lögregluaðgerðir til að kæfa allar andófsraddir gegn stríðsaðgerðunum.

Allar lestir á frá St. Pétursborg til Helsinki eru fullbókaðar næstu daga en næstum enginn nýtir sér ferðina frá Helsinki til St. Pétursborgar. Aðeins Rússar og Finnar mega kaupa lestarmiða.

Þá eru allar rútur frá St. Pétursborg til Helsinki, Tallinn í Eistlandi og Riga í Lettlandi fullsetnar. Vegna þess að flugfélög hafa hætt ferðum til Rússlands, nema til Tyrkklands, verða Rússar að treysta á landleiðir til að komast á brott undan Pútin. Ferðaskrifstofur telja að um 27.000 rússneskir viðskiptavinir þeirra séu strandaglópar utan Rússlands. Hvort og hvernig þeir komast heim er óljóst.

Stríðsrekstur Pútins er honum erfiður en hann herðir þá á grimmdarverkunum í Úkraínu!