26.5.2024 10:36

Ferðamenn á Spáni og hér

 Í nútímaheimi þar sem menn hafa við fingurgómana tól og hugbúnað til að leiðbeina sér um hvert hagkvæmast er að ferðast sér til tilbreytingar og skemmtunar er líklegt að verðlag ráði mestu.

Hér er vandinn vegna ferðamanna ekki á sama stigi og á Spáni þar sem efnt er til fjöldamótmæla á götum úti gegn áhrifunum af ferðamannafjöldanum. Í borginni Palma de Mallorca gengu menn undir borðum í gær með áletruninni: Mallorca er ekki til sölu! Ferðaþjónusta er helsta tekjulind eyjaskeggja.

Fyrir utan að minna á að Mallorca sé ekki til sölu sögðu mótmælendur einnig á spjöldum sínum: Án þaks yfir höfuðið er engin framtíð! Gjörnýting húsnæðis í þágu ferðamanna hefur hleypt leiguverði í hæstu hæðir. Ferðaþjónusta skapar almennt ekki hálaunastörf og með hækkun á húsnæðiskostnaði skapast vítahringur fyrir þá sem sinna láglaunastörfunum.

Innan við ein milljón manna hefur fasta búsetu á Mallorca en 31 milljón farþega fór um aðalflugvöll eyjarinnar, sem er stærst (3.640 ferkm) í eyjaklasa, Baleareyjum, sem nær einnig til Ibiza, Menorca og Formentera auk enn minni eyja. Hér er Norðurþing 3732 ferkm, svo dæmi sé tekið.

Hagstofa Spánar (INE) segir að erlendir ferðamenn hafi verið 85 milljónir á Spáni árið 2023, aðeins Frakkland er vinsælla ferðamannaland. Af þessum fjölda höfðu 14,4 milljónir viðdvöl á Baleareyjunum. Aðeins eitt spænskt hérað dregur til sín fleiri ferðamenn, Katalónía (Barcelóna), en þeir voru 18 milljónir þar árið 2023.

Images_1716719748187Frá mótmælum á Mallorca 25. maí 2024,

Hér hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir til að stemma stigu við áhrifum aukins straums ferðamanna á almennan húsnæðismarkað. Utan þéttbýlis verða þeir sem reisa hótel jafnframt að reisa hús fyrir starfsfólk sitt eða gera aðrar sérstakar ráðstafanir til að tryggja því dvalarstað. Í þéttbýli er stöðugur skortur á húsrými. Stefna Reykjavíkurborgar um þéttingu byggðar hefur stuðlað að húsnæðisskorti án þess að borgaryfirvöld viðurkenni það í orði eða á borði.

Fréttir eru um slaka í bókunum ferðamanna hér, þeir sem komi stytti dvöl sína og dragi úr neyslu. Af hálfu talsmanna ferðaþjónustunnar er talið að þróunina megi rekja til skorts á opinberum framlögum til auglýsinga og kynningarstarfs erlendis. Þá fái landið neikvæða ímynd vegna jarðelda og hræringa á Reykjanesi. Nú sé um 10-15% lakari bókunarstaða á gististöðum landsins miðað við sama tíma í fyrra.

Vafalaust hafa auglýsingar fjármagnaðar með skattfé einhver áhrif á fólk þegar það skipuleggur frítíma sinn og ferðalög. Dregið skal í efa að með slíkum aðferðum sé unnt að vega upp á móti áhrifunum sem fréttir af eldgosum skammt frá alþjóðaflugvelli lands hafi á þá sem íhuga skemmtiferð til landsins.

Í nútímaheimi þar sem menn hafa við fingurgómana tól og hugbúnað til að leiðbeina sér um hvert hagkvæmast er að ferðast sér til tilbreytingar og skemmtunar er líklegt að verðlag og það sem fæst fyrir það sem er í boði ráði ákvörðunum flestra um áfangastað.

Hér verður aldrei fjöldaferðamennska á borð við það sem er á Spáni, hvorki á meginlandi Spánar né á spænsku eyjunum. Sé stefnt að því, eins og virðist gert hér, að laða hingað ferðamenn sem horfa ekki í ferðakostnað og kjósa sérsniðna (dýra) þjónustu ber að leggja mikla rækt og alúð við að hámarka árangur á því sviði.