20.5.2022 9:56

Feilskot fyrir Samfylkingu

Hafi eitthvað gengið sér til húðar í þessum kosningum er það þessi útilokunartilraun gagnvart Sjálfstæðisflokknum.

Í aðdraganda kosninga hér er skoðanakönnunum beitt til að hafa áhrif á kjósendur. Að þessu sinni setti Fréttablaðið á forsíðu sína 10. maí niðurstöður könnunar fyrirtækisins Prósent frá 5. til 9. maí sem sýndu Sjálfstæðisflokkinn með 16,2% fylgi í Reykjavík. Fyrirsögn blaðsins var: Píratar mælast stærri en Sjálfstæðisflokksins. Þá sagði Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, að búast mætti við pólitískum jarðskjálfta. Sjálfstæðisflokkurinn fengi slæma útreið í kosningunum og mundi glata „feikilega“ sterkri stöðu sinni í sveitarstjórnum þar sem hann bæri höfuð og herðar yfir aðra flokka með 117 sveitarstjórnarmenn.

Hér á síðunni var vikið að þessari kenningu Þórðar Snæs fyrr í vikunni og þá sagt að Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið 110 sveitarstjórnarmenn í kosningunum 14. maí. Síðan hafa birst „nýjar“ tölur sem sýna að flokkurinn hlaut 113 sveitarstjórnarmenn kjörna af 323 mögulegum í þeim 35 sveitarfélögum þar sem hann bauð fram.

Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, segir að flokkurinn hafi að meðaltali notið tæplega 37% fylgis í þeim sveitarfélögum þar sem hann bauð fram eða rétt rúmum 3% minna en í mjög góðri kosningu flokksins árið 2018. Framsóknarflokkurinn naut fylgis um 28,5% að meðaltali þar sem hann bauð fram. Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í 21 sveitarfélagi og víða langstærstur. Sjálfstæðisflokkurinn er með hreinan meirihluta í 7 sveitarfélögum.

Þetta eru tölur um úrslit kosninganna en ekki spádómur um hver þau kunni að verða og þess vegna eru þær birtar hér.

IMG_4784Í ljósi niðurstöðunnar skrifar pólitíski jarðskjálftafræðingurinn Þórður Snær Júlíusson langa fréttaskýringu í Kjarnann. Nú undir fyrirsögninni: Að vinna þegar maður tapar. Hann dregur enn upp dapra mynd af Sjálfstæðisflokknum enda eru stjórnmálaskrif hans og tilvera Kjarnans reist á gamalkunnu kenningunni sem lá að baki stofnun Samfylkingarinnar árið 1999 um að leggja ætti allt í sölurnar til að ýta Sjálfstæðisflokknum til hliðar.

Hafi eitthvað gengið sér til húðar í þessum kosningum er það þessi útilokunartilraun gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Enn er reynt að halda lífi í henni við myndun meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Hún birtist þar í því fordæmi Dags B. Eggertssonar, fráfarandi borgarstjóra, að neita að eiga símtal við Hildi Björnsdóttur, oddvita sjálfstæðismanna. Meira að segja Kolbrúnu Bergþórsdóttur, menningarritstjóra Fréttablaðsins, blöskrar sú framkoma átrúnaðargoðsins og segir í leiðara í dag:

„Auðvitað á Dagur sín feilskot, það er til dæmis skrýtið að hinn prúði borgarstjóri hafi ekki séð ástæðu til að svara símtölum frá Hildi Björnsdóttur, leiðtoga Sjálfstæðismanna í borginni.“

Ástandið er nú þannig í Samfylkingunni að dv.is segir vinnustaðasálfræðing reyna að stilla til friðar í þingflokknum. Nálgast starfshættir Samfylkingarinnar á þingi nú æ meira það sem tíðkast hefur meðal pírata. Viðreisn límir flokkana saman í borgarstjórninni og það verður ef til vill að ráði sálfræðings sem Píratar og Samfylking mynda einn þingflokk.