20.3.2025 11:11

Finnar hamingjusamastir – Ísland í þriðja sæti

Þessi lýsing gæti verið af stöðu mála hér. Neikvæð umræða og nöldur festir ekki djúpar rætur þótt hún sé hluti okkar daglega umhverfis sé hlustað á fréttir eða rýnt í athugasemdir á netinu.

Frá 2012 hefur Wellbeing Research Centre, Miðstöð lífshamingjurannsókna við Oxford-háskóla í Bretlandi, í samvinnu við Gallup og UN Sustainable Development Solutions Network, Þróunarnet sjálfbærra lausna hjá Sameinuðu þjóðunum, gefið út World Happiness Report, Skýrslu um hamingju í heiminum.

Skýrslan í ár er birt í dag, 20. mars, á vorjafndægri.

Í skýrslunni 2025 segir að Finnland sé hamingjusamasta land í heimi áttunda árið í röð, Danmörk skipar annað sætið, Ísland þriðja, Svíþjóð fjórða og Holland fimmta. Síðan koma Kosta Ríka, Noregur, Ísrael, Lúxemborg og Mexíkó í tíunda sæti. Kosta Ríka og Mexíkó hafa aldrei fyrr komist í hóp tíu efstu ríkjanna. Bandaríkin hafa aldrei lent neðar á listanum, þau eru nú í 24. sæti. Neðst er Afganistan, eins og í fyrra, Sierra Leone næstlægst og þar fyrir ofan er Líbanon.

Rewire-brain-for-joy-GettyImages-1473951447-94f61eb940fb4adf8c2c140d64f158d1

Svör við einni spurningu ráða röðuninni á listann. Hún er:

„Vinsamlega ímyndaðu þér stiga með þrepum sem merkt eru með 0 neðst og efst með 10. Efsta þrep listans sýnir hvernig þér getur hugsanlega liðið best í lífinu en neðsta þrepið hvernig þér getur hugsanlega liðið verst í lífinu. Á hvaða þrepi stigans finnst þér þú persónulega standa um þessar mundir?“

Í frétt finnska ríkisútvarpsins Yle í tilefni af skýrslunni segir að í Finnlandi klóri ýmsir sér í höfðinu yfir röðinni á listanum. Er Juho Saari, félagsfræðingur frá Tampere-háskóla, spurður hvers vegna sumu fólki finnist hamingja svona fjarlæg hugmynd þrátt fyrir þessa stöðu Finnlands.

Hann segir að fréttir einkennist almennt af því sem sé óskemmtilegt og þar skorti yfirleitt heildarsýn á málin. Þar sé ekki oft bent á lítil framfaraskref og góða hluti sem gerist dag hvern. Engin hefð sé fyrir því að fjölmiðlar segi góðar fréttir. Fólk alhæfi oft út frá neikvæðri reynslu í eigin lífi eða þeirra sem standi því næst og telji sömu reynslu móta samfélagið almennt.

Líf fólks ráðist hvorki af tölfræði né alþjóðlegum samanburðarlistum. Þá sé algengara að neikvæður orðrómur eða kjaftasögur dreifist víðar og hraðar en frásagnir af því sem gangi vel.

Þá geti ein frétt gjörbreytt afstöðu fólks. Staðbundin heilsugæslustöð kunni að hafa gengið mjög vel þar til stjórnmálamaður á heimavelli bendi á einhvern veikleika. Við það fái stöðin almennt vont orð á sig.

Saari segir vísbendingar um minnkandi lífsgæði í Finnlandi. Það megi m.a. rekja til orkukreppu, hærra verðlags og langvarandi áhrifa heimsfaraldursins. Þá sætti margir sig illa við niðurskurð ríkisstjórnarinnar á ríkisútgjöldum.

Hvað sem þessu líði bendir Saari á að Finnar kunni að meta það sem gangi vel. Samfélagið sé sæmilega öruggt, fólk treysti almennt hvert öðru og stofnunum landsins. Bankar, orku- og vatnsveitur, lífeyris- og örorkukerfi veiti almennt góða þjónustu. Hvað sem líði kvörtunum sýni tölfræði að meira en 90% þeirra sem þarfnist bráðaþjónustu fái hana innan eðlilegra tímamarka.

Þessi lýsing gæti verið af stöðu mála hér. Neikvæð umræða og nöldur festir ekki djúpar rætur þótt hún sé hluti okkar daglega umhverfis sé hlustað á fréttir eða rýnt í athugasemdir á netinu. Þjóðin er hamingjusöm hvað sem daglegu þrasi líður.