Ferðamenn forðast hitann
Af orðum þeirra sem stunda ferðaþjónustu hér á landi má ráða að ferðamenn sem forðast hitann í Evrópu forðist einnig Ísland en leiti hins vegar í vaxandi mæli til annarra norðlægra landa.
Í fréttum danska ríkissjónvarpsins (DR2) þriðjudaginn 18. júní var sagt frá því að þeir sem reka ferðaþjónustu á Norður-Sjálandi telji framtíðina bjarta vegna ofurhitans sem herjar á Suður-Evrópu. Ferðamenn kunni að meta að geta leitað sér hvíldar og ævintýra á svalari slóðum.
Samhliða þessu voru birtar fréttir um dauðsföll í Grikklandi en mánudaginn 17. júní tilkynnti lögregla þar að fimmti ferðamaðurinn hefði fundist látinn vegna ofurhitans. Þá hefur mörgum vinsælustu ferðamannastöðum Grikklands verið lokað vegna hitans, þar á meðal Akrópólis.
Ítalska veðurstofan birti 17. júní spá um að hiti yrði nokkrum gráðum fyrir ofan meðaltal í sumar og þá mætti búast við hitabylgjum auk meiri hættu á þurrkum. Veðurfræðingur sagði að hitinn í júlí og ágúst kynni að verða „óvenjumikill“ við allt Miðjarðarhaf.
Búist er við að í lok vikunnar verði hiti 39 til 40 gráður í Róm, Flórens og Napolí og jafnvel enn hærri á Sikiley og Sardiníu.
Veðurspámenn segja að hitabylgjur frá Norður-Afríku flæði nú norður yfir Miðjarðarhaf til Evrópu í stað áhrifa sem löngum hefur gætt frá svalari hæð yfir Azoreyjum.
Í fyrra komst hitinn í 43 stig í Róm og allt að 48 stig á Sikiley og Sardiníu. Norðar á Ítalíu er spáð meira roki og rigningu þegar hitabylgjan úr suðri og kaldari straumar úr norðri og frá Atlantshafi mætast.
Af orðum þeirra sem stunda ferðaþjónustu hér á landi má ráða að ferðamenn sem forðast hitann í Evrópu forðist einnig Ísland en leiti hins vegar í vaxandi mæli til annarra norðlægra landa.
Tvær meginástæður fyrir þessu eru oftast nefndar, eldgosið á Reykjanesi og skortur á landkynningu fyrir skattfé almennings. Þeirri skoðun er nú hampað af þeim sem stunda ferðaþjónustu að ríkið verði að hefja markvissa landkynningu því annars verði fjármálaáætlun ríkisins sem hefur verið kynnt fyrir næstu ár ekki pappírsins virði.
Þriðja ástæðan til skýringar á minni áhuga á Íslandsferðum er einnig nefnd: of hátt verðlag miðað við þjónustu. Þessi ástæða nýtur hljómgrunns meðal heimamanna sem mörgum blöskrar verðlagið. Þá er bent á að verðlag sé hér sambærilegt við það sem finna megi á öðrum norðlægum slóðum, til dæmis í Rovaniemi í Finnlandi. Þar er jólasveinninn helsta aðdráttaraflið. Jafnframt er auglýst að það geti verið svalt á sumrin.
Fréttir af komu, dvalarlengd, útgjöldum og ferðavenjum útlendinga sem hingað koma undir merkjum ferðaþjónustu minna dálítið á afla- og skipafréttir fyrri tíma sem þóttu eðlilegar við fábreyttari atvinnuhætti. Skammt undan er ávallt ákall um samfélagslegt öryggisnet fari eitthvað úrskeiðis en jafnframt viðvörun um að af opinberri hálfu skuli ekki reistur neinn þröskuldur gegn útþenslu.
Kvótakerfið gjörbreytti útgerðarrekstri til hins betra og nú er býsnast yfir velgengni þar. Það voru þeir sem best þekktu til vanda útgerða sem sneru vörn í sókn fyrir fjórum áratugum í þeirri grein. Skortir sambærilega reynslu og framsýni í ferðaþjónustunni?