Farþegalistagatinu lokað
Í fyrra, árið 2024, ákvað framkvæmdastjórnin svo að semja á sama hátt við Schengen-ríkin utan ESB þ.e. Ísland, Noreg og Sviss. Má rekja frumvarp dómsmálaráðherra nú til þeirrar ákvörðunar.
Umræður um brotthvarf Úlfars Lúðvíkssonar úr embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum hafa beint athygli að því að ekki hafi öll evrópsk flugfélög afhent íslenskum yfirvöldum umbeðna farþegalista vegna komu véla til Keflavíkurflugvallar. Úlfar hefur gert verulegt veður út af þessu.
Núverandi dómsmálaráðherra Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (Viðreisn) hampar því hins vegar að hún hafi flutt lagafrumvarp nú í mars til að loka þessu farþegalistagati. Af orðum hennar mætti ráða að þar hefði hún á fáum vikum sem nýr ráðherra tekið til hendi í „verkstjórninni“, eins og auðmjúk ríkisstjórnin kallar sig. Þeir sem trúa orðum ráðherrans um eigin dugnað verða fyrir vonbrigðum við að kynna sér frumvarpið. Það er afrakstur margra ára vinnu og samnings við ESB sem ekki kemur til framkvæmda nema lagafrumvarpið verði samþykkt. Hér verður stuðst við greinargerð frumvarpsins:
Árið 2021 var sett á stofn sérstök farþegaupplýsingadeild innan embættis ríkislögreglustjóra sem annast móttöku og vinnslu farþegaupplýsinga. Deildin móttekur nú um 100% farþegaupplýsinga fyrir komu og brottför til og frá Íslandi utan Schengen-svæðisins og um 93% farþegaupplýsinga fyrir komu og brottför til og frá Íslandi innan Schengen-svæðisins á loftlandamærum. Lægra hlutfallið skýrist af því að tiltekin evrópsk flugfélög hafa ekki afhent íslenskum stjórnvöldum upplýsingar um farþega og áhöfn þar sem þau hafa talið að þeim sé það ekki heimilt á grundvelli persónuverndarregluverks Evrópusambandsins. Frá árinu 2016 er í gildi er svonefnd PNR-tilskipun sem öll aðildarríki ESB hafa leitt í lög sín. PNR-upplýsingum, farþegabókunargögnum, safnar flugfélag við farmiðabókun eða ferðaskrifstofa við bókun á tiltekinni ferð.
Ber flugfélögum að miðla PNR-upplýsingum til lögbærra yfirvalda í aðildarríkjum sambandsins. Tilskipun þessi kveður einnig sérstaklega á um hvernig yfirvöld skuli meðhöndla og vinna þessar upplýsingar.
Þar sem tilskipunin er aðeins skuldbindandi fyrir ESB-ríki er Ísland ekki aðili að henni og hefur því efni hennar ekki verið innleitt í íslensk lög. Vegna þessa hafa tiltekin evrópsk flugfélög litið svo á að þeim sé ekki heimilt að afhenda íslenskum stjórnvöldum PNR-upplýsingar á grundvelli eigin landslaga sem byggjast á tilskipuninni, einkum reglna sem varða persónuvernd. Ríki innan og utan Evrópu hafa ekki sætt sig við þessa afstöðu. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins brást við gagnrýni með því að gera sérstaka tvíhliða samninga við Bandaríkin, Bretland og Ástralíu sem heimila evrópskum flugfélögum að afhenda viðkomandi ríkjum þessar upplýsingar.
Í fyrra, árið 2024, ákvað framkvæmdastjórnin svo að semja á sama hátt við Schengen-ríkin utan ESB þ.e. Ísland, Noreg og Sviss. Má rekja frumvarp dómsmálaráðherra nú til þeirrar ákvörðunar og viðræðna fulltrúa dómsmálaráðuneytisins til ESB sem hófust árið 2023.
Er áætlað að íslensk stjórnvöld skrifi undir samninginn við ESB fyrir lok þessa árs enda samþykki alþingi frumvarpið sem liggur fyrir þinginu.
Hvort dómsmálaráðherra fær frumvarpið samþykkt kemur í ljós. Ráðherrann greiðir ekki fyrir afgreiðslunni með ónotum í garð annarra vegna málsins.