4.4.2023 10:06

Finnar í NATO eftir 74 ár

Nú þegar fagnað er aðild Finnlands að NATO og til verður ný norræn herstjórn innan NATO þarf að liggja ljóst fyrir hvað Ísland ætlar að leggja þar af mörkum.

Í dag, 4. apríl, eru 74 ár frá því að ritað var undir Norður-Atlantshafssáttmálann, stofnskrá Norður-Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Washington. Íslendingar voru í hópi 12 stofnþjóða bandalagsins.

Í maí 1948 lagði Östen Undén, utanríkisráðherra Svía, til að stofnað yrði norrænt varnarbandalag. Úr því varð ekki en Danir, Íslendingar og Norðmenn tóku þátt í að stofna NATO vorið 1949, Svíar völdu hlutleysi og stefnu utan hernaðarbandalaga ásamt Finnum sem gerðu vináttusamning við Sovétríkin.

Kyiv-ukraine-may-flags-finland-nato-editorial-246527650

Nú í dag verður Finnland 31. aðildarríki NATO og aðild Svíþjóðar er á næsta leiti. Það er með öðrum orðum að verða gjörbreyting á norrænum öryggismálum og staða NATO í norðri styrkist til mikilla muna.

Þetta er meðal þess sem ég ræði við blaðamenn Morgunblaðsins, Gísla Frey Valdórsson og Stefán Einar Stefánsson, í sjónvarpssamtali blaðsins Dagmálum í dag. Þar förum við yfir stöðuna í öryggismálum á líðandi stund og áhrif risavaxinna breytinganna hér á Norður-Atlantshafi og veltum fyrir okkur hver ættu að vera viðbrögð íslenskra stjórnvalda.

Þau brugðust skjótt við þegar tækifæri gafst til NATO-aðildar og lýðræðisflokkarnir svonefndu, Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur,sameinuðust um aðildina gegn kommúnistum og sovétvinum í Sósíalistaflokknum sem efndu til aðfarar að Alþingishúsinu 30. mars 1949.

Þegar fyrir lá að Ísland yrði ekki varið nema með varnarliði í landinu sjálfu varð meiri pólitísk samstaða hér um varnarsamninginn við Bandaríkin í maí 1951 en NATO-aðildina tveimur árum áður.

Síðan hafa þessar ákvarðanir verið grunnur stefnu Íslendinga í öryggismálum og urðu hluti þjóðaröryggisstefnunnar sem samþykkt var 13. apríl 2016.

Fyrir 30 árum, eftir að Sovétríkin hurfu, setti þáverandi ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks á fót nefnd sem lagði mat á hver væru áhrif endaloka kalda stríðsins á stefnu Íslands í öryggismálum. Niðurstaðan var að það fælust varanlegir hagsmunir í aðildinni að NATO og varnarsamningnum.

Ekkert sambærilegt mat liggur fyrir núna um áhrif breytinganna sem orðið hafa vegna innrásar Rússa í Úkraínu á stöðu Íslands.

Fyrir liggur uppfærð þjóðaröryggisstefna þar sem skautað er fram hjá þessum mikilvæga þætti þótt vikið sé að honum í matsskýrslu sem uppfærslunni fylgir ­– en án ábendinga um áhrif breytinganna.

Nú þegar fagnað er aðild Finnlands að NATO og til verður ný norræn herstjórn innan NATO þarf að liggja ljóst fyrir hvað Ísland ætlar að leggja þar af mörkum. Hvernig verður tengslum Íslands við hana háttað? Hvernig sameinar Ísland herstjórnir NATO fyrir Norður-Atlantshaf og Skandinavíuskaga? Hverju breytir það að nú verða liðs- og birgðaflutningaleiðir fyrir norðan Ísland mikilvægari en áður? Hver er afstaða Íslands til þróunar öryggismála innan danska konungdæmisins? Hvað með háspennusvæðið sem myndast á norðurslóðum vegna aukinna ítaka Kínverja í Rússlandi?

Svör við spurningum af þessu tagi þurfa að liggja fyrir og ber að kynna í umræðum um öryggi Íslands.