10.7.2022 11:10

Fáviska um ákvörðun Pútins

Eiga stjórnendur í Moskvu að hafa lokaorðið um ákvarðanir stjórnvalda og þjóða á óskilgreindu áhrifasvæði vestan landamæra Rússlands?

Það getur varla verið annað en fyrirsláttur hjá eldri borgaranum Werner Ívani Rasmussyni þegar hann spyr í grein í Morgunblaðinu föstudaginn 8. júlí hver ógni hverjum með innrás Pútins í Úkraínu fyrir tæpum fimm mánuðum. Hann óskar í upphafi greinar sinnar að „einhver fræðimanna okkar taki sér penna í hönd og upplýsi okkur almúgann um hver sé hin raunverulega orsök þess að upp er komin þessi harðsnúna deila á milli Rússlands og fjölda Evrópuríkja með NATO og BNA í bakgrunni“.

Þarna strax birtist að Werner Ívan lítur alveg fram hjá því sem upphafsmaður stríðsins, Vladimir Pútin Rússlandsforseti sagði áður en hann gaf fyrirmælin um innrásina 24. febrúar 2022. Hann vildi afvopna og af-nazistavæða Úkraínu sem hann taldi í raun ekki ríki heldur hluta af Stór-Rússlandi.

Bernie-ecclestoneBernie Ecclestone

Ísak Rúnarsson sem stundar MPA-nám í Harvard segir í grein í Morgunblaðinu laugardaginn 9. júlí:

„Til að kóróna yfirlýsingarnar hefur hann [Pútin] svo einnig haldið því fram að Úkraína sé ekki raunverulegt land og Úkraínumenn ekki raunveruleg þjóð. Ekkert í slíkum yfirlýsingum bendir til að Atlantshafsbandalagið sé vandamálið.“

Werner Ívan segir að „allverulega“ hafi verið þrengt að Rússlandi úr vestri og virðist hallur undir þá skoðun að stjórnendur í Moskvu eigi að hafa lokaorðið um ákvarðanir stjórnvalda og þjóða á óskilgreindu áhrifasvæði vestan landamæra Rússlands. Fyrir hönd lýðfrjálsra þjóða eigi einhver aðili, NATO eða ESB (?), að leggja blessun sína yfir ákvarðanir Rússa með því að hafna óskum ríkjanna um aðild að þessum fjölþjóðasamtökum.

Þetta viðhorf á jafnvel hljómgrunn innan háskólasamfélagsins hér megi marka skoðanir alþjóðastjórnmálafræðings við Háskólann á Akureyri.

Í kalda stríðinu skiptist heimurinn í áhrifasvæði. Átök utan meginlands Evrópu tóku mið af hugmyndafræðilegum ágreiningi milli austurs og vesturs, kommúnisma og kapítalisma. Tilvísanir Werners Ívans til þess sem gerðist í Kúbudeilunni taka mið af slíkri skiptingu heimsins. Vill hann að hún komi að nýju til sögunnar?

Werner Ívan tekur ekki afstöðu til aðildar Finna og Svía að NATO, stór ákvörðun um stækkun bandalagsins sem má rekja beint til innrásar Pútins í Úkraínu. Telur hann að þessar þjóðir séu á áhrifasvæði Pútins og því hefði átt að hafna NATO-aðild þeirra?

Hálfkveðnar vísur í þágu Pútins einkenna greinina. Á dögunum sagði eldri borgarinn og Formúlu 1 frumkvöðullinn Bernie Ecclestone (91 árs) að hann væri tilbúinn til að láta skjóta sig fyrir Pútin sem hann lýsti sem „fyrsta flokks manni“. Aðeins liðu fáeinir sólarhringar þar til hann baðst afsökunar á „hugsunarleysi“ sínu. Hann væri ekki að verja það sem Pútin gerði nú í Úkraínu. „Úkraínumenn gerðu ekkert rangt. Þeir byrjuðu ekki á neinu. Þeir vilja aðeins fá að lifa eigin lífi,“ sagði hann.