13.4.2018 10:19

Feluleikur í mannréttindamálum

Merkilegt er að lesa í dönsku blaði að ríkisstjórn Íslands hafi mótað sér skoðun gegn Dönum í þessu máli.

Því er fagnað í dönskum fjölmiðlum í dag (13. apríl) að Dönum hafi tekist í hálfs árs formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins að fá samþykki allra annarra 46 aðildarríkja ráðsins við endurbótum á „evrópska mannréttindakerfinu“ eins og það er orðað.

Þetta er haft eftir Søren Pape Poulsen, dómsmálaráðherra Dana, eftir tveggja daga fund ráðherraráðsins í Kaupmannahöfn. Hann segist bæði stoltur og glaður yfir að þetta sé komið í höfn því að um mikið metnaðarmál fyrir dönsku ríkisstjórnina sé að ræða.

Í frétt Jyllands-Posten segir að andstaða hafi upphaflega verið við tillögur Dana frá stjórnvöldum ýmissa landa t.d. Svíþjóðar, Noregs og Íslands. Orðalagi upphaflegra tillagna hafi verið breytt á þann veg að um þær náðist samstaða og meira að segja Tyrkir og Rússar standi að niðurstöðunni.

Danir hafa gagnrýnt „skapandi túlkun“ mannréttindadómara í Strassborg og sérstaklega gagnrýnt að þeir hafi oftar en einu sinni komið í veg fyrir að erlendum afbrotamönnum sé vísað á brott frá Danmörku.

Søren Pape segir þörf fyrir kerfi þar sem tekið sé hart á þeim ríkjum sem augljóst sé að virði ekki mannréttindi en mannréttindadómstóllinn eigi ekki að fjalla um smámál eða taka afstöðu í málum sem einfalt sé fyrir ríkin sjálf að afgreiða.

Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, og  Søren Pape Poulsen. dómsmálaráðherra Dana á ráðherrafundinum í Kaupmannahöfn.

Sumir spyrja hvort Danir hafi útþynnt tillögur sínar svo mjög að ekki sé réttmætt að tala um umbætur heldur texta með mörgum viljayfirlýsingum. Alls eru 67 greinar í Kaupmannahafnaryfirlýsingunni á 8 bls. ( sjá hér ).  Þar er meðal annars lýst „alvarlegum áhyggjum yfir þeim mikla fjölda mála sem enn eru óafgreidd af dómstólnum“ Eru aðildarríkin hvött til að „draga úr straumi mála“. Um þessar mundir bíða um 50.000 mál afgreiðslu dómaranna í Strassborg. Þegar málalistinn var lengstur árið 2012 biðu 150.000 mál afgreiðslu.

Merkilegt er að lesa í dönsku blaði að ríkisstjórn Íslands hafi mótað sér skoðun gegn Dönum í þessu máli. Hver var afstaða íslenskra stjórnvalda? Hvar var hún mótuð? Í ríkisstjórn eða á alþingi? Hafa aðrir miðlar en vefsíðan vardberg.is sagt frá umræðum um þetta mál að frumkvæði Dana? Ráðandi öfl meðal íslenskra lögfræðinga hafa ekki tekið undir gagnrýni á „skapandi túlkun“. Hún felur í sér að dómarar taka sér lagasetningarvald. Eru það þessi öfl sem hafa á bakvið tjöldin ráðið ferð íslenskra stjórnvalda í þessu máli?

Í lýðræðisríkjum á ekki að stunda feluleik þegar evrópsk mannréttindamál og grunnreglur þeirra eru til umræðu.