Ferðamennska dafnar hér og á Spáni
Tölur sýna mikinn vöxt í ferðaþjónustu hér á landi og er forvitnilegt að líta á hann í samanburði við það ferðamannaland sem er annað vinsælasta í heimi og kallar marga Íslendinga til sín allan ársins hring: Spán
Ferðamálastofa birti föstudaginn 12. janúar tölur sem sýna að brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru 2.195.271 árið 2017 eða 427.545 fleiri en árið 2016 samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Aukning milli ára nemur 24,2%. Nærri helming fjölgunar má rekja til Norður-Ameríkana, þeir voru alls 680 þúsund árið 2017, það 181 þúsundi fleiri en árið 2016, fjölgaði um 36,3%
Af einstaka þjóðernum voru langflestar brottfarir tilkomnar vegna Bandaríkjamanna og Breta eða um 41% af heildarbrottförum. Þar á eftir fylgdu brottfarir Þjóðverja (7,1%), Kanadamanna (4,7%) og Frakka (4,6%).
Aukning var í brottförum erlendra farþega milli ára 2016 til 2017 á öllum árstíðum. Aukningin var hlutfallslega mest að vori eða 36,7% og yfir vetrarmánuðina eða 32,9% en að sumri til var aukningin 17,1% og að hausti 15,5%.
Þessar tölur sýna mikinn vöxt í ferðaþjónustu hér á landi og er forvitnilegt að líta á hann í samanburði við það ferðamannaland sem er annað vinsælasta í heimi og kallar marga Íslendinga til sín allan ársins hring: Spán.
Spánverjar eru ánægðir með 4,4% vöxt í ferðaþjónustu sinni á árinu 2017. Þeir segja að greinin hafi að nýju náð sögulegum hæðum bæði þegar litið sé til erlendra gesta og þess fjár sem þeir leggja af mörkum til spænska þjóðarbúsins. Spáin fyrir árið 2018 er að aukningin verði 3,3%, hún gæti þó orðið 2,8% ef sjálfstæðisdeilurnar vegna Katalóníu setja meira strik í reikninginn.
Erlendir ferðamenn vou 82 milljónir á Spáni árið 2017, 8.9% fleiri en 2016 og hver gestur eyddi að meðaltali 1,5% meira í fyrra en 2016.
Ferðaþjónustan leggur 11,5% til vergar landsframleiðslu á Spáni, 134 milljarða evra. Vegna aukinna umsvifa urðu til 77.501 nýtt starf í greininni á árinu 2017.
Spánverjar líta á Tyrki sem helstu keppinauta sína um ferðamenn. Árásir á ferðamannastaði í Tyrklandi undanfarin ár hafa veikt samkeppnisstöðu Tyrkja sem þó eru að ná sér á strik aftur.
Í spænska blaðinu El País segir að með 82 milljónum ferðamanna nái Spánn öðru sæti á lista yfir vinsælustu ferðamannaríki heims. Frakkland er í fyrsta sæti nú sem fyrr en Spánn nær öðru sætinu af Bandaríkjunum.
Undir árslok var því spáð að ferðamönnum til Bandaríkjanna fækkaði um allt að 4% á árinu 2017. Sumir vilja kenna Donald Trump forseta um minni áhuga manna á að ferðast til Bandaríkjanna, aðrir segja að gengi dollarsins ráði þarna miklu.
Í The New York Times birtist fyrir skömmu listi yfir 50 ferðamannastaði sem menn ættu að hafa í huga við ákvarðanir á árinu 2018. Ísland er á þessum lista og sérstaklega vakin athygli á að þar mætti skipuleggja dýrar hágæðaferðir í einstakri náttúru.