1.3.2018 12:35

Febrúar - friður í kjaramálum

Stór orð hafa fallið undanfarnar vikur um að ákvörðun kjararáðs mundi valda sprengingu í kjaramálum. Í febrúar sannaðist að svo er ekki.

Stór orð hafa fallið undanfarnar vikur um að ákvörðun kjararáðs mundi valda sprengingu í kjaramálum. Í febrúar sannaðist að svo er ekki. Fimmtán félög innan BHM gerðu kjarasamninga í febrúar og hafa fjórtán þegar samþykkt þá. Aðeins er ósamið við tvö: Félag ísl. hljómlistarmanna og Félag ljósmæðra.

Síðasta dag febrúar ákvað formannafundar ASÍ að segja ekki upp gildandi samningum. Niðurstaðan er í anda pólitíska viljans sem birtist við myndun núverandi ríkisstjórnar: að höfuðmáli skipti að stuðla að þjóðfélagssátt og standa vörð um gífurlegan árangur sem náðst hefur í efnahags- og atvinnumálum frá árinu 2013.

961178Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, Ljósmynd mbl.is

Kjarasamningar á almennum markaði gilda til ársloka. Á fundi ASÍ greiddu 49 formenn atkvæði, 21 vildi segja upp samningunum en 28 höfnuðu því. Innan verkalýðshreyfingarinnar er hávær hópur andstæðinga ráðandi afla í ASÍ. Hann er óánægður með niðurstöðu formannafundarins. Þar er Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, fremstur í flokki og vegur að Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, með ásökunum um tvöfeldni. Í Fréttablaðinu í dag (1. mars) segir Ragnar Þór:

„Ef forsetinn kýs með því að segja upp samningum en hefur ekki bakland meirihluta formanna innan ASÍ þá er það ákveðið vantraust á hann. Hann átti að koma fram miklu fyrr og mynda stemminguna sem við vildum fá um uppsögnina. Ég held að það hafi verið meðvitað gert að gera það ekki. Gylfi var ekki að skapa þá stemmingu í aðdraganda þess sem við sáum í gær, en svo þegar niðurstaðan er klár þá er allt í einu kominn mikill vígahugur og baráttukraftur sem ég varð ekki var við í aðdraganda fundarins. Þetta var bara leikrit.“

Þetta eru alvarlegar ásakanir og í framhaldi af þeim boðar Ragnar Þór enn á ný að hann stefni að úrsögn VR úr ASÍ. Hótunarstefna Ragnars Þórs minnir helst á framgöngu Pírata á alþingi. Þeir gangast upp í því að atyrða einstaklinga og telja sig hafa rétt til að særa og móðga.

Í Fréttablaðinu bregst Gylfi Arnbjörnsson við skömmum Ragnars Þórs á þennan hátt:

„Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum yfir því að formaður okkar stærsta aðildarfélags [Ragnar Þór] velji sér þennan pól í hæðina í því viðfangsefni að byggja upp samstöðu. En þetta er ekki nýlunda og hann verður að eiga það við sig og sitt bakland hvernig hann vill leggja sitt af mörkum í því.“

Ragnar Þór telur átök skila meiri árangri en viðræður. Hann vill ekki aðeins átök á launamarkaði heldur einnig innan ASÍ. Að formaður VR beiti sér á þennan hátt er nýlunda miðað við sögu og hefðir þess félags. Fellur þessi hótunarstefna að vilja almennra félagsmanna í VR?

Líklega á að líta á það sem hluta af „lúxúsvandamáli“ að fyrrverandi samherji auðjöfranna í aðdraganda hrunsins, Gunnar Smári Egilsson, leiðir nú Sósíalistaflokk og ýtir undir óvinafagnað innan verkalýðshreyfingarinnar.